18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram að ég stóð ekki að afgreiðslu þessa máls þar sem mér er ekki ljóst hvers vegna nauðsyn er að hraða því svo að það hljóti ekki athugun t.d. á Kirkjuþingi. Einnig hefur komið fram að það er starfandi nefnd nú þegar. Spurningin er því um lögfestingu og því að bæta forsetanum við.

Ég tel að það liggi nokkuð ljóst fyrir, að þessi nefnd yrði viss sía á Kirkjuþing og þær tillögur sem þaðan kæmu. Þess vegna finnst mér ekki óeðlilegt að það hefði tekið afstöðu til málsins áður en það yrði afgreitt sem lög frá Alþingi. Einnig hlýtur það að vera umhugsunarefni, hvort skipa beri samstarfsnefndir eftir þingflokkafjölda á Alþingi eða með hlutfallskosningu innan þingsins eftir styrkleika þingflokka. Nú er ekkert sem bannar að flokkum fjölgi og eftir sem áður yrði sú regla í gildi sem hér er lögð til. Ég veit ekki hvort að fordæmi er skynsamlegt gagnvart framtíðinni.

Frv. samþ. með 22:1 og afgr. til Ed.