16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Mér finnst heldur illa með tímann farið að nota hann í það ár eftir ár að ræða þessa hugmynd hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Hún var nefnilega í upphafi flutt meira fram af kappi en forsjá og illu heilli var hún samþykkt hér á Alþingi í formi þál. Ég mælti þá fyrir minnihlutaáliti og benti á, að þetta væri óframkvæmanlegt, og þóttist leggja fram gögn máli mínu til stuðnings. En því miður myndaðist meiri hluti fyrir að samþykkja þessa tillögu.

Það er komið fram að bændur sjálfir kæra sig ekki um þetta fyrirkomulag. Það finnst mér að hljóti að vega nokkuð þungt í þessu máli. Það eru ótal meinbugir á framkvæmdinni. Það er hægt að nálgast suma þættina í framkvæmd, en aðrir eru mjög torveldir.

Það er auðvitað slæmt ef ríkisstj. getur ekki hrundið í framkvæmd ályktunum Alþingis, en mér finnst þó að sá lærdómur, sem við megum draga af þessu, sé að reyna að varast það eins og við mögulega getum að samþykkja vanhugsaðar tillögur. Úr því sem komið er er náttúrlega engin leið önnur fyrir viðskrh. en að halda áfram að reyna að framkvæma ályktun Alþingis eða einhverja hluta hennar eftir því sem mögulegt er og hægt er að koma fyrir með vitrænum hætti.