27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég tel, að hér sé hreyft mikilvægu máli, og vil lýsa stuðningi mínum við það. Ég álít að mikil framtíð sé fólgin í fiskræki á Íslandi. Við eigum verulega auðlegð í fiskivötnum okkar og fiskræktarmöguleikum. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa þessi mál öll í athugun og reyna að stuðla sem mest og best að viðgangi þessarar búgreinar. Það vill svo til, að ég á sæti í nefnd sem einmitt nú um þessar mundir er að endurskoða lax- og silungsveiðilöggjöfina. Sú endurskoðun er nú komin nokkuð á veg en þetta er mikið og vandasamt starf. Þessi veiðimál eru viðkvæm og nokkuð torleyst. Eitt af þeim atriðum, sem við veltum fyrir okkur, er einmitt komið inn á í þessari þáltill. hv. þm. Egils Jónssonar, þ. e. eflingu Fiskræktarsjóðs. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þennan sjóð þarf mjög að efla til þess að hann geti gegnt hlutverki sínu, og hugmyndir um hvernig það verði gert eru vel þegnar af nefndinni. Ég vonast eftir því, að við getum lokið störfum innan ekki mjög langs tíma og á starfi okkar verði hægt að byggja gagnleg lög. Við reynum að ná sem allra víðtækastri samstöðu, höfum það að leiðarljósi, og ég vona að okkur takist að ná árangri í þeirri viðleitni.

Þetta er það sem veit að okkur Íslendingum sjálfum. En það er engan veginn fullvíst að það standi í okkar valdi að ráða fullkomlega við þróun þessara mála. Ég leyfi mér að minna á till. til þál. á þskj. 36, um rannsókn á orsökum minnkandi laxagengdar í ár á Austurlandi. Flm. þeirrar till. er hv. þm. Guðmundur Gíslason. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka orsakir minnkandi laxagengdar í ár á Austurlandi eftir 1978. Leitað verði samstarfs við Færeyinga og aðrar þjóðir um rannsókn þessa.“

Í grg. eru vangaveltur um hvernig á þeirri þróun kunni að standa, að mjög hefur dregið úr laxagengd í ár á Austurlandi. Við höfum orðið varir við ótta manna um að laxveiðar í hafinu umhverfis Færeyjar geti e. t. v. átt einhvern þátt í áðurnefndri öfugþróun. Það er undirstaða undir laxveiðilögum á Íslandi — bæði þeim, sem nú eru í gildi, og ég vona að það verði eins eftir þá endurskoðun sem við erum að vinna að — eins og segir í lögunum: „Eigi má veiða lax í sjó.“ Ég held að sé einboðið að halda því við okkar aðstæður. En jafnframt þarf að gæta þess, að sá lax, sem ræktaður er af Íslendingum, sé ekki veiddur af öðrum.

Ég held að það sé mikið verk að vinna í þessum laxræktarmálum. Það er hárrétt, sem fram hefur komið fyrr í þessari umr., að þetta er töluverð búgrein. Ég held að hún eigi fyrst og fremst að þróast sem aukabúgrein í höndum einstakra bænda eða samtaka bænda fremur en sem þáttur í fjáraflaplönum stórathafnamanna. Jafnframt þurfum við að gæta þess að hleypa ekki erlendu fjármagni of langt í þessari búgrein. Nú þegar hefur stór hópur bænda í því kjördæmi, sem ég þekki best til, verulegar tekjur af þessari aukabúgrein og hún er til styrktar þeirra búskap. En mikið verk er óunnið og þess vegna er öll hvatning um myndarlegt átak í þessum málum af hinu góða. Ég er þakklátur flm. fyrir að flytja þessa tillögu.