18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2536 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. neitt verulega, en það eru örfáar fsp., sem hér hafa komið fram, sem er eðlilegt að svara.

Í fyrsta lagi spyr Matthías Á. Mathiesen, hv. 1. þm. Reykn., að því, hvort heimilt sé að leggja tollafgreiðslugjald á EFTA-vörur eða hver sé skoðun mín á því. Ég vil svara því hér og nú, að ég tel að það sé tvímælalaust heimilt. Ég hafði samráð og við ríkisstj. um þetta mál við gjörkunnuga menn og þeir töldu að ekkert mundi vera því til fyrirstöðu, að tiltölulega lágt gjald, sem væri nokkurs konar endurgjald fyrir þá þjónustu sem tollurinn veitir, væri lagt á innfluttar vörur. Það má auðvitað segja að 1% gjald sé kannske heldur meira en talist getur beint endurgjald fyrir þá þjónustu sem tollurinn veitir, en það er einmitt þess vegna og með hliðsjón af því, að krónutölugjald er lagt á allan þann innflutning sem tengdur er samningum okkar við EFTA og Efnahagsbandalagið. Það er því nokkuð víst, að ekkert á að vera því til fyrirstöðu, að þetta gjald sé lagt líka á EFTA-vörurnar. Hins vegar er það nokkuð tímafrekt að kynna fyrir fulltrúum aðildarþjóða okkar þau áform okkar að leggja á þetta gjald. Það er ekki gert á örfáum dögum og jafnvel ekki heldur á nokkrum vikum, og þar af leiðir að einhver dráttur verður á því að gjaldið sé lagt á EFTA-vörurnar. Hins vegar legg ég áherslu á að þar sem það var bara krónutölugjaldið, sem átti að leggjast á EFTA-vörurnar, og þar sem þær eru aðeins lítill hluti af heildarinnflutningnum, þá er ekki um mjög verulegt tekjutap að ræða. Sennilega er það u.þ.b. níundi hluti teknanna, sem af þessu gjaldi mundi koma, sem gæti farið úrskeiðis ef ekki væri lagt gjald á EFTA-vörurnar.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hvernig háttað yrði gjaldtöku af vörum þeim sem tilgreindar eru í tollskránni og annaðhvort eru þess eðlis, að tollar eru felldir niður af þeim vörum eða lækkaðir. Ég held að það sé nokkuð ljóst, að þegar um er að ræða vöru sem tollar hafa að fullu og öllu verið felldir niður afvegna einhverra ákveðinna undanþáguákvæða, þá muni reglan um krónutölugjaldið gilda, enda er það almenna reglan í sambandi við krónutölugjaldið, að það leggst einmitt á tollfrjálsa innflutninginn. Í öðrum tilvikum geta gilt nokkuð misjafnar reglur. Ég held, að ég kjósi að gera frekari grein fyrir því við meðferð málsins í nefnd og vænti þess, að hv. þm. geti haft greiðan aðgang að þeim upplýsingum. Þar er um allmiklu flóknara mál að ræða, þar sem ekki er algjör niðurfelling heldur tollalækkun.

Það hefur verið nokkuð rætt hér um það, að ríkisstj. sé að falsa vísitöluna með því að lækka verð á heimilistækjum með tollaniðurfellingu. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hélt því fram áðan, að í raun réttri hefði þessi tollalækkun átt að koma eftir að vísitölumæling átti sér stað samkv. þeim samningi sem gerður hefði verið við Alþýðusamband Íslands á sínum tíma. Ég vil leyfa mér að fullyrða að hér sé um mikið misminni að ræða hjá hv. þm. Það er einmitt gert ráð fyrir að ákvarðanir ríkisstj., sem valda hækkunum eða lækkunum, komi áður en vísitölumælingin á sér stað. (Gripið fram í: Hækkun aðeins.) Það væri afskaplega einkennilegt réttlæti, ef bara hækkanirnar hefðu átt að koma áður en vísitölumæling færi fram, en alls ekki lækkanirnar. Að sjálfsögðu er fullt samræmi í því, að bæði hækkanir af völdum aðgerða ríkisstj., eins og t.d. hækkanir á gjaldskrám, og lækkanir, t.d. vegna skattalækkana, komi á sama tíma. Ég sé ekki að neinn aðili geti heimtað annað réttlæti af ríkisstj. en að slíkar breytingar komi inn í vísitöluna á sama tíma. Hvort það gerist fyrir vísitölumælinguna eða eftir skiptir að sjálfsögðu ekki verkalýðshreyfinguna neinu máli ef það er samræmi í þessu. Hitt væri hið mesta ósamræmi, er gjaldskrárhækkanirnar kæmu áður en vísitölumælingin færi fram, en skattalækkanir á eftir — eða öfugt. Það er auðvitað samræmið eitt sem tryggir fullt réttlæti í þessum efnum.

Ég vil ekki fara að deila að öðru leyti við hv. stjórnarandstæðinga um þetta mál þar sem nóg tækifæri verða til þess síðar. Ég vil bara koma því að, að það hlýtur að teljast fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt, að þegar heimilistæki eru lækkuð í verði gerist það á svipuðum tíma og t.d. gjaldskrárhækkanir taka gildi, sem sagt áður en vísitölumælingin á sér stað.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hélt langa ræðu í dag og hefur flutt till. sem kemur vissulega mörgum stjórnarsinnum nokkuð spánskt fyrir sjónir, að ekki sé meira sagt. Ég vil upplýsa í þessu sambandi að fullt samkomulag var í ríkisstj. um allt orðalag þessa frv., og því er auðvitað ekki að leyna, að áform þm. um að breyta þessu frv. ganga að sjálfsögðu í berhögg við það samkomulag sem gert hefur verið um þetta mál. Ég þekki hins vegar þennan þm. að góðu einu, og ég trúi því ekki að hann verði til þess að rifta því samkomulagi sem gert hefur verið um þetta.