17.02.1982
Efri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2487 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

202. mál, birting laga

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vissi að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er mikill aðdáandi hæstv. núv. forsrh. En að hann skyldi telja sig þurfa að koma honum til hjálpar í þessu máli. það kom mér reyndar nokkuð á óvart. Ég skil ekki um hvað menn eru að deila hér. Hér er um ákaflega einfalt mál að ræða, en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur satt best að segja ævinlega hæfileikann til að koma mönnum á óvart og þá oftast með dæmalausum málflutningi.

Hann skilur greinilega ekki um hvað er að tefla hér. Hann skilur greinilega ekki eða vill ekki skilja það, að eftir sem flestum leiðum upplýsingastreymis eigi fólk í landinu, sem á rétt á því, að fá að vita um stjórnvaldsaðgerðir. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. hafi meint það í alvöru þegar hann sagði að almenningur ætti að vera áskrifendur að Stjórnartíðindum. Ég hugsa að almenningur í landinu hafi nóg að borga þó að ekki bætist við áskrift að Stjórnartíðindum sem sjálfsagt kostar töluvert, og ekki varðar allt efni þar hagsmuni hvers manns. En það er furðulegt að menn skuli geta haft á móti því, að í lög komi ein setning um að brbl. skuli kynnt með fréttatilkynningum.

Ég sagði áðan að það væri mjög venjulegt að texti laganna væri sendur. Þá er einfaldlega sagt: Í dag voru gefin út svohljóðandi brbl. Síðan er það fréttamannanna að vinna úr. Það er lítilsvirðing við alla íslenska fjölmiðla að segja að þeir láti mata sig og séu svo gagnrýnilausir að þeir láti það ganga beina leið áfram til sinna viðskiptavina. Þetta er þungur dómur sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fellir hér yfir íslenskum fjölmiðlum. Ég held að hann sé rangur.

Það eina, sem þetta lagafrv. miðar að, er að tryggt verði — og tryggara en verið hefur, að almenningur í þessu landi, svo að ég noti eitt uppáhaldsorðatiltæki hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, — almenningur í þessu landi, sem á rétt á að vita, fái að vita, það sé tryggt. Ég skil satt að segja ekki hvernig og með hvaða rökum menn geti haft á móti því, að það verði tryggt, að þegar ríkisstj. gefur út brbl., sem er óvenjuleg lagasetning og á sér ekki stað fyrir opnum tjöldum. þá sé það kynnt svo rækilega sem mest má verða. Hvað í ósköpunum hafa menn á móti því? Vilja menn leyna einhverju?