16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

335. mál, rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að svara hv. þm. Sverri, en hann er náttúrlega þotinn burt. Er hann alltaf inni í Framkvæmdastofnun? Hann á ekki að vera þar. Hann á að vera hér á þingi.

Hann sagði að það hefði verið sett í þetta framsóknarnefnd. Það þýðir að það hafi verið eintómir framsóknarmenn í nefndinni að sjálfsögðu, geri ég ráð fyrir. Framsóknarnefnd — ég er hálfhræddur um að hv. þm. sé orðinn hálfruglaður í þessu. Það er eðlilegt að hann verði ruglaður á hlaupum á milli Framkvæmdastofnunarinnar og Alþingis. Ég þekki þetta dálitið. Framsóknarnefnd. Magnús Jónsson bankastjóri, fyrrum ráðh. Sjálfstfl., hinn ágætasti maður, ekki er hann framsóknarmaður. Hann sat í þessari nefnd. Kjartan Ólafsson fyrrum alþm., ritstjóri Þjóðviljans, ekki er hann framsóknarmaður. Svona gæti ég haldið áfram til að svara þessari staðhæfingu hv. þm. um að það hafi verið sett í þetta framsóknarnefnd.