16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2473 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

350. mál, smáiðnaður í sveitum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fáein orð fyrir fsp., sem varamaður minn, Sigurður Óskarsson, bar fram hér á Alþingi fyrir jól og beindi til forsrh. Tilefni þeirrar fsp. er það, að á Alþingi, 100. löggjafarþinginu, kom fram tillaga um eflingu þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum. Alþingi samþykkti ályktun um þetta efni 14. maí 1979 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir sérstökum stuðningi opinberra aðila við stofnun þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum.

Byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins skal falið að rannsaka möguleika smáiðnaðar í sveitahreppum, safna hugmyndum um hugsanlegar framleiðslugreinar, kanna viðhorf og áhuga heimamanna víðs vegar um land og gera áætlun um framkvæmdir. Við undirbúning þessa máls ber einnig að taka mið af þeirri allsherjarathugun og tillögugerð varðandi atvinnumöguleika aldraðra, sem samþykkt hefur verið á Alþingi.

Jafnframt skal lánadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins falið að veita heimaaðilum aðstoð við stofnun fyrirtækja, sem komið er á fót samkvæmt þessari áætlun, og skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda. Sérstaklega ber að kanna möguleika á stofnun og stuðningi við framleiðslusamvinnufélög í sveitum. Stuðla ber að því, að veitt verði óafturkræf framlög úr Byggðasjóði eða ríkissjóði til stuðnings smáiðnaði í sveitum, allt að 15% stofnkostnaðar.

Þegar ár er liðið frá samþykkt þessarar tillögu skal ríkisstj. gefa Alþingi skýrslu um framkvæmd hennar.“ Ríkisstj. sendi þessa ályktun til Framkvæmdastofnunarinnar og óskaði eftir að þar yrði unnið að áætlunargerð í þessu efni. Sú áætlun var unnin strax á vegum byggðadeildar og hún er síðan samþykkt af stjórn Framkvæmdastofnunarinnar í maí 1980. Í þeirri bókun var þetta, með leyfi forseta:

„Stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins samþykkir áætlun að eflingu smáiðnaðar í sveitum. Stjórnin mun ábyrgjast þær tillögur um lánveitingar og styrki, sem í áætluninni felast, enda falli fyrirgreiðsla að lánsfjárramma. Byggðasjóðs hverju sinni og einstök mál verði metin hvert fyrir sig. Ákvörðun um framkvæmd tillagnanna er í tilraunaskyni og nú fyrir árið 1981.“

Eins og fram kemur í þessari bókun var litið svo á af stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, að þetta væri það nýmæli að vert væri að telja þetta sem eins konar tilraun til stuðnings við smáiðnaðaruppbyggingu, og segir í tillögum byggðadeildarinnar að þar sem lítil reynsla sé fyrir hendi séu eftirtaldar tillögur settar fram einungis til eins árs í einu, í fyrsta sinn fyrir árið 1981. Á því ári skal 20 smærri iðnfyrirtækjum í sveitum, annaðhvort nýjum eða starfandi fyrirtækjum, veitt ákveðin aðstoð til uppbyggingar.

Það er gert ráð fyrir því, með hverjum hætti þessi fyrirtæki verði fjármögnuð, og er það að nokkru leyti frá Byggðasjóði með framlagi og með láni. Í öðru lagi er gerð tillaga um lán úr Iðnlánasjóði til þessara hluta, en að öðru leyti yrðu þau fjármögnuð af eigin fjármagni þeirra, sem fyrirtækin setja upp, eða lánum frá viðskiptabanka. Þá er einnig gerð tillaga um stuðning við starfandi fyrirtæki, sem er fjármagnað með sama hætti, en þó í öðrum hlutföllum. Í þessu sambandi var einnig gert ráð fyrir því, að stuðningur yrði veittur við að efla heimilisiðnað í sveitum í ýmsum formum, og gæti ég trúað að það hefði getað leitt til hagsbóta og sérstakrar ánægju fyrir aldrað fólk, ef farið hefði verið að því ráði að hrinda slíkri áætlun í framkvæmd. Í því efni var fyrst og fremst reiknað með því, að ráðnir yrðu tveir hönnuðir til þess að hanna prjónaverkefni og vefnaðarverkefni fyrir þennan heimilisiðnað. Einnig var gert ráð fyrir því, að unnið yrði úr öðrum efnum, eins og t.d. rekaviði, beini, horni, leðri, smíðajárni eða fiskroði.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Mér vitanlega hefur ríkisstj. ekki tekið afstöðu til þessarar áætlunar um uppbyggingu smáiðnaðar í sveitum. Segir það sig sjálft, að á meðan ekki er tekin afstaða til hennar frá ríkisstj. hendi verður þessi tilraunaáætlun ekki framkvæmd, þar sem Byggðasjóður einn ræður því ekki hvernig með verður farið eða að verki staðið.