18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2531 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega um þetta frv. í einstökum liðum, heldur kem ég hér í ræðustól í þeim tilgangi að beina einni spurningu til hæstv. fjmrh. sem nauðsynlegt er að fá svar við nú við þessa umr.

Í 3. gr. tollskrárlaganna eru undanþágu- og lækkunarheimildir sem fjmrh. er heimilt að beita, svo sem að fella niður gjöld af hjálpartækjum fyrir fatlaða af öryrkjabifreiðum, af bifreiðum fyrir hjálpar- og björgunarsveitir og ýmsum vörum til lækninga, auk ýmissa fleiri ákvæða sem talin eru upp í 59 töluliðum í 3. gr. tollskrárinnar. Því er spurning mín til hæstv. ráðh.: Hvernig mun fjmrh. beita þessu heimildarákvæði í 3. gr. tollskrárinnar að því er snertir tollafgreiðslugjald í þessu frv.? M.ö.o.: mun tollafgreiðslugjaldið verða lagt á þá liði sem upp eru taldir í 3. gr., tölul. 1–59, eða verða þessir liðir undanþegnir tollafgreiðslugjaldinu að öllu leyti? Ég tel nauðsynlegt, að fjmrh. upplýsi þetta sérstaklega við þessa umr., og vona að hann taki af öll tvímæli um það, að ekki sé hugmyndin að leggja tollafgreiðslugjald á þá liði sem upp eru taldir í 3. gr. tollskrárinnar. Geri hann það ekki tel ég að um það verði að koma ákvæði í frv. það sem hér er til umfjöllunar, að tollafgreiðslugjald komi ekki á þá liði sem upp eru taldir í 3. gr. tollskrárinnar.