18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Áður en ég kem að efni þessa frv. vil ég gjarnan vek ja athygli hæstv. forseta á ákveðnu ósamræmi í sambandi við prentaða dagskrá. 1. tölul. á dagskrá þess fundar, sem við erum nú á, heitir: Ráðstafanir í efnahagsmálum, frv.,- en frv. það, sem við erum að ræða, heitir: Frv, til laga um breytta tekjuöflun ríkissjóðs. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta þingsins á þessu ósamræmi og óska eftir að hæstv. forseti leiðrétti þetta. Það er stórt orð Hákot og hér hafa oft komið fram frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum, en ég held, að þetta frv. verði varla kallað því nafni, og vil óska eftir því við hæstv. forseta, að hann leiðrétti hina prentuðu dagskrá og láti þess getið í leiðréttingunni hvað málið, sem er hér til umr. heitir réttu nafni. Þessari beiðni minni er hér með komið á framfæri.

Frv., sem er til umr. nú, ætti ekki að þarfnast mjög langrar umfjöllunar við 1. umr. Hér er um að ræða dæmigert mál núv. hæstv. ríkisstj. Frv. þetta er einn þáttur í þeirri viðleitni hæstv. ríkisstj. að reyna að koma í veg fyrir að fram komi atburðir sem þegar hafa orðið. Hæstv. ríkisstj. er að reyna að koma í veg fyrir áð laun hækki 1. mars n.k. vegna verðhækkana sem þegar hafa orðið þegar þetta frv. er tekið til umr. Frv. er einn þáttur í þeirri viðleitni.

Vísitala framfærslukostnaðar er reiknuð út, eins og allir vita, 1. febr. fyrir síðustu þrjá mánuði og á að vera grundvöllur að kauphækkun 1. mars. n.k. vegna verðhækkana næstu þrjá mánuði þar á undan. Sú vísitala, sem reiknuð var út 1. febr. s.l., átti að segja hverjar hafi orðið verðhækkanirnar í nóvember- og desembermánuði árið 1981 og janúarmánuði 1982. Þessi vísitala átti að tjá verðhækkanir sem þá þegar voru orðnar. Efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj., sem þetta frv. er einn þáttur í, miðast allar við að koma í veg fyrir að það fái að sjást hvað hefur þegar gerst. Ekki á að breyta einhverju sem er að gerast, heldur að koma í veg fyrir að það fái fram að koma sem þegar er orðið. Þess vegna greip hæstv. ríkisstj. til þess ráðs, þegar tímabilinu var lokið, þegar mánuðirnir nóvember og desember 1981 og janúarmánuður árið 1982 voru liðnir og engu var hægt að breyta af því sem þá hafði þegar gerst, að nú skyldi hún koma í veg fyrir að vísitala framfærslukostnaðar gæti tjáð það sem þegar hefði gerst. Þetta gerði hæstv. ríkisstj. með þeim hætti, að eftir mánaðamótin jan.-febr. s.l., þegar mánuðirnir nóvember, desember og janúar voru liðnir og allt orðið sem þá gerðist, þá kom hæstv. ríkisstj. fram með frv. á Alþingi sem m.a.hafði það í för með sér að lækka tolla um 22 millj. til að hafa áhrif á vísitöluútreikninginn sem átti að fara fram 1. febr. og átti að gefa til kynna verðhækkanir þrjá mánuðina næstu á undan. Til þess að þetta gæti gerst varð hæstv. ríkisstj. að fá umræddar breytingar á tollum til lækkunar samþykktar á tímabilinu frá 1. febr. til 5. febr. Þetta gat hæstv. ríkisstj. gert og með þessum aðferðum, með því að fá lögfesta föstudaginn 5. febr. hér á Alþingi nokkra tollalækkun, gat hæstv. ríkisstj. haft áhrif á framfærsluvísitöluútreikninginn 1. febr. til lækkunar, jafnvel þó svo að þeir, sem njóta þessara tollalækkana vegna kaupa á heimilistækjum, hafi ekkert af henni vitað mánuðina nóvember og desember á s.l. ári og janúar á þessu ári, sem var verið að mæla hækkun vísitölu framfærslukostnaðar fyrir.

Eins og ég sagði áðan var hér um að ræða lækkun á tollum á nokkrum rafknúnum heimilistækjum um 22 millj. kr. Sú lækkun var samþykkt á Alþingi 5. febrúar. 5. febr. er liðinn, eins og allir vita, og þá kemur fram nýtt mál, einnig um tolla, sem getur ekki haft nein áhrif á framfærsluvísitöluna 1. febr. Hvað skyldi það tollamál hafa í för með sér? Það hefur í för með sér tollahækkun. upp á 54 millj. kr. M.ö.o.: fyrir 5. febr. lækkar ríkisstj. tolla um 22 millj. kr., en eftir 5. febr. hækkar ríkisstj. tolla um 54 millj. kr., rúmlega tvöfalda þá upphæð. Vegna þess að hún framkvæmdi lækkunina fyrir 5. febr. lækka laun í landinu sem eiga að bæta upp verðhækkanir sem þegar eru orðnar og eiga að koma til framkvæmda 1. mars n.k. Vegna þess að tollahækkunin kom ekki til framkvæmda fyrr en eftir 5. febr. munu launþegar að engu fá bætt í launum sínum fyrr en væntanlega 1. júní í sumar.

Meginkjarni þessara ráðstafana er áð skipta á 22 millj. kr. tollalækkun og 54 millj. kr. tollahækkun og með því að velja dagsetningarnar á gildistöku þessa afskipta ríkisstj. af tollamálum nægilega haganlega er hægt a'ð halda þannig á málinu að laun fólksins í landinu lækki af þessum sökum 1. mars n.k. vegna þess að vísitalan mælir að launþegar hafi fengið miklar kjarabætur vegna þess að tollar voru lækkaðir um 22 millj. kr., þó að þeir verði hækkaðir um 54 millj. nokkrum dögum síðar.

Það þarf út af fyrir sig ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta mál. Málið snýst allt um dagsetningar í febrúar. Tollalækkunin varð að hafa átt sér stað fyrir 5. febr. og tollahækkunin varð að eiga sér stað eftir 5. febr. Tollalækkunin var 22 millj., tollahækkunin var 54 millj. Vegna þess að dagsetningarnar voru rétt valdar munu laun fólksins í landinu vegna þessara ráðstafana rýrna 1. mars n.k. Þetta, herra forseti. kallar Alþb. að skipta á sléttu og heldur því sennilega fram að launþegar hafi stórgrætt á skiptunum.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég á að fara nokkuð frekar út í þessa sálma, í efnisatriði frv., en ég hef þegar gert. Kjarni málsins, sem þegar er kominn fram, er að velja tímasetningarnar með þeim hagstæða hætti fyrir ríkisstj. að launþegar verði taldir stórgræða á 22 mill j. kr. tollalækkun 5. febr. og 54 millj. kr. tollahækkun í febrúarlok.

Önnur atriði frv. lúta síðan að því, að nokkrir aðrir skattar eru lækkaðir eins og þar er tekið fram, þ, e. launaskattur og stimpilgjöld, en aðrir skattar hækkaðir á móti, þ.e. innflutningsgjöld á sælgæti og kex. Hvaða skattar skyldu það nú vera sem hæstv. ráðh. er að lækka og hvaða skattgjöld skyldi nú hæstv. ráðh. vera að hækka? Hæstv. ráðh. er að lækka skattgjöld á atvinnufyrirtækjum. Stimpilgjöld eru aðallega greidd af atvinnurekstrinum og launaskattur er eingöngu greiddur af atvinnurekstrinum. Það er verið að lækka fyrirtækjaskattana. En hvaða skatta er verið að hækka? Það er verið að hækka skattana sem allur almenningur borgar. Það er verið að hækka skattana á launafólki. Með skattahækkunum á launafólki er verið að greiða kostnaðinn af skattalækkunum vegna atvinnurekstrarins. Atvinnurekstrarskattarnir eru lækkaðir um 50 millj. kr. samtals. Launafólksskattarnir eru hins vegar hækkaðir um 62 millj. kr. samtals. Hæstv. ráðh. græðir því áöllu saman 12 millj. kr. Þann gróða uppsker hann vegna þess að hann hækkar skattana á almenningi meira en nemur þeim lækkunum sem hann framkvæmir fyrir atvinnufyrirtækin.

Herra forseti. Það er fyrrv. formaður Alþb. sem stendur að þessari afgreiðstu mála og leggur fram svona frv. eftir að hann hefur valið hagkvæmar dagsetningar í febrúarmánuði fyrir aðgerðir sínar í tollamálum, — dagsetningar sem valda því, að launþegar verða fyrir kauplækkun. Launþegar eru taldir stórgræða á því, að tollar skuli fyrst lækkaðir 5. febr. um 22 millj. kr. og síðan hækkaðir aftur í lok febrúar um 54 millj. kr. Alþb.formaðurinn fyrrv., sem fyrst hefur unnið þetta afrek, snýr sér síðan að því að lækka skattana á fyrirtækjunum um 50 millj., en hækka skattana á launafólkinu um 62 millj. kr. til þess að afla 12 millj. kr. viðbótartekna í ríkissjóð. Þarna, herra forseti, hefur sem sé hæstv. ríkisstj. og Alþb. tekist að skipta á sléttu-þeir kalla það að skipta á sléttu — tvisvar sinnum í sama mánuði, og allur almenningur hefur að sjálfsögðu orðið fyrir stórkostlegum kjarabótum? Mætti út af fyrir sig sjálfsagt þess vegna leggja niður Alþýðusamband Íslands, enda er vart hægt að fullyrða neitt um hvort þau ágætu samtök eru lifandi eða dauð því það hefur ekkert til forustumanna þeirra samtaka spurst síðan einhvern tíma fyrir áramót. Þá heyrðist að forseti Alþýðusambandsins væri á leið á miðstjórnarfund í Alþb. Frá honum hefir ekkert frést eftir það og síst að til hans heyrðist þegar milli 6 og 12 þús. manns á Íslandi þágu atvinnuleysisbætur eftir áramót. Þá var forseti Alþýðusambandsins ekki til. Þá var hann hvergi að finna.

Auk þessa meginkjarna frv., sem ég hef hér lýst, eru í því nokkur formsatriði sem vissulega ber að skoða að vandvirkni. Þeim formsatriðum hefur hv. þm. Matthías Á. Mathiesen lýst. Sumum sýnist að þau samræmist varla stjórnarskrá lýðveldisins. Verður að sjálfsögðu að athuga það vandlega í meðferð þeirri sem frv. hlýtur í nefnd. en það er þó ekkert meginatriði í þessu máli.

Síðan eru í frv. allmargar greinar sem lúta að betri skilum á launaskatti og ýmsum breytingum til að herða eftirlit með skilum og hvetja til betri og fljótari skila á þessum skatti en gildandi reglur gera ráð fyrir, og er sjálfsagt að skoða það með velvilja. En að sjálfsögðu mun fjh.- og viðskn. taka sér þann tíma sem hún þarf til að skoða þessi mál, án þess þó að nokkur ástæða sé til þess að ætla að nefndin muni taka sér eitthvað rýmri tíma en ástæða er til. Ég tel enga ástæðu til þess fyrir nefndina að vera að draga neitt afgreiðslu þessa máls, en ég tel alveg sjálfsagt að hún taki sér þann tíma til að skoða málið sem hún þarf.

Ég vil því aðeins í lokin, áður en ég læt máli mínu lokið, varpa fram þeirri spurningu til þess eina framsóknarmanns sem ég sé í salnum, hvort hann sé nú ekki yfirtaks ánægður — annar en nú kominn — hvort þeir flokksbræðurnir séu ekki yfirtaks ánægðir með árangurinn eftir rúmlega tveggja ára samstarf í ríkisstj., sem að þeirra sögn grundvallaðist á stefnu Framsfl. og tilraunum til niðurtalningar verðbólgunnar. Ef þetta er niðurtalningarleiðin. sem nú er verið að afgreiða á Alþingi, er verið að tína smátt og smátt í okkur þm. upp úr tínupokum án þess að menn fái nokkurn tíma að sjá samræmið í heild eða nokkurn enda á þessum óskapnaði. Ef þetta er niðurtalningin var það þá þessi árangur, sem orðið hefur, sem þeir framsóknarmenn stefndu að? Eru þeir ánægðir með þann árangur sem niðurtalningin þeirra hefur skilað þjóðinni? Eru þeir ánægðir með árangur ríkisstj. sem þeir segja að hafi verið stofnsett til að framkvæma niðurtalninguna sem þeir boðuðu í kosningunum 1979? Eru þeir ánægðir með þann árangur sem orðið hefur af stefnu flokksins? Eða ætla þeir að halda því fram., að ríkisstj. sé nú búin að starfa á þriðja ár án þess að framsóknarmönnum hafi enn gefist færi á að hefja niðurtalninguna, án þess að Framsfl. hafi enn gefist tækifæri til að sýna fram á kosti niðurtalningar? Hvað átti þá að þýða, herra forseti, slíkt ábyrgðarleysi af þessum flokki að ganga til ríkisstjórnarmyndunar án þess að hafa náð nokkru samkomutagi. þegar ríkisstj. var stofnuð, um hvað ríkisstj. hygðist fyrir í efnahagsmálum? Það getur ekki verið nema um annað af tvennu: Annaðhvort hefur ríkisstj. verið að framkvæma niðurtalninguna og árangurinn er ekki meiri en við höfum fyrir augunum ellegar þá að ríkisstj. hefur ekki verið að framkvæma niðurtalninguna. Hvað hafa þá framsóknarmenn verið að gera í ríkisstj. á þriðja ár, og hvað átti það þá að þýða af þessum flokki að ganga til þessa ríkisstjórnarsamstarfs án þess að hafa náð nokkru samkomulagi við samstarfsaðila sína um eftir hvaða leiðum ríkisstj. ætlaði að starfa? Það er enginn þriðji kostur í málinu. Framsfl. verður að gefa svar við því, hvort heldur hann hafi verið að gera.

Því var lýst yfir á sínum tíma af formanni Framsfl., haustið 1979 og í upphafi árs 1980, að það væri margt líkt með þeim tillögum, sem Framsfl. flutti í kosningabaráttunni 1979 og nefndist „niðurtalningarleiðin“, og þeim tillögum, sem Alþfl. hafði áður lýst í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar og hafði barist fyrir og unnið sigur árið 1978. Formaður Framsfl. lýsti margoft yfir að það væri ekki mikill munur á þessum tillögum og það ætti að vera hægur vandi fyrir þessa tvo flokka að ná saman um hugsanlegar leiðir til úrlausnar á grundvelli þeirrar stefnu sem fram var lögð. Framsfl. sneri við á sínum tíma og hafnaði því, að reynt yrði að ná þessu samkomulagi, taldi sig fá betra samkomulag í núv. ríkisstj. Er það þá að koma í ljós, að það samkomulag var ekki fyrir hendi, eða er að koma í ljós, að það samkomulag sé verið að framkvæma? Annaðhvort er að niðurtalning Framsfl. hefur verið framkvæmd eins og efni stóðu til og stjórnarsáttmálinn fjallaði um, og þá er árangurinn ekki beysinn, ellegar þá hitt, að Framsfl. hafnaði samkomulagi — og ekki bara hafnaði samkomulagi, heldur hafnaði öllum tilraunum til samkomulags á grundvelli þeirrar stefnu við aðila sem formaður Framsfl. lýsti sjálfur yfir að ætti að vera hægur vandi að ná samkomulagi við. Flokkurinn tók þvert á móti stefnu af leið og inn í núv. ríkisstj. án þess nokkru sinni, við stofnun þeirrar ríkisstj. eða síðar, að hafa getað náð nokkru samstarfi við samstarfsaðila sína í ríkisstj. um að framkvæma þá stefnu sem flokkurinn barðist fyrir í kosningunum 1979.

Herra forseti. Hvað er Framsfl. þá að gera í þessari ríkisstj., ef hann vinnur ekki að framkvæmd stefnunnar? Hvers vegna lætur flokkurinn þá ekki reyna á það, fyrst hann segist hafa tillögur og fyrst hann segist ekki ná tillögunum fram? Ef hann segist ekki ná tillögunum fram í núverandi stjórnarsamstarfi, af hverju lætur þá ekki flokkurinn reyna á hvort það kunni að finnast einhver stuðningur við þessar tillögur hér á Alþingi, hvort það kunni að vera einhver möguleiki á að ná samkomulagi um einhverjar þær ráðstafanir, sem Framsfl. gæti sætt sig við í efnahagsmálum, við aðra flokka þingsins en hann er í samstarfi við í ríkisstj.? Eða ætlar flokkurinn að sitja allt kjörtímabilið í stjórninni án þess að ná nokkurn tíma nokkru fram af því sem hann hélt fram á sínum tíma og hann sagði kjósendum sínum, þegar hann gekk til þessarar stjórnarsamvinnu, að ríkisstj. væri stofnuð um?

Ég held að enginn hafi átt von á öðru af hálfu Alþb. en því sem núv. ríkisstj. hefur gert. Allir, sem vinna með Alþb., vita hvað þeir fá. Þeir hafa ekki brugðist vonum eins eða neins. Þeir hafa ekki komið neinum á óvart. Allir, sem þekkja til Alþb., vita að ríkisstjórn, sem Alþb. á sæti í, mundi verða nákvæmlega eins og sú ríkisstj. hefur verið sem nú hefur setið síðan í febr. 1980, þannig að Alþb. hefur ekki komið á óvart í þessari ríkisstj. Sá, sem hefur komið á óvart í ríkisstj., er Framsfl., og Framsfl. getur ekki öllu lengur skotið sér undan því að svara þeirri einföldu spurningu: Er verið að framkvæma stefnu Framsfl. um niðurtalninguna eða er ekki verið að framkvæma stefnu Framsfl. um niðurtalninguna? Ef verið er að framkvæma stefnu Framsfl. um niðurtalninguna, er þá árangurinn ekki meiri en þetta? Ef ekki er verið að framkvæma stefnu Framsfl. um niðurtalninguna, hvað er þá flokkurinn að gera í ríkisstj.?