17.02.1982
Efri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

202. mál, birting laga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði sennilega ekki kvatt mér hljóðs að þessu sinni ef ekki hefði komið til sérstök málfarstækni hv. þm. Eiðs Guðnasonar við umfjöllun þessa máls sem varðar útgáfu brbl. En þar vík ég að því, að hann reynir að gefa orðum sínum vægi með því að vísa til þess, að hann hafi fylgst með fréttamennsku í 15 ár, og er það ætlun hans að æ hafi verið birtir opinberar tilkynningar af hálfu ríkisstj. þegar gefin eru út brbl. Auki hann vægi þessara athugasemda með því að hann hafi fylgst með fréttamennsku í 15 ár, þá vil ég af fullkominni hógværð gefa orðum mínum og athugasemdum vægi með því að geta þess, að ég hef fylgst með fréttamennsku í 35 ár og staðhæfi eitt: að þar sem ég þekkti til og var fjallað um fréttir af þessu tagi af mikilli samviskusemi hafði fréttastjóri Ríkisútvarpsins og undirmenn hans fyrir því að lesa Stjórnartíðindi, þegar þau bárust fréttastofunni hverju sinni, og leita þess, hvort þar væri fréttaefni. Stjórnartíðindin voru hinar eldtraustu heimildir um málefni af þessu tagi. Opinberar fréttatilkynningar, þar sem unnið var í hendur fréttamanna, voru, ef svo má segja, ákaflega ótraustar og stopular síðari tíma uppátektir í sambandi við birtingu þess sem að lögum lýtur.