18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2523 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er þáttur í efnahagsaðgerðum sem ríkisstj. hefur nú boðað. Í þessum umr. hafa nokkuð miklar ræður verið haldnar um baráttuna gegn verðbólgunni. Ég held að engum geti blandast hugur um að vissulega hefur núv. ríkisstj. náð nokkrum árangri í baráttunni gegn verðbólgunni. Ég skal fyrstur manna viðurkenna það og lýsa því yfir, að gjarnan hefði hann mátt vera meiri. En enginn maður skyldi þó vanmeta þann árangur, sem náðst hefur þegar, og það, sem miðað er að. Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli manna á því, að við Íslendingar erum ekki einir í heiminum. Það hefur mikil áhrif á efnahagslíf okkar og alla aðstöðu hér hvernig umhorfs er í okkar helstu viðskiptalöndum.

Núv. ríkisstj. hefur hvorki meira né minna en tekist það vel til, að Ísland er nánast að verða eina landið af þeim löndum, sem hér liggja nálægt, þar sem næg atvinna hefur verið, og nánast að verða eina landið þar sem tekist hefur að halda kaupmætti launa launþega. Ástandið í löndunum í kringum okkur er nú ekki glæsilegra en það, að atvinnuleysi fer stórvaxandi svo að segja í þeim öllum.

Bandaríkjamenn eru komnir í þá stöðu með efnahagsprógramm Reagans, að þeir horfa fram á tveggja stafa prósenttölu í atvinnuleysi. Þeir horfa fram á meira atvinnuleysi en þeir hafa nokkurn tíma séð frá stríðslokum. Sá bati, sem menn vonuðust til að sjá í efnahagslífi Bandaríkjanna, lætur á sér standa. Menn eru farnir að óttast að hann komi ekki fram á þessu ári. Atvinnuleysið eykst og fleiri og fleiri fyrirtæki eiga í gífurlegum erfiðleikum.

Menn vita hvernig staðan er í Bretlandi, þar sem fyrirtækin eru enn að fara á höfuðið og atvinnuleysi stóreykst. Tala atvinnulausra í Bretlandi er komin yfir 3 millj. manna. Menn vita hvernig þessi staða er í Danmörku. Menn vita að spá OECD er sú, að atvinnuleysi í aðildarlöndum þess verði um 25–30 millj. manna á þessu ári. Menn vita að í löndum Efnahagsbandalagsins er álitið að atvinnuleysi né sé um 10 millj. manna. Og menn hafa heyrt þær yfirlýsingar, sem komið hafa frá Þýskalandi um að yfir 9 þús. fyrirtæki urðu gjaldþrota í Þýskalandi á síðasta ári. Menn hafa heyrt að tala atvinnulausra í Þýskalandi væri komin yfir 2 millj. manna. Menn hafa heyrt að Helmut Schmidt hefur nú lagt fram tillögur um hvernig vestur-þýska stjórnin skuli bregðast við til að brjótast úr þeirri stöðu sem atvinnulífið í Þýskalandi er komið í, hvernig eigi að reyna að styrkja atvinnulífið þar. Og menn hafa heyrt hvernig forustumenn vestur-þýskra launþegasamtaka hafa lýst yfir að þeir séu tilbúnir til samvinnu við stjórnvöld um að halda kaupkröfum niðri svo fremi sem stjórnvöldum geti tekist að efla atvinnulíf og fjölga atvinnutækifærum þar í landi.

Þannig er ástandið í löndunum í kringum okkur og það fer versnandi. En á sama tíma hefur íslensku ríkisstjórninni tekist að halda hér fullri atvinnu. Á þessum tíma, þar sem milliríkjaviðskipti hafa verið að dragast saman, þar sem löndin í kringum okkur hafa lent í bullandi öfugum viðskiptajöfnuði og erlendar skuldir margra þeirra stefna í mikið óefni, hefur tekist hér að varðveita kaupmátt launa, á sama tíma og hann versnar í flestum löndum í kringum okkur. Þetta verða menn að horfast í augu við og þetta er ekki litill árangur. Á síðasta ári tókst að ná verðbólgunni hér niður í um 40%. Það er mikill árangur miðað við það, hvernig horfði í ársbyrjun.

Á þessu ári er stefnt í að ná verðbólgunni niður í 35% og hraða hennar í 30% í árslok. Það er líka gott skref fram á við, ekki síst þegar horft er til þess, að einmitt ástandið varðandi ytri skilyrði þjóðarbúsins er ekki gott vegna þess að það er verulegt útlit fyrir að útflutningstekjur fari minnkandi á árinu og viðspyrnan þess vegna til aðgerða í efnahagsmálum minni og erfiðari. Á þetta verða menn að horfa.

Það er aldeilis furðulegt að hlusta á þm. stjórnarandstöðunnar halda hér hverja ræðuna á eftir annarri um að þetta og þetta dugi ekki og þetta og þetta sé litið, án þess að heyra svo mikið sem eina einustu raunhæfa tillögu frá þeim um hvað þeir vildu sjálfir gera. Það er enginn vafi á að þrátt fyrir allt hefur glettilega vel tekist til með stjórn efnahagsmála á Íslandi. Menn ættu að horfa til landanna í kringum okkur sérstaklega í því sambandi. (Gripið fram í: Þetta voru góðar fréttir.) Já, þetta eru góðar fréttir. Þær vissum við reyndar flestir fyrir, en það virðist vera að sumir, sem hér eru inni, fylgist illa með.

Þær aðgerðir, sem hér er gripið til, eru annars vegar tollalækkanir, sem ég hef haldið að flestum væru kærkomnar, en hins vegar verulegar niðurgreiðslur. Ég skal fyrstur manna viðurkenna að verulegar niðurgreiðslur til að lækka framfærsluvísitölu gefa skakka mynd af verðlaginu í okkar þjóðfélagi vegna þess að landbúnaðarafurðirnar vega þyngra í framfærslugrunninum en þær gera í almennu verðlagi og þar af leiðandi skekkist myndin. Á því er enginn vafi. Niðurgreiðslurnar eru hins vegar engan veginn alfarið af hinu illa, eins og mér finnst sumir vilja vera láta.

Það hefur oft verið talað um að bæta kjör hinna lægst launuðu í þessu þjóðfélagi. Það hefur oft verið talað um að reyna að jafna launamun. Mér hefur virst, að í hvert skipti sem reynt er að hækka laun þeirra, sem minnst hafa, komi þeir, sem meira hafa, og vilji viðhalda þeim launamun sem fyrir var. Næsti hópur fyrir ofan segir gjarnan: Ég hef mánuði lengri skólagöngu en þessir sem nú eru hækkaðir, og það verður að meta einhvers. Ég hef alltaf haft þetta miklu meiri laun en þeir og ég vil halda því.— Síðan gengur skriðan upp úr. Ekki hefur tekist h já okkur að ná tökum á þessu. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að eina leiðin til að bæta kjör þeirra, sem minnst hafa og verst eru staddir í okkar þjóðfélagi, sé beinar aðgerðir einmitt fyrir tilstilli ríkisvaldsins og ríkissjóðs og þar koma vissulega niðurgreiðslurnar inn. Auðvitað vega niðurgreiðslurnar mest fyrir þá sem minnst hafa. Á því er enginn vafi. Stórar fjölskyldur með lítil laun og litlar tekjur, sem þurfa að kaupa mikið af landbúnaðarafurðum á sitt matborð, njóta góðs af. Vissulega stefnir það í rétta átt.

Það er í rauninni alveg undravert að hlusta á þær ræður sem hér hafa verið haldnar af hv. þm. stjórnarandstöðunnar um þessi mál. Í ræðum þeirra hafa engar tillögur komið fram um hvað þeir vilji sjálfir gera, en það er allt á heimsenda og allt er að farast. Það, sem verst fer í þá, er auðvitað vísitöluleikurinn, eins og hv. 1. þm. Reykn., sem nú gengur í salinn, gerði að umræðuefni. Það er bókstaflega eins og þessir menn séu heilagir englar þegar þeir koma hér í ræðustól. Auðvitað er þetta vísitöluleikur. Ekki dettur mér í hug að neita því. Auðvitað er þetta vísitöluleikur og auðvitað hefur hv. 1. þm. Reykn. tekið þátt í vísitöluleiknum og vísitöludansinum og dansað hann kannske trylltar en nokkur annar. Ég held að enginn flokkur, sem situr á Alþingi, hafi aldrei tekið þátt í vísitöluleiknum. Auðvitað vita allir í hvert óefni menn eru komnir með þetta vísitöluspil. Það er alveg tilgangslaust að horfa fram h já því. Það væri nær að þessir hv. þm. stjórnarandstöðunnar kæmu með einhverjar tillögur til úrbóta í þessu í stað þess að reyna að hvítþvo sjálfa sig með einhverri helgislepju um það, að núna í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins séu menn komnir í vísitöluleik. Ég er alveg undrandi að menn skuli láta hafa sig í svona ræðumennsku. Ég held að allir viti hvað er um að ræða. Eitt atriðið einmitt í þeim efnahagsaðgerðum, sem ríkisstj. boðar, er að hefja viðræður við hagsmunasamtök um breytt vísitölukerfi. Ég verð að segja að ég bind miklar vonir við að okkur geti tekist í slíkum viðræðum og með samráði í þessu þjóðfélagi að breyta þessu vísitölukerfi þannig að skaplegt geti orðið. En allir vita að meðan það er eins og það er og hefur verið hafa allir stjórnmálaflokkar á Alþingi tekið þátt í því að spila á þessa vísitölu eins og þeir hafa framast haft vit til. Og að hlusta svo á þessa herramenn koma hér upp aldeilis undrandi og forviða á því, að það skuli verið að greiða niður til að lækka framfærsluvísitöluna og hér sé um einn vísitöluleikinn að ræða enn, það tekur ekki nokkru tali. Ég held að það sé kominn tími til að stjórnmálamenn reyni að fara að tala í alvöru um þetta og taka á málinu eins og það liggur fyrir.

Þær aðgerðir, sem ríkisstj. hefur boðað í efnahagsmálum, eru vissulega viðnám í þessum verðbólguslag. Það hefur hins vegar ekki verið nein launung hjá okkur framsóknarmönnum, að við hefðum gjarnan viljað hafa þessar aðgerðir viðameiri eða harðari. Og það er alveg ljóst, að miðað við þau markmið, sem ríkisstj. hefur sett sér um 35% verðbólgu, duga ekki þessar efnahagsaðgerðir einar sem ríkisstj. nú hefur boðað. Það þarf að gera meira. Það þarf meira að koma til á þessu ári og um það eiga stjórnarflokkarnir eftir að ná samkomulagi. Þar liggur fyrir talsverð vinna. Ég bind í því sambandi miklar vonir við þær viðræður sem nú eiga að hefjast um endurskoðun vísitölugrundvalfarins. Auðvitað er alveg ljóst að ekki hvað síst fyrir okkur Reykvíkinga er þessi vísitölugrundvöllur óviðunandi eins og nú er þar sem hann beinlínis í vísitöluleiknum bendir mönnum á og beinir mönnum inn á — ekki bara þessari ríkisstj., heldur öllum ríkisstjórnum — að reyna að halda niðri þeim fyrirtækjum Reykvíkinga sem reiknast inn í vísitölu.

Ég tel að sú barátta, sem nú hefur farið fram gegn verðbólgunni í þessu landi, sé niðurtalning: Það er verið að færa verðbólguna niður í ákveðnum áföngum. 40% frá upphafi til loka síðasta árs, 35% á þessu ári, sem hefði mátt vera meira, en verður þó ekki meira vegna ytri aðstæðna þjóðarbúsins. Ef hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skilur ekki hvað niðurtalning er, þá er niðurtalning það að færa verðbólguna niður í þrepum. Það hefur aldrei verið launung hjá okkur framsóknarmönnum að það er það sem við höfum viljað gera. Það má hins vegar gera á margan hátt og þrepin geta verið með ýmsum hætti. Við höfum aldrei haldið okkur í einhverja eina ákveðna aðgerð sem algerlega heilaga kú í því sambandi. Við höfum alltaf sagt: Við erum tilbúnir að fallast á allar raunhæfar aðgerðir, allar raunhæfar tillögur sem fram koma til þess að ná þessu markmiði í áföngum og einmitt með niðurtalningu vegna þess að það er skilyrði að gera þetta með markvissum, ákveðnum þrepum, en ekki færa þetta niður í einhverri leiftursókn sem menn missa síðan tök á og vita ekkert hver afleiðingin verður af. Við sjáum best í sumum löndunum í kringum okkur hvert þar stefnir.

Markmið framsóknarmanna hefur verið að færa verðbólguna niður í ákveðnum þrepum og reyna jafnframt að hafa tök á þróun efnahagsmála í þjóðfélaginu þannig að halda megi fullri atvinnu í landinu og varðveita kaupmátt launþeganna eftir því sem tök eru á. Og hver er árangurinn, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson? Árangurinn er sá, að verðbólgan er að fara niður í ákveðnum þrepum. Árangurinn er sá, að Íslendingum hefur tekist að halda hér fullri atvinnu á sama tíma og bullandi atvinnuleysi er í löndunum í kringum okkur og vaxandi erfiðleikar. Árangurinn er sá, að Íslendingum hefur tekist að varðveita hér kaupmátt launa í því efnahagsumhverfi sem okkar land og okkar þjóð býr við nú. Þetta er ekki litill árangur. Og þetta þakka ég fyrst og fremst því, að menn hafa nálgast baráttuna gegn verðbólgunni einmitt með niðurtalningu, með því að færa verðbólguna niður í ákveðnum þrepum, en hafa jafnframt full tök á því sem er að gerast.

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera þetta frv., um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum, að ítarlegu umræðuefni nú. Ég mæli hins vegar fyrir einni brtt., brtt, við 3. gr. þessa frv. Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„2. mgr. 3. gr. orðist svo:

Þó skal aðeins greiða 2.5% launaskatt af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum hjá fyrirtækjum í fiskverkun og iðnaði.“

Þessi brtt. er flutt í fullu samræmi við yfirlýsingu og skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum, þar sem segir í kaflanum um atvinnumál í skýrslu ríkisstj., með leyfi forseta:

„Í þessu skyni hefur verið ákveðið að lækka launaskatt í iðnaði og fiskvinnslu úr 3.5% í 2.5%.“

Af einhverjum ástæðum hefur þessi grein ekki komist fyllilega til skila í frv. sjálfu eða misfarist þannig að frekari takmörkun er komin inn í frv. og þar miðað við útflutnings- og samkeppnisiðnað samkv. nánari ákvörðun í reglugerð. Það er mín skoðun, að það eigi að standa við þetta orðalag eins og það er í skýrslu ríkisstj., eins og það er í þeim fyrirheitum sem ríkisstj. gaf með þessari skýrslu og þeirri yfirlýsingu sem þar kemur fram í kaflanum um atvinnumál. Þess vegna flyt ég þessa brtt.

Það má auðvitað segja sem svo, eins og ég hygg að hafi komið fram h já 1. þm. Reykn.: Af hverju lækka menn þá ekki launaskattinn á öllum um 1%? Þegar umr. fóru upphaflega fram um þetta mál var ljóst að tekjuminnkun ríkissjóðs af því að lækka launaskattinn allan yrði það mikil að erfitt yrði að ná endum saman á eftir. Þess vegna kom sú tillaga fram að færa launaskattinn niður af iðnaði og fiskvinnslu. Ég vil segja það hér alveg eins og er, að ég er mjög hlynntur því. Ég tel það sjálfsagt mál. Í þeirri stöðu, sem við erum í nú, hef ég minnstar áhyggjur af versluninni og þjónustunni. Mér virðist að verslun og þjónusta standi nokkuð vel eins og staðan er nú. En sérstaklega með tilliti til þeirrar stöðu, sem er í efnahagsmálum landanna í kringum okkur, og þess atvinnuleysis, sem þar er, og þeirra aðgerða, sem þar er verið að grípa til til að efla atvinnulífið, tel ég alveg nauðsynlegt að sú aðgerð, sem nú er gripið til hér, að lækka launaskattinn um 1%, nái til iðnaðarins alls vegna þess að það er auðvitað enginn vafi á að það þarf ekki mikið út af að bera í okkar ytri skilyrðum. í okkar viðkvæma efnahagslífi til þess að atvinnuleysisholskeflan og þeir erfiðleikar, sem einkenna efnahagslíf landanna í kringum okkur, geti einmitt skollið yfir okkur líka. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að við verðum sammála um það hér að færa gjöldin af iðnaðinum markvisst niður. Það er ekki nóg að halda hátíðaræður um að iðnaðurinn eigi að taka við fólksfjölguninni í þessu landi. Það verður að taka á því máli. Iðnaðaruppbyggingin hjá okkur er ákaflega mikilsverð, og þess vegna er nauðsynlegt með tilliti til alls efnahagslífs landanna í kringum okkur að við stígum það skref og það fyrsta skref á þessari braut að færa niður gjöldin af iðnaðinum. Ég geri mér vonir um að unnt verði síðar á þessu ári að ná samkomulagi um að halda áfram á þessari braut og jafna starfsskilyrði atvinnuveganna og færa launaskattinn af iðnaðinum enn frekar niður þannig að sá munur, sem fram kemur í gengisskráningu milli sjávarútvegs og iðnaðar, hverfi. Það er alveg nauðsynlegt að menn geri það til að tryggja uppbyggingu atvinnulífs í landinu. Ég fagna því, að samstaða hefur náðst um að lækka launaskattinn um 1% á iðnaði og fiskvinnslu. Það er reyndar ekki stórt skref, en það er fyrsta skrefið og áfram þarf að halda á þessari braut.

Ég ætla ekki að gera tollafgreiðslugjaldið að miklu umræðuefni hér. Ég vil þó segja það, að ég hef lagt á það mikla áherslu að það sé alveg skýrt og að sérfræðingar yfirfari það, að þessi texti sé með þeim hætti útfærður að þetta gjald lendi ekki á iðnaðinum, að það lendi ekki á þeirri atvinnugrein sem við erum að reyna að tryggja grundvöllinn undir með öðrum aðgerðum. Ég treysti því, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til umfjöllunar, skoði það mjög vel að það séu alveg hreinar línur að það gjald falli ekki á iðnað eða geti á neinn hátt dregið úr þeim aðgerðum sem verið er að gera í öðrum greinum hér til að létta á iðnaðinum. Reyndar hefur þetta tollafgreiðslugjald sérstaklega verið nefnt og rökstutt með því, að ríkisstj. hyggist koma á tollkrít í áföngum frá áramótum. Sú tollkrít er hugsuð þannig að hún geti valdið verulegri hagræðingu hér í innflutningsversluninni, hún geti valdið verulegum sparnaði, hún geti minnkað geymslutíma í vörugeymslu og hún geti minnkað ýmsan afgreiðslukostnað. Ég hygg að það sé rétt, og ég hef sannfærst um það, miðað við þær skýrslur sem ég hef lesið um þetta mál, að svo sé. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að þær hugmyndir, sem enn hafa verið uppi um tímalengd á tollkrít, séu ekki réttar og tímalengdin sé of mikil og að sú tollkrít, sem menn tala um, 60 dagar eða svo, miði um of að því að færa takmarkað lánsfé þjóðarinnar frá öðrum greinum yfir til innflutningsverslunarinnar. Ég held að það þurfi að athuga mjög vel.

Ég vil gera sérstaklega aths. við 5. gr. þess frv. sem hér liggur fyrir. Þar á ég við viðurlög vegna vanskila á launaskatti. Eins og menn vita hefur þetta verið svo, að launaskattgreiðendur hafa tekið á sig 25% viðurlög af launaskatti ef honum hefur ekki verið skilað innan ákveðins tíma. Með því frv., sem hér er flutt, er gert ráð fyrir að auk þessara 25% viðurlaga falli dráttarvextir á ógreiddan launaskatt jafnóðum. Á þetta get ég ekki fallist. Ég tel að hér sé of langt gengið. Dráttarvextir eins og þeir eru nú eru nokkuð hörð aðgerð. Fullir dráttarvextir á skuld, sem skila á, eru talsverð refsing. Refsivextir eru háir og 25% viðurlög plús dráttarvextir þykir mér vera orðið nokkuð mikið. Ég vil segja það alveg hreint út, að það finnst mér vera orðin hálfgerð villimennska í innheimtu að standa þannig að málum, og ég get alls ekki fallist á það. Mér finnst að annaðhvort eigi að vera viðurlög eða dráttarvextir, en hvort tveggja í þessum mæli er of langt gengið. Ég treysti á að sú nefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, breyti þessu ákvæði þannig að ekki verði nema um aðra refsingu að ræða, miðað við það sem þarna er, enda held ég að menn verði að átta sig á því, að þó að ríkissjóður þurfi á sínum tekjum að halda og leggi á ákveðna skatta er alveg útilokað að hann gangi fram fyrir alla aðra og beiti miklu harðari refsingum, þegar ekki er staðið í skilum, en nokkur annar aðili í þjóðfélaginu getur beitt.

Herra forseti. Aðeins að lokum þetta: Ég vonast til að sú brtt., sem ég hef mælt hér fyrir og er í fullu samræmi við skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum, muni fá góðar móttökur hér í þinginu og verða samþykkt og hún verði fyrsta skrefið til að styðja myndarlega við bakið á iðnaðinum í þessu landi almennt. Og að lokum þetta: Þær efnahagsaðgerðir, sem þetta frv. er hluti af, eru vissulega spor í rétta átt, en þær eru ekki nóg. Meira þarf til og það er nauðsynlegt að stjórnarflokkarnir taki sig hið fyrsta saman og reyni að gera sér fulla grein fyrir þróun efnahagsmála út árið og þeim aðgerðum sem nauðsynlegt kann að reynast að grípa til, þegar kemur fram á mitt ár, fram yfir það sem hér er gert.