16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég sé að hv. þm. Sverrir Hermannsson er ekki hér staddur. Það væri kannske hægt að ná til hans ef hæstv. forseti vildi gera svo vel. Ég á vantalað við hann.

Ég vonast til þess, að hv. þm. gangi fljótlega í salinn. Hann lýsir því yfir, að það eigi að draga ráðh. fyrir landsdóm, og hleypur svo út úr þingsalnum þannig að það er ekki hægt að ná til hans til þess að svara honum.

Þá gengur hv. þm. í salinn. Ég var að segja, hv. þm. Sverrir Hermannsson, að fyrst lýsi þm. yfir að það eigi að draga ráðh. fyrir landsdóm og svo hlaupi hann út úr þingsalnum. Varðandi þá yfirlýsingu vil ég vísa til þess sem ég hef rakið í mínu svari, í fyrsta lagi, að ráðh. skipaði á sínum tíma — þó að það væri ekki ég — sérstaka nefnd til að fjalla um þetta mál. Í þeirri nefnd voru bæði alþm., bankastjórar og fulltrúar — (SvH: Ég þarf að bera af mér sakir.) Ég er ekki byrjaður enn þá — fulltrúar bænda. Nefndin starfaði alllengi og mikið í þessu máli og komst að þeirri niðurstöðu, hvort sem hv. þm. líkar það betur eða verr, að það væri ákaflega torvelt að framkvæma þál. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu. Ég hef aldrei sagt það, hvorki hér í þessum ræðustól né annars staðar. Það, sem ég hef verið að gera sem ráðh., er að ég hef látið leggja í það mikla vinnu að reyna að framkvæma þál. að svo miklu leyti sem það er mögulegt. Og fyrir þetta verk, að leggja í þetta mikla vinnu, ætlar hv. þm. að draga mig fyrir landsdóm, fyrir það að ég er að bisa við að reyna að framkvæma þál. sem er kannske erfitt að framkvæma og fjölmenn nefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákaflega torvelt sé að framkvæma. Fyrir þetta ætlar hv. þm. að draga mig fyrir landsdóm. Það verður þá í fyrsta sinn sem landsdómur kemur saman.

Ég vil enn fremur geta þess í þessu sambandi, að þó að nokkuð langur tími sé liðinn frá því að ályktunin var samþykkt, þá eru þó engin tímamörk í henni. Rétt er að hafa það í huga áður en menn láta verða af því að kveðja saman landsdóm út af þessu máli.

Til viðbótar vil ég svo vísa enn til þess sem kom fram hér áður, að hv. fyrirspyrjandi lét að því liggja, og það fannst mér mjög athyglisvert, að það þyrfti e.t.v. kerfisbreytingu til þess að framkvæma þetta, breytingu á þessu kerfi öllu saman. Það segir vissulega sína sögu. En ég vil ítreka það hér enn, að ég mun halda áfram að Vinna að málinu og væntanlega segja mína skoðun að lokum á því; að hve miklu leyti ég telji mögulegt að framkvæma þál.

Það hefur verið vísað til afstöðu bændanna sjálfra í þessu máli og er ástæða til þess að undirstrika það. Viðskrn. hefur fengið bréf frá Stéttarsambandi bænda sem er ritað 26. jan. s.l. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi stjórnar Stéttarsambands bænda þann 21. þ. m. var lagt fram bréf yðar, dags. 18. jan., þar sem spurst er fyrir um afstöðu Stéttarsambandsins til þál. um beinar greiðslur til bænda. Á fundinum samþykkti stjórnin eftirfarandi ályktun:

Stjórn Stéttatsambands bænda telur að það fyrirkomulag og greiðslur rekstrar- og afurðalána, sem verið hafa undanfarin ár, hafi reynst vel og sé því ekki ástæða til róttækra breytinga á því. Bent skal á að þær reglur, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins setur sláturleyfishöfum um útborgun til bænda, gera ráð fyrir að greidd sé út nokkru hærri fjárhæð en afurðalánunum nemur.

Ljóst virðist að það fyrirkomulag, að hver framleiðandi taki lánin beint, án milligöngu sölufélags, muni reynast flókið og erfitt í framkvæmd og mjög kostnaðarsamt fyrir bændur. Stjórn Stéttarsambandsins telur því eðlilegt að það verði áfram svo, að sölufélögin taki og beri ábyrgð á rekstrar- og afurðalánunum, en framleiðendur, sem þess óska, geti fengið rekstrarlánin greidd út eða lögð á reikning sinn.“

Þetta er samþykkt sem stjórn Stéttarsambands bænda gerði 18. jan. s.l. og ég tel að eigi erindi inn í umr. um þetta mál.