18.02.1982
Efri deild: 45. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég fagna því frv., sem hér liggur fyrir, og get tekið undir mjög margt af því sem komið hefur fram í þessum umr. En þarna er atriði sem ég vildi aðeins undirstrika og minna á og hv. síðasti ræðumaður kom að vísu örlítið inn á, en það er það mikla sjálfboðastarf sem hingað til hefur farið fram við að lesa inn á bönd bækur fyrir blinda og sjónskerta. Mér er persónulega kunnugt um að fólk í æðra námi, bæði í menntaskólum og í háskólanámi, sem hefur verið sjónskert, hefur notið mjög góðs af félögum sínum sem hafa aðstoðað það á margvíslegan hátt með því bæði að lesa upphátt fyrir það og með því að lesa inn á segulband. Ég vil aðeins benda á að það er kannske ekki stór hópur sem hér er um að ræða, en þetta er hópur sem við megum ekki gleyma. Nútímanám er flókið og margþætt og það er mjög mikilvægt að við getum nýtt hæfileika og fullnægt vilja og löngun þeirra, sem sjónskertir eru, til náms. Ég tel að það eigi að vera skýrt tekið fram í lögum um slíkt hljóðbókasafn, að þar séu aðstæður fyrir hendi til að lesa inn á segulband fræðibækur, kennslubækur, og eins til að hafa þar fyrirliggjandi grundvallarrit í ýmsum greinum. Það er mikill vandi á höndum þeim, sem lesa slík rit á segulband og ég býst við að í mörgum tilfellum verði að gera nokkrar breytingar á, það verði að haga niðurröðun efnis á nýjan hátt. Allt þetta kostar mikla vinnu og mikið fé. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að þessa atriðis sé gætt þegar hljóðbókasafn verður stofnað.

Ég man eftir því fyrir um það bil 12 árum, þegar starfsemi þessarar þjónustu Borgarbókasafns hófst, að ég var svo lánsamur, vil ég segja, að eiga örlítinn þátt í því, geta verið örlitið innan handar vegna starfa minna hjá Ríkisútvarpinu. Þessi hugmynd var þá ákaflega heillandi og ég held að allir þeir, sem þá var leitað til, hafi tekið þessu sem sjálfsögðum hlut, að það þyrfti ekki að koma nein gífurleg greiðsla fyrir þá þjónustu eða það efni sem þarna var flutt. Það horfir að vísu allt öðruvísi við þegar þetta er orðin stofnun með talsvert mikla útgáfustarfsemi, en ég vil sérstaklega vekja athygli á því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ekki á að gera þetta að féþúfu fyrir einn eða neinn.

Ég held að það hljóti að mega finna vænlegan grundvöll til þess að starfsemin getið komið að notum fyrir þá sem þurfa að njóta hennar. En ég vil benda á þetta með menntun og nám, að því verði ekki gleymt, að þó að ekki sé um marga einstaklinga að ræða eru það einstaklingar sem eiga fullan rétt á að njóta þess besta sem hægt er að láta í té.