16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Allmjög ætlar framkvæmd þessa máls að dragast á langinn. Hæstv. viðskrh. segir okkur að hann muni halda áfram svo sem hingað til að vinna að framkvæmd þessarar þál. að svo miklu leyti sem hægt sé. Og svo sver hann fyrir það, að kippt hafi verið í nokkurn spotta. Hér í hv. sameinuðu þingi hefur verið kippt býsna fast og oft í spotta í sambandi við þetta mál. Ef það er ekki að kippa í spotta, sú umfjöllun, sú aðgerð sem hann hefur mátt sæta hér í sameinuðu þingi varðandi framkvæmd þessa máls, þá vil ég ekki þurfa að horfa upp á að kippt verði í spottann hjá honum umfram þetta.

Sannleikurinn er sá, að við getum ekki sætt okkur við svör af þessu tagi. Það veit hver heilvita maður að það er hægt að koma á beinum greiðslum til bænda, þeirra sem það vilja. Það er hægt. Það er ákaflega einfalt mál. En það er ljóst mál að það verður gert í trássi við vilja ónafngreindra aðila. Þessi ákvörðun hefur verið tekin. Þessi þáltill. var samþykkt að loknum umræðum hér á Alþingi og það voru engir kjánar sem gerðu þessa samþykkt. Ég er ekki viss um að þeir hafi verið neitt vangefnari en hinir sem greiddu atkv. gegn henni.

Ég ítreka það, að ég vildi gjarnan losna við að heyra bornar fram afsakanir enn einu sinni eins og þær sem hér hafa komið fram.