17.02.1982
Efri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

202. mál, birting laga

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að taka það til sérstakrar athugunar og meðferðar hvort ekki eigi að setja reglur um fréttatilkynningar um ýmis atriði af hálfu ríkisstj., ráðuneyta og opinberra stofnana. Hingað til hafa engar slíkar reglur verið til. Það má segja að það sé nokkuð eftir atvikum, — ég vil ekki segja tilviljanakennt, en það fer nokkuð eftir atvikum, hvort fréttatilkynningar hafi verið sendar út af opinberri hálfu. Það er alloft gert þegar viðkomandi aðila þykir ástæða til, en það má vel vera að ástæða sé til að gera slíkt oftar en gert er. Auðvitað kemur ákaflega margt annað og fleira til greina en aðeins brbl.

Ég er því alveg sammála, að það er sjálfsagt að opinberar stofnanir og stjórnvöld kynni fjölmiðlum og almenningi ýmislegt sem er að gerast eða ákvarðanir, sem eru teknar, í ríkara mæli en gert hefur verið. Er sjálfsagt að láta kanna — og mun ég gera ráðstafanir til þess — hvort ekki ætti að setja um það reglur, en slíkt þarfnast nokkurs undirbúnings. Hins vegar vil ég ekki að það liggi fyrir ómótmælt, sem segir bæði í grg. þessa frv. og í framsöguræðu hv. þm., því að það er ekki rétt sem þar er farið með.

Í grg. frv. segir að tilefni þess sé að 14. jan. hafi misbrestur orðið á því, að Alþingi og fjölmiðlum væri kynnt efni brbl. Hv. 2. flm. sagði að ekki hefði verið gefin út fréttatilkynning um þessi brbl. eins og ven ja væri til, og taldi að hér væri um mistök að ræða. Þetta er allt saman rangt. Það var skýrt frá því í umr. utan dagskrár á Alþingi í Sþ. um daginn, að samkv. upplýsingum blaðafulltrúa ríkisstj. væri ekki venja að senda út sérstakar fréttatilkynningar um brbl. Það hefur stundum verið gert, en er engin föst ven ja og líklega oftar sem það hefur ekki verið gert.

Í öðru lagi er það rangt, að fjölmiðlum hafi ekki verið kynnt efni laganna, því að eins og kom fram í umr. í Sþ. var það blað Stjórnartíðinda, sem brbl. eru prentuð í og kom út 14. jan., sent öllum fjölmiðlum að sjálfsögðu, eins og Stjórnartíðindi alltaf eru, þannig að þetta komst allt saman í hendur fjölmiðla. Hitt er svo annað mál, hvort fjölmiðlar hafi stungið þessu undir stól eða ekki.

Það fær því ekki staðist, að hér hafi verið um eitthvert laumuspil að ræða, eins og hv. andstæðingar brbl. hafa verið að gefa í skyn. Þessu verður að mótmæla því að hér er ekki farið með rétt mál.

Hins vegar vil ég undirstrika það, sem er aðalatriði málsins og ég veit að vakir fyrir hv. flm. sem töldu ástæðu til að kveðja sér hljóðs utan dagskrár í Sþ. fyrir nokkrum dögum, — ég veit að það er áhugamál þeirra að fréttatilkynningar séu gefnar út um það sem máli skiptir. Það á því ekki eingöngu að mínu viti við brbl., heldur um margvíslegar aðrar ráðstafanir og ákvarðanir og ekki aðeins gerðar af ríkisstj., heldur einnig af öðrum opinberum stofnunum, og verður að sjálfsögðu hugað að því að undirbúa slíkar reglur.