16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2465 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

336. mál, beinar greiðslur til bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi fram við þessa umr., að á aðalfundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var að Laugum í Þingeyjarsýslu, var einmitt rætt um hvort bændur vildu mæla með því, að orlofsfé yrði greitt beint til bændanna. Ég vil að það komi fram, að þessari hugmynd var hafnað, og ég held að menn hafi verið alveg sammála. Ég man ekki betur en menn hafi verið sammála um að breyta ekki þarna um.

Það hefur verið talað dálitið um kvótakerfið, galla þess. Það þarf enginn að halda að það sé nein leið góð þegar komið er að því að það þarf að draga úr framleiðslu. Þessi mál voru rædd í mörg ár. Þetta varð niðurstaðan sem meiri hluti bændanna taldi að væri rétt að fara eftir. Þeir voru annarrar skoðunar en síðasti ræðumaður.

Þeir töldu að það væri mjög óhagkvæmt fyrir þá og þjóðfélagið að framleiða vöru sem væri lítið eða ekkert hægt að fá fyrir, en ef menn vissu fyrir fram að þeir fengju fullt verð fyrir ákveðið magn mundu þeir fara að athuga hvernig þeir gætu dregið úr framleiðslukostnaðinum þannig að þeir hefðu sem mest upp úr því magni sem þeir fengju verð fyrir. Ég held að það hafi sýnt sig á þessum tíma, að margir bændur hafa getað komið sínum málum þannig fyrir að þó að þeir hafi þurft að minnka framleiðsluna hafi þeir haft út úr búum sínum sæmilegar tekjur og einmitt farið inn á þá leið að reyna að draga sem mest úr kostnaðinum. Ég held að einmitt þetta, að vita fyrir fram fyrir hvað mikið magn fæst fullt verð, geri þetta að verkum og það sé kosturinn. Ókostirnir eru að vísu nokkrir. Ég er sammála hæstv. landbrh. um að það er mjög erfitt að búa við þetta lengi en á meðan við sjáum ekki aðrar leiðir skárri held ég að við verðum að halda þessa leið áfram.