16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég tel ekki óeðlilegt að ég láti í mér heyra í sambandi við þetta mál, sem hér er einu sinni enn til umr. á hv. Alþingi. Mér sýnist þó að umr. hafi gengið nokkuð í undarlegar áttir. Menn virðast t.d. rugla mjög saman afurðalánum og rekstrarlánum, telja þau vera sama eðlis og með sama hætti hægt að leysa það, hvernig þau eru afhent. Ég tel að þarna sé um tvennt ólikt að ræða. Afurðalánin, sem veitt eru á haustdögum, eru til þess að standast kostnað af þeim birgðum sem afurðasölufélögin liggja með, en reyna að svara út sem mestu af verði þeirra til bændanna. En þegar ástandið í landbúnaðinum er eins og það er núna hér á Íslandi, að í fleiri greinum er um umframframleiðslu að ræða, þá verður erfitt að finna mörkin á því, hvað á að borga mikið af því sem framleitt hefur verið. Þetta er það eina sem ég tel að hamli því, að afurðalánin verði hægt að láta ganga beint til bænda, án þess að milliliðir hafi eitthvað um það að segja. Allt öðru máli gegnir um rekstrarlánin sem eru veitt til þess að standast kostnað við framleiðsluna áður en varan fellur til. Það er auðvelt að koma þeim lánum beint áfram til bænda. Ég skil ekki þá bankamenn sem halda öðru fram.

Þetta vildi ég láta koma fram hérna. Mér sýnist að hér sé um tvenns konar mál að ræða. Annað virðist vera að mínum dómi auðleyst, hinu þarf að velta vöngum yfir og e.t.v. að umturna kerfinu á einhvern hátt til þess að það komist í örugga höfn.

Í umr. hér var spurt hvaðan það fjármagn ætti að koma sem færi á þennan hátt beint til bænda. Ég held að það þurfi ekki að brjóta heilann um það. Afurðalán og rekstrarlán eru veitt. Það fjármagn er í gangi, en e.t.v. er það ekki komið strax í réttar hendur. Það er það sem við erum að ræða um hér, ekki að það þurfi að fara að útvega eitthvert nýtt fjármagn í þessu efni, heldur að það komist á leiðarenda.