16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

336. mál, beinar greiðslur til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hér hafa nú orðið bæði mjög skemmtilegar og gagnlegar umr. Þó hafa þær kannske verið heldur langdregnar um þessa fyrri fsp., og vonandi verður greiðara um svör við síðari fsp. sem beint er til hæstv. landbrh. Hún er raunar í sex liðum. Menn eru sjálfsagt búnir að gleyma þessu frá því í októbermánuði þegar fsp. var fram borin. Ég ætla því, með leyfi forseta, að lesa fsp. upp. Ég vil samt taka skýrt fram að það er ekki sök hæstv. landbrh. að jafnlengi hefur dregist að svara þessari fsp. og hinni fyrri, því að það varð að samkomulagi milli okkar að þær yrðu báðar ræddar sama daginn, en hæstv. viðskrh. gat ekki, eins og ég sagði áðan, svarað fyrr en nú. Ég vil því taka það fram, að ég á ekki sökótt við landbrh. í því efni. En fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvað líður athugunum þeim sem landbrh. hefur látið gera til að tryggja framgang ályktunar Alþingis frá 22. maí 1979 um beinar greiðslur til bænda?

2. Hvenær er ætlun ríkisstj. að nýjar reglur um greiðslur útflutningsbóta og niðurgreiðslna,sem tryggi að fjármunirnir nýtist betur, komi til framkvæmda?

3. Hefur verið athugað hvernig heppilegast væri að afnema „kvótakerfið“. samhliða beinum greiðslum til bænda?

4. Er ætlun ríkisstj. að viðhalda bæði „kvótakerfi“ og fóðurbætisskatti hversu erfitt sem árferði verður landbúnaðinum?

5. Hvernig hefur reynslan orðið af framkvæmd „kvótakerfisins“?

6. Hefur ríkisstj. rætt úrræði sem gripið yrði til ef fóðurbætisskatturinn yrði dæmdur ólöglegur?“

Eins og menn heyra er hér um allvíðtækt svið að ræða og ég get ímyndað mér að hæstv. ráðh. nýtist kannske varla tími sá sem hér er skammtaður til að svara þessu öllu ítarlega. Ég vona þó að við fáum einhver svör við hverjum lið fyrir sig, en allir eru þeir bornir fram af miklu tilefni því að erfiðleikar í landbúnaði eru geysimiklir. T.d. hygg ég að kvótakerfið muni verða landbúnaðinum þungt í skauti ef því verður við haldið og samhliða verði t.d. fóðurbætisskattur í því misjafna árferði sem verið hefur.

Þar sem talað er um hvað líði athugunum landbrh. er tilefnið það, að hann hefur marglýst yfir að hann sé að láta athuga þessi mál og hann hafi áhuga á að athuga þau. T.d. sagði hæstv. ráðh. 25. nóv. 1980, með leyfi forseta:

„Ég vil svo aðeins taka það fram í sambandi við þessar fsp., að eftir því sem vinnukraftur í Stéttarsambandi bænda og hjá bændasamtökunum hrekkur til, sem eðlilegast er að vinni þetta að meginhluta, tel ég eðlilegt að frekari athuganir fari fram á þessum leiðum.“

Og síðan sagði hann: „Ég lýsti hér yfir áðan, að ég hefði áhuga á því að athuga þessar leiðir frekar en gert hefur verið, og þarf ekki að ítreka það.“

Að því er varðar afstöðu bænda í þessu efni er rétt að taka það fram, að á Búnaðarþingi strax 1979 var farið mjög vinsamlegum orðum um þennan lið till., þ.e. að greiða niðurgreiðsluféð og útflutningsbæturnar að verulegu leyti beint til bænda, en láta það ekki fara í gegnum afurðasölufyrirtækin. Stéttarsambandið eða starfsmenn þess, Árni Jónasson og raunar þáv. formaður Stéttarsambandsins, Gunnar Guðbjartsson, unnu mikið starf með okkur nokkrum þm. og áhugamönnum að því að athuga hvernig þessu yrði best fyrir komið, og var skrifuð um það löng greinargerð frá Stéttarsambandinu sem var reyndar stíluð til mín, en ég lét menn hér hafa aðgang að. Þar var m.a. bent á þá leið, að fjórðungur af verðmæti afurðanna, grundvallarverðinu, yrði greiddur beint til bændanna, en síðan gætu menn framleitt meira — þetta er takmarkað við einhverja ákveðna bústærð, t.d. 400 ærgildi eða 500, — ef þeim sýndist og þeir rækju sín bú svo vel að þeir þyrftu ekki nema þau 75% sem afurðasölufélögin greiddu, og þannig væri hægt að koma við takmörkun á framleiðslunni samhliða þessum beinu greiðslum til bændanna, sem eru kannske mánaðarlega, þannig að þeir fengju sín vinnulaun eins og annað fólk í þessu landi og hefðu þá tvær flugur verið slegnar í einu höggi: engin þörf verið fyrir kvótakerfi eða aðrar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til til takmörkunar, heldur hefði þetta getað gengið sjálfkrafa fyrir sig. Þeir bændur, sem ég hef rætt þetta við, hafa nánast allir verið þeirrar skoðunar, að þetta væru kerfi sem þyrfti að taka upp eða a.m.k. kanna miklu betur. Ég veit, að hæstv. landbrh. hefur látið vinna að þessu máli, og bíð með áhuga eftir að heyra svör hans, en langar að bæta við aðeins einni fsp. til hans líka.

Hann upplýsti á almennum fundum norður í landi fyrir skömmu að 29 millj. kr., að mér skildist, af niðurgreiðslufé og uppbótafé hefðu nú fyrir áramót verið greiddar fyrir fram, sem ekki hefði verið gert áður. Gæti Alþingi fengið upplýsingar um hvernig það mál er vaxið?