18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að vekja nokkra athygli á tilurð þessa frv. sem hefur gengið undir nafninu „bandormurinn“ hér á hinu háa Alþingi.

Það merkilega gerist við umr. í dag, að það er ekki stjórnarandstaðan sem tefur þær eða dregur þær á langinn, heldur eru það hv. stjórnarþingmenn. Og það er kannske enn merkilegra, að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, sem hefur átt sæti í hinni virðulegu efnahagsnefnd ríkisstj., kemur hér — eftir að hafa samið frv. — með brtt. við frv. og tekur síðan skýrt fram að hann geti ekki samþykkt tiltekin ákvæði í 5. gr. frv. Finnst mönnum þetta ekki skrýtin afstaða, auk þess sem hv. stjórnarþm. hefur dregið þessa umr. stórkostlega á langinn? Svo þegar stjórnarandstæðingar leyfa sér að gera nokkrar athugasemdir við þetta sérkennilega frv. krefst hv. þm. þess, að þeir komi með önnur ráð.

Nú vil ég benda hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni á það, að á borðum þm. hefur legið nú í nokkra daga bók sem heitir „Nordic economic outlook“. Ég vil benda honum á síðustu setningarnar í því yfirliti og þeirri úttekt, sem þar er gerð á íslensku efnahagslífi, það sem þar stendur. Þar stendur að grundvallarástæðan fyrir verðbólgunni hér á landi sé rangt efnahagskerfi. Þar stendur jafnframt að nauðsynlegasta aðgerðin í efnahagsmálum á Íslandi sé endurreisn efnahagskerfisins. Hér erum við að fást við eina af dæmigerðum lausnum hv. núv. ríkisstj. Það er verið að leysa málið frá degi til dags. Ég held að það þurfi engan að undra þó að stjórnarandstöðuflokkarnir séu — eins og börnin segja — orðnir gáttaðir.

Við höfum hér allan þennan vetur verið að bögglast í gegnum frv. frá hæstv. ríkisstj. í þá veru að reyna að ýta undir að hægt sé að halda atvinnurekstrinum í landinu á floti. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig frá viku til viku, mánuði til mánaðar, í allan vetur.

Ég vil líka vekja sérstaka athygli á því sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði, og ég er viss um að hann meinar það, að nú verði ríkisstj. að gera svo vel og taka sig saman, eins og hann orðaði það, og gera áætlun í efnahagsmálum út þetta ár. Undir þetta tek ég. En það þarf að gera meira. Það þarf að gera áætlun út kjörtímabilið. Og það þarf að gera enn þá meira. Það þarf að gera það sem Alþfl. benti á 1978. Það þarf að gera algjöran og gagngeran uppskurð á öllu efnahagskerfi þjóðarinnar.

Ef menn ætla að leysa málin með því að raða tómum dósum frá degi til dags upp í pýramída, sem hlýtur að hrynja á endanum, þá er það engin lausn. Þetta höfum við sagt. Niðurtalningarleiðin hefur orðið sér til skammar og um leið Framsóknarflokkurinn.

Ég verð að láta þá skoðun mína í ljós og segja það við hæstv. félmrh., að það hefur undrað mig dálítið, að Alþb. skuli hafa sýnt þá geysilegu þolinmæði sem það hefur stundum sýnt gagnvart sérstökum hagsmunum Framsfl. í efnahagsmálum. Ég er þeirrar skoðunar, en vil þó ekki fara út í þær hugleiðingar mínar hér, að þau sérstöku hagsmunamál, sem Framsfl. hefur þegar hann er í ríkisstj., verða þess valdandi að mínu viti, að hér verður efnahagsmálum ekki stjórnað af neinu skynsamlegu viti. Ég vil þess vegna ítreka það sem ég sagði áðan, að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson getur ekki krafist þess af stjórnarandstöðunni, að hún komi hingað upp í stól og bendi á aðgerðir sem eiga að leysa efnahagsmálin frá degi til dags, frá viku til viku.

Stjórnarandstaðan er ekki heldur tilbúin að standa að þeim vísitölufölsunarleik sem ríkisstj. hefur dundað við undanfarna mánuði, þegar hún kemur fram með lækkanir á vísitöluvarningi, sem síðan reiknast inn í verðbótavísitöluna vegna þess að þær koma fram á nákvæmlega hárréttum tíma, þegar úttekt er gerð á verðlagi, svo að lækkunin notist ríkisstj. til þess að draga úr hækkun vísitölunnar. Ég er þeirrar skoðunar, eins og oft hefur verið bent á hér, að þessi vísitölufölsunarleikur, sem ríkisstj. hefur leikið — og hæstv. fjmrh. hefur nú að vísu viðurkennt í ræðu hér á þingi að hafi verið gert, eins og lækkunin á heimilistækjum, sem er látin koma fram áður en Hagstofa Íslands gerir verðkönnun, til þess að hún komi inn í vísitöluútreikninginn og notist þannig, — þessi vísitöluleikur er náttúrlega til háborinnar skammar, það vita allir. (GGÞ: Hvað vill þm. gera?) Hvað vill þm. gera? Hann er að segja það, hann er að benda hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni á að það eru fleiri en íslenskir efnahagssérfræðingar sem telja að það þurfi að skera upp allt efnahagskerfið eins og það leggur sig. (Gripið fram í.) Þetta er ekki samið af Íslendingum, það er erlendur sérfræðingur sem semur þessa bók. Og ég vil biðja hv. þm. að kynna sér þetta, einfaldlega vegna þess að þetta rennir stoðum undir það sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að segja.

Ef hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson telur að stjórnarandstaðan geti raunverulega tekið þátt í þeim skrípaleik sem hefur átt sér stað hér í allan vetur á hinu háa Alþingi, þá er það mikill misskilningur. Það hefur oft verið bent á það í ræðum Alþfl.-manna hér á Alþingi, að hér dugi ekkert annað en uppskurður á efnahagskerfinu, hér dugi ekki annað en að endurskipuleggja efnahagskerfið í heild. Ef hv. þm. er ekki þegar búinn að nota eitthvað af því sem var í efnahagsmálatillögum Alþfl. frá 1978, þá skal ég senda honum þessar tillögur. Þær gera m.a.ráð fyrir að tekin verði út, gerð óvirk sjálfvirkni sjóðakerfisins. Við ættum líka að huga að ýmsum þáttum í efnahagsmálunum sem Alþfl.-menn hafa rakið hér hvað eftir annað í ræðum sínum á þingi. Ég veit að hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni er ekki hlátur í huga, þegar ég segi þetta, vegna þess að í hjarta sínu viðurkennir hann þetta, en hann hefur ekki handbærar lausnir meðan hann styður núv. ríkisstj. Hann mundi hugsa allt öðruvísi ef hann væri í upphafi einhvers nýs ríkisstjórnartímabils.

Ég er sannfærður um að hann mundi ekki taka þátt í þeim leik sem hann nú tekur þátt í og hefur þvælst inn í ef hann ætti þess kost að byrja upp á nýtt, en að öllum líkindum fær hann ekki möguleika á því.

Þessi hv. þm. hefur þann skrýtna hátt á þegar þetta frv. kemur hér til umr. á þingi, eftir að hafa kannske verið einn aðalhöfundur þess frv. sem hér liggur fyrir, að koma hér upp í ræðustól og haga sér eins og maður forðum daga, sem þvoði hendur sínar, og leggja til breytingar á frv., sem hann samdi sjálfur, og lýsa yfir að hann geti ekki sætt sig við eina grein þess. Hvaða starfshættir eru þetta? Hvaða meining er þetta yfirleitt? Ef þetta er ríkisstj.-frv., þá hefði ég talið að einn af helstu sérfræðingum Framsfl., að menn segja, í efnahagsmálum hefði átt að vera búinn að ganga þannig frá þessu, að það hefði getað runnið hér í gegn án þess að ríkisstj.-þm. þyrftu að flytja hér klukkutímaræður um frv. til að mótmæla því.

Ég held að þetta nálgist að vera einsdæmi í þessum efnum. Það er líka eftirtektarvert hvaða atriði það eru sem hv. þm. gerir athugasemdir við. Það er svolítið eftirtektarvert og rennir kannske stoðum undir þá skoðun mína, að Framsfl. hafi sérstakra hagsmuna að gæta í þessari ríkisstj. og það kunni að vera erfitt að sem ja frv. af þessu tagi nokkuð skynsamlega, ef Framsfl. á að samþykkja framgang þeirra.

Ég vil nú varpa eftirfarandi spurningu til hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar og eins hæstv. fjmrh.: Hvað gerist nú ef hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson fær ekki framgengt þeim vilja sínum að 5. gr. frv. verði breytt? Ætlar hann þá að greiða atkv. gegn frv. og fella það? Hvað ætlar hv. þm. að gera? Hefur hæstv. fjmrh. tryggt sér atkv. þessa hv. þm. við afgreiðslu frv. ef 5. gr. verður ekki breytt? Mér er spurn. (Gripið fram í: Það kemur auðvitað í ljós.) Það hlýtur að koma í ljós, hv. skrifari deildarinnar.

Ég segi það enn á ný og endurtek, að þessi málflutningur hér í dag er með því makalausasta sem ég hef orðið vitni að, þó að ég hafi ekki setið lengi á þingi. Hér er lagt fram stjórnarfrumvarp, sem stjórnarandstaðan samþykkir að stuðla að að renni í gegn tiltölulega hljóðalaust, en þá standa upp þm. stjórnarflokkanna og halda hér langar ræður og mótmæla ýmsum liðum í þessu frv. og flytja við það brtt. Ég vil nú mælast til þess, að þm., sem ég hef beint orðum mínum til, og hæstv. fjmrh. segi þinginu hvað gerist með þetta frv. ef hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson samþykkir það ekki hér á þingi. Hvað gerist? Það hefur verið bent á að þessi hv. þm. hefur áður mótmælt tilteknum skatti á atvinnurekstri, en þegar kom að því að gera breytingar á honum sat hann vissulega h já og kom svo síðar með brtt. og fékk hana samþykkta. Mér þætti það ekki stórmannlegt ef þessi hv. þm., fengi hann ekki fram breytinguna á 5. gr., sæti hjá við afgreiðslu þessa máls. Ef honum er mikið í mun að þetta 25% álag á vangreiddan launaskatt verði lækkað eða fellt niður getur hann varla sjálfs sín vegna og siðferðilega setið hjá. Svo mörg orð er hann búinn að hafa hér í dag um erfiðleikana í atvinnurekstrinum, um erfiðleika iðnaðarins, að hann verður að gera svo vel að greiða atkv. gegn frv. ef greininni verður ekki breytt. Ég vil að þeir þm., sem hér eru inni, muni eftir þeirri umr., sem hér hefur farið fram í dag, og muni eftir ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar.