18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þessar aths. eru út af fyrir sig fullkomlega réttmætar og sjálfsagt að hyggja að ýmsu því sem fram kom í máli hv. 5. þm. Vesturl. í sambandi við þetta mál.

Hann gat þess, að þetta frv. fæli það í sér að gengið væri til móts við ítrustu kröfur þeirra sem einkum hafa látið sig varða þetta mál. Ég efast um að það sé rétt. Hitt er annað, að eins og fram kemur greinilega og kom fram í ræðu minni um daginn er þetta frv. orðið til fyrir frumkvæði Blindrafélagsins og áhugamanna á því sviði og skipuð var nefnd manna af menntmrh. á sinni tíð, sem síðan skilaði áliti fyrir alllöngu, á síðasta vori reyndar, og þetta er verk nefndarinnar sem hér liggur fyrir. Kjarni málsins er að sameina á lagagrundvelli þá starfsemi sem þegar fer fram á þessu sviði, en nú um alllangt skeið, eða a.m.k. síðan 1975, hefur það verið sameiginleg starfsemi Borgarbókasafns Reykjavíkur og Blindrafélagsins að reka svokallað Hljóðbókasafn. En sem sagt: Það, sem í þessu frv. felst, og það er auðvitað grundvallarbreyting, eins og ég tók mjög skýrt fram í framsöguræðu minni fyrir málinu, er að þessi starfsemi yrði eftir þetta sérstök starfsemi á vegum ríkisins.

Það er alveg ljóst, að ef ætti að framkvæma þetta frv., og einkum þá útfærslu sem finna má í grg. með frv., er óneitanlega um kostnaðarsamt mál að ræða og menn mundu finna fyrir því í opinberum rekstri ef þetta ætti að dynja yfir á stuttum tíma. Hins vegar vil ég benda hv. 5. þm. Vesturl. á, að í 8. gr. segir að kostnaður við starfsemi Blindrabókasafns Íslands skuli greiðast úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt í fjárlögum. Auðvitað merkir það að fjárveitingavaldið hefur á hverjum tíma möguleika til þess að halda í við kannske allt of bráða framkvæmd þessa máls frá sjónarmiði fjárveitingavaldsins. Ég held að það sé ekki um að ræða að stjórn bókasafnsins, þessarar nýju stofnunar. skulum við kalla hana, hafi alveg sjálfdæmi um hvernig þetta mál verður framkvæmt.

Vissulega eru ýmsir möguleikar á að framkvæma þessa hugmynd á hagfelldari hátt en menn hafa áður komið auga á, m.a. með því, sem hv.5. þm. Vesturl. var að benda á, að nýta mætti aðstöðu í Ríkisútvarpi til hljóðbókagerðar. Mér finnst engan veginn útilokað að slíki verði gert, ef það á annað borð gæti fallið inn í starfsemi Ríkisútvarpsins og það yrði ekki fyrir neinum töfum eða aukabyrðum af slíkri starfsemi. Finnst mér mjög eðlilegt að ræða þann möguleika að nýta slíka aðstöðu sem þar kynni að vera, ég tala nú ekki um ef sú aðstaða batnar verulega á næstunni, sem vonandi verður. Þessar aths. koma því vel til greina.

Það er líka ljóst að höfundarréttarmálin grípa hér mjög inn í. Ég tók afar skýrt fram, held ég, í ræðu minni um daginn — þá var hv. þm. ekki viðstaddur — að alveg ljóst væri að við gætum ekki vænst þess, að rithöfundar sýndu sömu biðlund og þeir hafa gert til þessa í sambandi við þessa starfsemi. Ég held að það sé alveg ljóst að við verðum að búast við því, að þeir rétthafar, rithöfundarnir, muni gera kröfur til að fá greiðslur fyrir afnot af verkum sínum í þessu formi eins og í öðrum formum. Á þetta benti ég og er auðvitað alveg ljóst að þetta mun koma frekar til umræðu þegar til samþykktar kemur á þessu máli.

Ég vil líka minna á að höfundarréttarmál eru mjög til umræðu, eins og hv. þm. reyndar benti á, bæði á Norðurlöndum og reyndar í okkar eigin landi. Fyrir um það bil hálfu ári eða svo skipaði ég nefnd til að fara ofan í höfundarréttarmál og sú nefnd er að störfum. Það er ekkert efamál, að í sambandi við það nefndarstarf á margt eftir að koma upp í þessum efnum, og það mun áreiðanlega koma í ljós að höfundar og höfundarréttarhafar telja að víða sé á sér brotið og að nauðsynlegt sé úr að bæta. Ég er alveg sammála hv. þm. um það, enda áður minnst á það, að auðvitað mun ekki ganga til lengdar að hljóðbókasafn verði rekið sem alger mannúðarstarfsemi. Ég held að sé alveg útilokað að svo verði og að því leyti til get ég fallist á þessar aths. hv. þm.

Það má auðvitað til sanns vegar færa að hér sé um að ræða nýja stofnun. En ég held þrátt fyrir allt að það þurfi út af fyrir sig ekki að vera neinn sérstakur kostnaðarauki, ef við á annað borð förum út í að efla hljóðbókagerð og þessa sérstöku þjónustu við fatlað fólk, því að það mun alltaf kosta aukið fé alveg án tillits til þess, hvort starfsemin kynni að verða ávegum Borgarbókasafns Reykjavíkur eða hvort starfsemin yrði sjálfstæðari, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Sem sagt: Það er alveg ljóst að öll efling þessarar starfsemi mun kosta aukið fjármagn. Það held ég að sé alveg ljóst.

Ég tek undir þau hrósyrði sem hv. 5. þm. Vesturl. hafði um Borgarbókasafn. Mér er ljóst af kynnum mínum við þá sem þar stjórna, að það er mjög vel rekið fyrirtæki og lifandi stofnun. Það er alveg ljóst. M.a. ber að þakka það mikla frumkvæði, sem Borgarbókasafn hefur haft við hljóðbókagerð. Það framtak, sem þar var sýnt fyrir meira en 10 árum, hefur verið alveg ómetanlegt í sambandi við þessi mál. Ég vona að svo geti orðið áfram.

En sem sagt: Ég vænti þess, að þetta mál gangi til nefndar, og að sjálfsögðu verður nefndin að kanna þetta mál frá öllum hliðum eins og gerist. En í meginatriðum vil ég mælast til að nefndin fjalli jákvætt um þetta frv. og geri sitt til að það verði að lögum á þessu þingi. Að sjálfsögðu er ég og allir, sem að þessu máli standa, opnir fyrir því, að einhverjar breytingar kunni að verða gerðar á því, og ekki hef ég á móti því, að hv. menntmn. og þessi hv. deild fjalli ítarlegar um málið og breyti því sem breyta þyrfti til batnaðar í frv. Að sjálfsögðu ber að ræða þetta mál frá öllum hliðum, en ég held eigi að síður að hér sé um brýnt mál að ræða og mjög æskilegt að það kæmi löggjöf um þetta málefni.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um það, hvernig þessi mál hafa þróast, en ég vil þó rifja það upp, að öll þróunin í þessum málum framundir þetta hefur verið fyrir sérstaki framtak Blindravinafélagsins og Blindrafélagsins og nú á hinum seinni árum framtak Borgarbókasafns Reykjavíkur. Framlög ríkisins til starfsemi að þessu tagi eru í rauninni mjög óveruleg. Það er ekki fyrr en á árinu 1978 sem fyrsta fjárveiting er veitt í þessu skyni. 1979 fellur þessi fjárveiting niður. 1980 kemur enn ein fjárveiting til Hljóðbókasafnsins og svo aftur núna 1981 og 1982, þegar upphæðin er 220 þús. kr., sem er náttúrlega talsvert há upphæð miðaðvið þær fjárveitingar sem verið hafa undanfarin ár. Við erum því hvað þetta snertir rétt að stíga fyrstu sporin með veruleg framlög af hálfu ríkissjóðs í þessu skyni. Fram að þessu hefur þessi starfsemi verið borin uppi sem mannúðarmál og sem áhugamál þeirra sem beinlínis standa í þessu, — áhugamál fatlaða fólksins í landinu sem sjálfsagt hefur með sinni sjálfsbjargarviðleitni verið að reyna að bæta kjör sín. Ég held að það sé mjög brýnt að ríkissjóður komi til móts við þetta félagslega framtak og þessa mannúðarstarfsemi sem hefur verið. Reyndar gat ég þess í ræðu minni um daginn, að ég teldi það illa farið ef starfsemi Blindrafélagsins dytti að mestu leyti út í þessu efni og ef félagslega framtakið hyrfi þegar þessi lög yrðu samþykkt og farið væri að framkvæma þau og þarna yrði mynduð sérstök ríkisstofnun. Ég teldi það í raun og veru afturför ef Blindrafélagið missti áhugann á þessu sviði því að slíkt félagslegt framtak og áhugamannaframtak er mjög líklegt til þess einmitt að drífa áfram mál af þessu tagi.

Þetta eru aðeins örfá orð út af þeim aths. sem fram komu hjá hv. 5. þm. Vesturl., en ég vænti þess, herra forseti, að þetta mál gangi til menntmn., eins og till. er um, og að málið verði þar gaumgæfilega skoðað.