16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

336. mál, beinar greiðslur til bænda

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Það eru einungis tvö smáatriði.

Ég vil annars vegar geta þess, að mér kemur ekki til hugar að þessar greiðslur úr ríkissjóði fyrir áramótin til afurðasölufélaga landbúnaðarins hafi verið neitt laumuspil, enda gat ég þess í ræðu minni að hæstv. ráðh. hefði einmitt á almennum fundum fyrir norðan skýrt frá þessu. Það var ekki um þetta spurt vegna þess að ég teldi hér neitt laumuspil á ferð, heldur vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að málið yrði betur upplýst. Ég sé ekki betur en að svo miklu leyti sem þessir fjármunir hafa verið greiddir núna fyrr en áður, — þeir hafa safnast upp, eins og hæstv. ráðh. gat um að útflutningsbætur hefðu hlaðist upp ógreiddar á síðustu fjórum mánuðum síðasta árs, en verið greiddar fyrir áramót af fjármagni þessa árs, sem ekki hefði verið áður gert, — þá séu menn að éta fyrir sig fram. Ég sé ekki betur. Ef það er misskilningur gleður það mig auðvitað. Þess vegna líkti ég því við það sem gerðist í útveginum á síðasta ári, þegar reynt var með lánum og fyrirgreiðslum svokölluðum að bjargast frá viku til viku eða mánuði til mánaðar þangað til blaðran sprakk auðvitað þegar búið var að eyða þessu.

Hitt er smáatriði, sem ég vildi geta um, að ég var einungis að gagnrýna að við notuðum erlend lán til innanlandsneyslu eða til útflutningsbóta til að auka neyslu erlendis. Ég er á móti því að taka erlend lán til neyslu þó að erlend lán til framkvæmda geti veri eðlileg.