18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hafði að vísu ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., en af því sem ég var dæmdur til að sitja undir þeim makalausa lestri sem nú höfum við hlýtt á síðustu 20–30 mínúturnar, þá fékk ég ekki við bundist. En þeir hafa nú sérfund með sér, hæstv. fjmrh. og aðalmaður í efnahagsnefndinni, sem undirbjó þetta frv. sem hann var hér að gagnrýna. Það var verst að hæstv. iðnrh. skyldi missa af tiltali hans, þegar hv. 12. þm. Reykv. sagði að það væri ekki nóg að halda hátíðaræður um að iðnaðurinn ætti að taka við vaxandi fjölda vinnandi handa. Skilst fyrr en skellur í tönnum.

Hann lýsti því yfir, að það hefði glettilega vel tekist til um stjórn efnahagsmála hjá hæstv. ríkisstj. Hvað hefur hún gert? Það er rétt að þeir, sem kalla á tillögur til úrbóta, tíundi það í hvert skipti, en tali ekki breiðum orðum um það sem ekkert er. Hún tók til láns 7% hjá verkalýðnum á liðnu ári. Hvað hefur hún gert fleira? Staðið í vísitöluleik að undanförnu, ekkert annað, ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut.

Hv. þm. segir hér, eins og þeir tönnlast á nú allir hv. stjórnarsinnar, að ríkisstj. muni ná 35% markmiði sínu um verðbólgu á þessu ári. Það er ekki markmið ríkisstj. Er þá ekkert að marka það sem stendur í stjórnarsáttmálanum? Hvað stóð þar um verðbólguna árið 1982, markmiðið sem ríkisstj. setti sér? Ríkisstjórnir eiga að fara frá þegar þeim mistekst hrapallega með undirstöðuna í því sem þær hafa sett sér og gert samning um og birt þjóð sinni. Svo tala menn hér um það breiðum munni, að þeir séu að ná markmiði sínu, nýju markmiði sem gengur þvert á það sem áður hefur verið mótað og birt þjóðinni opinberlega. Og hver var vísitalan á síðasta ári, hin raunverulega vísitala, ef menn hætta að tala í falsi og blekkingum? Hver ætli hún hafi verið? Þarf að þreifa á því með margvíslegum öðrum hætti en með því að tala um verðbólgu frá upphafi til loka árs.

Það er staðreynd að verðbólgan, eins og hún var að jafnaði mæld áður en menn fundu upp blekkingarnar, áður en það varð höfuðmarkmið ríkisstj. í einu landi eins og þessu að stunda blekkingar í öllu sem hún lætur frá sér fara, hún hefur verið 54–55% ef sama viðmiðun, sem þeir skildu þá, hefði verið notuð.

Svo er talað um atvinnuöryggið. Ég minnist þess og hef verið þar á fundum sem hæstv. fyrrv. ráðherrar úr vinstri stjórnum voru mættir og lögðust þungt á árar og öll tog um að kenna íhaldinu um land- og fólksflótta. En þeir hafa gleymt því núna að vara við þessari stórkostlegu hættu. Hver hefur blóðtakan verið og hvers vegna skyldi hún vera? Kynni nú ekki að vera að hér væri stórkostlegur útflutningur á atvinnuleysi. Svo er blaðrað fram og aftur, rétt eins og það sé eitt aðalmarkmið sem þeir sjálfir hafi náð, um bullandi atvinnuleysi sem fyrirfinnst í löndunum hérna næst okkur. En hvert er svo atvinnuöryggið hjá aðalundirstöðuatvinnuvegi okkar, fiskiðju og útvegi? Hvert skyldi það vera nú? Það ættu þeir að kannast við sem hafa orðið að gegna því hlutverki undanfarna mánuði að ausa út kreppulánum til þess að halda undirstöðuatvinnuvegunum og fiskiðnaðinum gangandi frá degi til dags, og það nemur ekkert staðar nú í þeim efnum. Dag frá degi tilkynna fyrirtæki að það liggi við stöðvun og uppgjöf. Með því að hylma yfir þetta eru menn að reyna að telja mönnum trú um að þessi voði, sem er á ferðum og núna nálgast okkur meira en nokkru sinni fyrr, óðaverðbólgan, muni ekki geta valdið allsherjar atvinnuleysi óðar en varir.

En svo kemur aðalmaður í efnahagsnefnd hér upp og gerist bjargvættur iðnaðarins, eins og hann gerði í öl- og gosdrykkjaálaginu í fyrra, þegar hann með atkvæði sínu varð til þess með hjásetu sinni að skattur var á lagður, en kom síðan sem frelsandi engill með frv. og fékk þá ívilnun þeim til handa. Núna kemur hann aðalmaðurinn í að búa til þessi frumvörp og þær ráðstafanir sem nú eru á döfinni, aðalhöfundurinn, og gerist á ný frelsari undirstöðuatvinnugreinarinnar með því að bera fram hér á Alþingi brtt. Það er myndarskapur að tarna.

Og hann gerir meira, höfundurinn að öllu þessu. Hann mótmælir hér harðlega ákvæðinu í frv. um viðurlög vegna innheimtu launaskatts. Hvaða geðslag er í þeim sem með slíku fólki starfa? Mér verður nú litið hér til hægri við mig. Hvaða geðslag er í því að horfa upp á menn haga sér með þessum hætti, að hugsa til heillindanna sem á bak við slíki hljóta að búa — eða hitt þó heldur.

Framsóknarmenn segja: Hér erum við að stíga spor í rétta átt með því að leika okkur að vísitölu. Ekkert bitastætt. Þeir nefna ýmislegt sem allir vita að nauðsynlegt er, en þeir koma því ekki fram. Niðurtalning, segir spekingurinn og aðalefnahagssérfræðingur Framsfl., er að lækka vísitöluna, hvernig sem farið verður að því. Hann er búinn að gleyma öllum þeim ráðstöfunum sem þeir tiltóku sjálfir að ætti að framkvæma. Nú er bara orðið eftir af kenningunni þetta eitt: Við framkvæmum stefnu okkar, framsóknarmenn, ef það lækkar verðbólguna úr 55% niður í 54, og stöndum við allt okkar. — Já, höfundur þessara aðgerða, sem svo eru kallaðar — og er það réttileg ábending hjá hv. 3. þm. Vestf. að nafnið er villandi í hinni prentuðu dagskrá fundarins, það verður leiðrétt að sjálfsögðu, — höfundur þessara aðgerða, sem svo eru kallaðar, þessa vísitöluleiks, nefnir að þetta frv. innihaldi villimennsku í innheimtu ef lögfest verður. Það getur vel verið að svona málflutningur beri ávöxt, og auðvitað dansa limirnir eftir höfðinu. Menn sjá að það gengur bara glettilega vel, svo að ég noti orðalag hans, að blekkja allan almenning. Það gengur bara glettilega vel að telja mönnum trú um að þeir séu að vinna eitthvert þurftarverk og stjórni þessu, haldi um stjórnvölinn traustum höndum, — ótrúlega vel. Og það er eðlilegt að menn notfæri sér það og setji sig í svipaðar stellingar, ef hægt er að halda því lengi áfram að verða mikill maður á því að stunda stöðugar og eintómar blekkingar. Ef hægt er á einum tíma að semja frv. og gera sig svo mikinn mann og auglýsa sig með því að snúast gegn einhverjum ákvæðum þess, þá er farið að taka í hnúkana um virðingu þá sem þessi stofnun getur ætlast til að hún njóti.

Ég ætla ekki við þessa umr. að orðfæra frekar einstök atriði í þessum bandormi sem hér er borinn á borð. Sumt er hægt að fallast á, en flest skiptir það óverulegu máli. Gæti þessi hv. þm., 12. þm. Reykv., kannske gert okkur frekari grein fyrir þeirri skoðun sinni, sem hann telur sig hafa þreifað á, að nú muni staða verslunar og þjónustu vera betri en jafnan áður? Vildi ég gjarnan fá alveg sérstaka útlistun á því, hvaða aðgerðir af hálfu þessarar hæstv. ríkisstj. hafa orsakað þá stöðu eða hvort það hafi gengið svo lengi hjá þessum greinum.

Eins og ég segi er flest af þessu með þeim hætti að engum sköpum skiptir. Þetta endist í 2–3 mánuði og hæstv. fjmrh. á ekki einn einasta eyri í eigu sinni að því búnu til þess að gera neitt meira. Hann er rúinn inn að skinni, hann á enga peninga til þess að halda áfram þessum vísitöluleik sem hv. 12. Framsóknarþm. Reykv. margnefndi hér. (Fjmrh.: Það er lengi von á einum.) Já, það er lengi von á einum, lengi von kannske á einum nýjum skatti, og ef það eru einu hæfileikarnir sem fjmrh. í einu ríki þarf á að halda, að vera nirfill og kunna að leggja svo á skatta, þá höfum við nokkuð hæfan fjmrh. í stólnum. (Fjmrh.: Ég þakka þó fyrir.) Það er ekkert að þakka, hæstv. ráðh. hefur unnið til þess.

Hv. 12. þm. Reykv. þykist ekki hafa tekið eftir því, að stjórnarandstaðan hafi haft í frammi tillögur og stefnu um það, hvernig skyldi tekið til við stjórn þessa lands. Það mætti þó fyrr vera ef hann hefði ekki gefið sér tíma til þess að fylgjast með fréttum t.a.m. af landsfundi Sjálfstfl., þó að ég auðvitað skilji út af fyrir sig að hann hafi haft áhuga á einhverju öðru fremur en því að fylgjast með málefnunum sem þar voru á borð borin. En við bíðum og sjáum hvað setur, þegar líður að næsta fölsunartímabili, og sjáum svo hvað hringlar þá í kassanum hjá hæstv. fjmrh. til að halda vísitöluleiknum áfram.