16.02.1982
Sameinað þing: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

350. mál, smáiðnaður í sveitum

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Áætlun Framkvæmdastofnunar um eflingu smáiðnaðar í sveitum var rædd á fundum ríkisstj. Eftir þær umr. var samþykki að vísa áætluninni til iðnrn. til frekari athugunar. Um þessa áætlun hefur síðan verið fjallað í iðnrn. í tengslum við aðrar iðnþróunaraðgerðir í landshlutum. Starfshópur á vegum rn., sem annast tengsl við iðnráðgjafa í einstökum landshlutum, hefur sérstaklega unnið að þessu máli. Auk fulltrúa frá iðnrn. eru í starfshópnum fulltrúar frá Iðntæknistofnun Íslands, byggðadeild Framkvæmdastofnunar og Samstarfsnefnd um iðnþróun.

Í sambandi við iðnþróun í strjálbýli og einstökum landshlutum hefur starfshópurinn lagt áherslu á undirbúningsaðgerðir áður en og jafnhliða því sem unnið væri að áætlun um þróun iðnaðar og stofnun fyrirtækja í strjálbýli. Til þess að áætlanir, þótt vandlega séu unnar, leysi vanda þarf jarðvegur fyrir iðnþróun að vera fyrir hendi.

Margvíslegar undirbúningsráðstafanir hafa verið gerðar, sem m.a. eru fólgnar í eflingu ráðgjafarþjónustu við iðnað í strjálbýli, einkum með starfsemi iðnráðgjafa, myndun iðnþróunarfélaga og svæðisbundinna iðnþróunarsjóða í tengslum við þau. Einnig er í undirbúningi námskeið við stofnun nýrra fyrirtækja og þróun starfandi fyrirtækja. Í þessu efni eru minni og meðalstór fyrirtæki einkum höfð í huga.

Hér hefur verið drepið lauslega á nokkur atriði sem er ætlað að styrkja undirstöðu iðnaðar á landsbyggðinni og þar með skapa betri skilyrði til að hrinda í framkvæmd fyrirliggjandi áætlun um eflingu smáiðnaðar í sveitum. Að lokinni endurskoðun á vissum þáttum áætlunar um eflingu smáiðnaðar í sveitum, í samræmi við það starf sem unnið hefur verið á síðasta ári, mun áætlunin tekin fyrir á næstunni á ný í ríkisstj.