16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er nú eiginlega undrandi á þeim umr. sem hér fara fram. Sem sagt, það virðist vera að ýmsir þm. taki ekkert tillit til vilja bændanna í þessu efni. Það skiptir þá engu máli hvað þeir vilja. Það er af sem áður var.

Ég verð að segja það, að mér kom mjög á óvart það, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði áðan í þessu efni, og enn þá meira það, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson lét sér um munn fara. Ég vil vænta þess, að það sé ekki litið þannig á bændastéttina hér á hinu háa Alþingi, að það sé sú eina stétt sem þurfi ekki að taka tillit til.