18.02.1982
Neðri deild: 42. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að það sé öllum ljóst, að kjarni þeirrar stefnu, sem Framsfl. boðaði árið 1979 og kallaði niðurtalningarstefnu, fólst einkum og sér í lagi í því að þrýsta niður svonefndum verðhækkunartilefnum á verðbólguferlinum. En reyndin hefur orðið sú, að það eina, sem ríkisstj. hefur gert, hefur verið að reyna að koma í veg fyrir að greiðslur verðlagsbóta á laun færu fram vegna verðhækkana sem þegar hafa orðið. Það þarf ekki neinum frá því að segja, að þetta hefur ekki verið framkvæmd á þeirri stefnu sem Framsfl. þóttist boða. Það var ekki kjarni niðurtalningarstefnunnar að láta sér nægja að koma í veg fyrir að verðbætur verði greiddar á laun vegna verðhækkana sem þegar hafa orðið, a.m.k. ekki eins og hún var kynnt af hálfu Framsfl. En ríkisstj. hefur látið sér nægja að einskorða aðgerðir sínar við þetta eitt. Kjarni ráðstafananna hefur verið annaðhvort frestun á greiðslum vísitölubóta á laun, eins og átti sér stað í fyrra þegar 7% kauphækkun, sem átti að koma til útborgunar 1. mars á því ári, var frestað, ellegar þá niðurgreiðsla verðbóta á laun, eins og m.a.átti sér stað nú um áramótin. Þetta er ekki niðurtalningarstefna, eins og Framsfl. ræddi um hana. Þetta er það eitt að láta sér nægja að greiða niður eða fresta greiðslu verðbóta á laun vegna verðhækkana sem þegar hafa orðið. Hins vegar hefur ríkisstj. setið á höndum sér ávallt á meðan verðbólgan hefur skriðið fram og ekki tekið við sér fyrr en komið hefur verið að því að mæla hve hratt þetta skrið hafi verið. Allar aðgerðir ríkisstj. hafa því takmarkast við það eitt að reyna að koma í veg fyrir að vísitalan léti uppi þá verðþróun sem þegar hefur átt sér stað. Þetta er kjarninn í ráðstöfun ríkisstj. enn. Ef Framsfl. telur að með þessu sé verið að framkvæma niðurtalningarstefnuna held ég að sú stefna hafi ranglega verið kynnt fyrir kjósendum í kosningunum 1979 og æ síðan. Sé það réttara, sem ég held, að þetta sé ekki niðurtalningarstefna og enginn þáttur hennar, ekki hægt að kenna þessar aðgerðir við hana, hvað er flokkurinn þá að gera í rúmlega tvö ár í ríkisstjórn sem starfar svona?

Framsóknarmenn og þá sérstaklega ákveðnir framsóknarmenn og þar fremstir í flokki formaður Framsfl., hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson, og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, ásamt hæstv. ráðh. Tómasi Árnasyni, hafa hins vegar tíðkað þann leik sér til afsökunar, að svo til í hvert einasta skipti sem horfið hefur verið frá tillögum Framsfl. Um svokallaða niðurtalningu, en þess í stað gripið gamalkunna ráðið, annaðhvort að fresta eða greiða niður verðbætur á laun, hafa þessir þrír framsóknarmenn jafnan rokið til og annaðhvort flutt hér á Alþingi langar ræður eða skrifað í Tímann greinar um hvað þeir mundu hafa viljað gera ef tillit hefði verið tekið til þeirra tillagna. Eru fjölmargar slíkar greinar sem menn geta slegið upp á í Tímanum. Ein slík grein, að vísu í formi viðtals við hæstv. sjútvrh., kom m.a. fram í Tímanum rétt eftir áramót. Þar lýsti hæstv. ráðh. í mörgum orðum og í mörgum efnisatriðum hvaða hann mundi vilja láta gera af hálfu ríkisstj. í efnahagsmálum nú um mánaðamótin. Það var ekkert af þessu gert. Framsóknarmenn hafa þessi tvö ár látið við það sitja að gefa yfirlýsingar af þessu tagi um það, sem þeir hefðu viljað láta gera, um leið og þeir hafa samþykkt að gera eitthvað annað.

Það er ekki nema um það bil hálfur mánuður síðan ég vakti athygli manna á Alþingi á þessum vinnubrögðum og spurðist þá fyrir um það, hvort nú mætti ekki einmitt vænta frá hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni að nú kæmi ein yfirlýsingin af þessum toga þegar búið væri að gera samkomulag við aðila ríkisstj. um að gera nú enn ekki neitt af öllu því sem Framsfl. hefur alltaf verið að leggja til. Ég sagði meira í gamni en alvöru að menn væru í kerskni að segja að nú hlyti Guðmundur G. Þórarinsson að fara að skrifa kjallaragrein í Dagblaðið um hvað hefði átt að gera, hvað hann hefði viljað láta gera ef hann fengi að ráða. Hv. þm. skrifaði enga kjallaragrein. Hann lagði fram þá brtt. sem hann hefur kynnt í dag. Það er kjallaragreinin. Hann situr í efnahagsnefnd ríkisstj. sem fulltrúi Framsfl. og á þátt í því að gera samkomulag það sem kynnt hefur verið sem efnahagsaðgerðir ríkisstj. á undanförnum dögum. Í þessari efnahagsnefnd má ætla að hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hafi m.a. lagt fram allar þær tillögur sem eru fólgnar í viðtali hæstv. ráðh. Steingríms Hermannssonar við Tímann eftir áramótin. Ég býst við að hv. þm. hafi a.m.k. gætt þess að leggja þær tillögur þar fram. Ekkert af þeim tillögum hefur verið samþykkt, og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur á það fallist að leggja allar þessar tillögur til hliðar eina ferðina enn. Síðar er niðurstaðan lögð fyrir Alþingi, samkomulagslausnin. Hvað gerir hv. þm. þá? Stundum hefur hann þá skrifað grein í Dagblaðið um hvað hann vildi láta gera. Nú flytur hann brtt. við samkomulagslausn sem hann sjálfur átti þátt í. Síðan kemur hann fram fyrir Alþingi og fjölmiðla og segir: Þetta er það sem ég vil láta gera, en ég ætla ekkert að segja um hvað ég geri í málinu ef það verður ekki samþykkt. Það verður bara að bíða og sjá. En það er alla vega ljóst, segir hv. þm., að ég vil láta þjóðina vita um það sem ég hefði viljað láta gera ef ég hefði fengið að ráða. Það á að liggja ljóst fyrir. — Og þá er hv. þm. búinn að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þennan leik er Framsfl. búinn að leika í tvö ár. Framsóknarmenn eru alltaf blaðrandi við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. Ýmislegt af því, sem þeir leggja fram sem sínar hugmyndir og tillögur, er vel athugavert og sumt af því hefur áreiðanlega fylgi hér á Alþingi, þó svo samstarfsmenn þeirra í ríkisstj. neiti um fylgi sitt. En framsóknarmenn gæta þess ávallt vandlega, eins vandlega og þeir gæta þess að þjóðin fái að vita um tillögurnar, að aldrei sé á þær fallist. samstarfsmennirnir í ríkisstj. vilja ekki fallast á þær. Þeir leita aldrei eftir því, hvort það kunni að vera stuðningur á Alþingi við tillögurnar. Nei, þeir láta sér nægja, um leið og þeir samþykkja að falla frá niðurtalningarstefnu sinni á 3–6 mánaða fresti, að láta annaðhvort birta viðtal við sig í Tímanum, eins og hæstv. sjútvrh. gerir, gefa yfirlýsingar hér á Alþingi við endanlega afgreiðslu mála, eins og hæstv. viðskrh. gerir, ef hann er þá í salnum þegar atkv. eru greidd, eða flytja brtt., eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson gerir við frv. sem hann hefur sjálfur átt þátt í að sem ja, og taka síðan skýrt fram að vitaskuld verði menn að bíða og sjá hvað gerist ef tillögurnar verði ekki samþykktar. Auðvitað vita allir hvað gerist ef tillögurnar verða ekki samþykktar. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson situr hjá. Af hverju situr hv. þm. hjá? Vegna þess að ef hann greiddi atkv. á móti viðkomandi máli mundi það falla, og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson hefur engan áhuga á að málið falli. Hann hefur engan áhuga á að berjast fyrir því að koma í framkvæmd þeim breytingum eða þeim hugmyndum sem hann hefur. Hann hefur bara áhuga á að sýna almenningi að hann hafi bæði viljann og vitið, en það sé öðrum að kenna að af framkvæmdinni skuli ekki hafa orðið.

Ég er hérna með viðtal dagblaðsins Tímans við hæstv. sjútvrh. um tillögur Framsfl. Viðtalið fer fram í lok janúar. Þar vantar ekki tillögurnar. Þar skýrir hæstv. ráðh. frá öllum þessum tillögum framsóknarmanna í ríkisstj. eina ferðina enn á tveggja ára afmæli stjórnarinnar, þegar flokkurinn hefur verið að druslast á eftir Alþb. í tvö ár án þess að koma nokkru í framkvæmd af því sem hann lofaði í kosningunum 1979.

Ráðh. tekur fram að auðvitað verði að lagfæra vísitölugrundvöllinn, alveg eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði áðan, og að Framsfl. leggi mikla áherslu á að það verði gert og geri það að tillögu sinni. En, segir hæstv, ráðh., „ég féllst á það með tillíti til nýsettra kjarasamninga að ekki er rétt að fara að breyta grundvelli þeirra á þessu stigi. Hins vegar held ég að mönnum sé ljóst að við verðum að lagfæra vísitölugrundvöllinn,“ segir formaðurinn.

Hann segir einnig í viðtalinu: „Erlendar lántökur eru orðnar geigvænlegar og verður að sporna við því og verða ráðstafanir í því skyni að vera í efnahagsmálapakkanum,“ — Hvar eru þessar ráðstafanir? Það var fallið frá þeim. Það er ekkert af því í þeirri niðurstöðu sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson samdi um við meðnm. sína í efnahagsnefnd ríkisstj.

Formaður Framsfl. segir einnig orðrétt í þessu viðtali: „Ég vek einnig athygli á peningamálunum. Ljóst er að þar þarf að vera ákveðin stefna. Við verðum að auka sparnað á ný.“ — Hver urðu afdrif þessarar tillögu, hæstv. forseti? Hvar er hún? Hvar er hana að finna í efnahagsaðgerðum ríkisstj.? Hvergi. Það var látið við það sitja að taka hana fram í Tímanum svo að framsóknarmenn gætu lesið að forusta þeirra hefði eitthvað til málanna að leggja. En að fylgja henni eftir og fá hana samþykkta datt henni aldrei í hug, enda var það aldrei ætlunin.

„Fjármagnskostnaður er mjög hár,“ segir formaður Framsfl. einnig, „og í prógrammi um hjöðnun verðbólgu verður að taka hann inn og lækka vexti. “ — Gott og vel. Hvar er niðurstaðan af þessari till.? Ég veit ekki betur en Seðlabanki Íslands sé nú að fjalla um tillögu um hækkaða vexti. Skyldi það vera niðurstaðan af tillögum Framsfl. um þveröfugar aðgerðir?

„Þá verður að marka ákveðna stefnu með tilliti til stöðu atvinnuveganna, “ segir formaður Framsfl. í þessu sama viðtali. — Hvar er sú stefna? Hver urðu afdrif hennar í efnahagsnefndinni sem Guðmundur G. Þórarinsson sat í? Ekki hef ég séð það eða aðrir alþm. að hana sé nokkurs staðar að finna í þeim efnahagsaðgerðum sem hafa verið kynntar sem samkomulagslausn ríkisstj.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að teygja þann lopa öllu lengur sem felst í þessu viðtali hæstv. sjútvrh. Kannske Framsfl. telji að það kák í launaskattsálagningu, sem felst í frv. því sem við erum að ræða núna, sé að marka ákveðna stefnu með tilliti til stöðu atvinnuveganna. Sé Framsfl. ánægður með þá lausn verð ég að segja að litlu er Vöggur feginn. Er þó ástæða til að fagna ef þá er loksins komin fram í nokkuð fullgerðri mynd sú niðurtalningarstefna sem flokkurinn er búinn að segja í á þriðja ár að hann hafi yfir að ráða.

Nei, herra forseti, framsóknarmenn hafa látið við það sitja að gera tillögur af og til og þá einkum og sér í lagi þegar ágreiningur er hvað mestur í ríkisstj. En þeir fylgja þessum tillögum sínum aldrei eftir og þeir láta aldrei á það reyna, hvort það sé fylgi við einhverja þessara tillagna að finna hér á Alþingi. Þeir láta við það eitt sitja að leggja þessar hugmyndir sínar fram annaðhvort í ræðum hér á Alþingi, í Tímanum, í kjallaragreinum í Dagblaðinu eða í gervitillögum eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er að flytja við frv. sem hér er til umr. En það er ávallt eitt víst í öllu þessu tali framsóknarmanna, að frá upphafi eru þeir staðráðnir í því að láta málið aldrei ganga lengra en á síður Dagblaðsins og Tímans, aldrei ganga lengra en láta við það eitt sitja að lýsa yfir hvað þeir mundu hafa viljað gera ef þeir hefðu fengið einhverju að ráða, eins og hæstv. viðskrh. gerir, eða láta við það sitja, eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er að leika núna, að taka sig til og flytja brtt. við eigin framleiðslu, því að frv. þetta er árangurinn af störfum efnahagsnefndar stjórnarflokkanna, og passa sig á því, þegar mælt er fyrir till., að svara engum spurningum um hvað hann hyggst hafast að ef tillagan verður ekki samþykkt. Það eina, sem menn hafa við að styðjast í því sambandi, er sú reynsla af sambærilegum tillöguflutningi hv. þm., að fallist stjórnarliðar ekki á till. hans, þrátt fyrir öll stóru orðin sem viðhöfð eru í umr. á Alþingi, gætir hann þess að gera þó ekki meira en að sitja hjá svo að það sé alveg öruggt að till. hans nái ekki fram að ganga.

Hv. þm. sagði að núv. ríkisstj. hefði náð miklum árangri í efnahagsmálum, a.m.k. verulegum árangri í efnahagsmálum. Hann nefndi tvennt til. Hann nefndi að ríkisstj. hefði tekist að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Var atvinnuleysi í landinu þegar ríkisstj. tók við? Hafi svo verið er það árangur að koma á fullri atvinnu. En það var ekkert atvinnuleysi í þessu landi þegar ríkisstj. tók við störfum. Því gleymir hv. þm. Og það er ekki árangur af hálfu ríkisstj. að geta haldið þannig á málum að ástand, sem hefur ekki þekkst í landinu um áratugi, skuli ekki hafa orðið á valdaferli hennar.

Hv. þm. talaði mikið um nágrannalöndin, um Danmörku, Noreg og Bretland, í þessu sambandi. Hefði verið hér á Íslandi ástatt svipað og þar þegar núv. ríkisstj. tók við, fjöldaatvinnuleysi, og ríkisstj. hefði getað breytt því ástandi í fulla atvinnu, þá hefði það verið árangur sem hefði verið hægt að fagna. En þeim árangri hefur ríkisstj. ekki náð því að það var ekkert atvinnuleysi hér þegar hún tók við.

Þó hafa orðið ein þau tíðindi í atvinnumálum á valdaferli þessarar ríkisstj. sem heyra til undantekninga. Ég veit ekki hvað er langt síðan milli 6 og 11 þús. manns hafa verið á atvinnuleysisskrá á Íslandi. Það gerðist í valdatíð núv. ríkisstj. Hversu langt er síðan það gerðist þar áður veit ég ekki. Kannske hæstv. félmrh. geti frætt okkur á því. Einu tíðindin í atvinnumálum, sem hafa orðið á valdaferli þessarar ríkisstj., eru þau, að í upphafi þessa árs, þegar núv. ríkisstj. sat að völdum, urðu atvinnulausir milli 6 og 1 1 þús. Íslendingar og voru sumir atvinnulausir svo að vikum skipti. Ég hélt að menn gætu ekki hrósað sér sérstaklega mikið af slíku.

Síðan sagði hv. þm.ríkisstj. hefði einnig tekist að koma í veg fyrir sömu þróun hér og í nágrannalöndunum um minnkandi kaupmátt. Þetta er ekki rétt. Á s.l. hausti var kaupmáttur kauptaxta verkafólks samkv. upplýsingum Kjararannsóknarnefndar um 12% lægri en í júnímánuði árið 1978, þegar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar féll. Þetta var áður en kjarasamningarnir voru gerðir í haust. Nýverið hefur Kjararannsóknarnefnd lokið við mjög umfangsmikla könnun á kjörum launafólks í landinu. Mér er ekki kunnugt um að sú könnun hafi verið birt opinberlega, og ég hef engar fréttir af því, hvað sú könnun hefur leitt í ljós. En ég held að það væri forvitnilegt að fá niðurstöður hennar. Þó að ég viti ekki og vilji ekki neitt um það fullyrða, hvað í henni felst, ætla ég að ýmsir stjórnarliðar muni ekki tala jafnmikið og áður um að hafa komið í veg fyrir minnkandi kaupmátt eftir að vera búnir að kynna sér efni hennar með sönnum fréttum. Annað nefndi hv. þm. ekki sem árangur ríkisstj. í efnahagsmálum en þetta tvennt.

Auðvitað geta menn leikið sér með svona kaupmáttartölur út og suður. Menn geta í staðinn fyrir kaupmátt kauptaxta miðað við kaupmátt ráðstöfunartekna o.s.frv. og fengið út alls konar talnalegan samanburð sem stemmir ekki og meira og minna ruglar fólk í ríminu. Ástæðan er mjög einföld. Ástæðan er sú, að sá mælikvarði, sem notaður er til að mæla þennan kaupmátt, er ekki réttur. Menn finna það best á buddunni sinni hvort það sé líklegt að vísitölumælingin, sem ástunduð er m.a. til að mæla þennan kaupmátt, gefi rétta mynd. Ég held að þó að ekki sé hægt að vega það á neinum metaskálum sé réttari sú tilfinning, sem almenningur hefur um afkomu sína, en jafnvel þær mælingar sem eru gerðar á grundvelli svo rangra mælitækja. Ég held að það fari ekki heldur hjá því, að næstum því hver einasti launamaður í þessu landi hafi fundið að á síðustu mánuðum, á s.l. hausti og framundir þann dag sem nú er, hefur verið stöðugt erfiðara að fá launin til að endast. Ég held að flestir þeir, sem gera innkaup fyrir heimili sín, finni að á þessu tímabili hefur orðið um að ræða miklu meiri kostnaðarhækkanir fyrir íslensk heimili en opinberar verðbólgumælingar sýna.

Að lokum sagði hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson að hann saknaði tillagna frá Alþfl. um aðgerðir í efnahagsmálum. Hingað til höfum við Alþfl.-menn verið skammaðir fyrir að gera frekar of margar en of fáar tillögur, og við höfum á undanförnum árum gert öðrum flokkum fleiri tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum, eins og dæmin sanna. Sjálfsagt er að útvega hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni eitthvað af þeim tillögum sem við höfum lagt fram um heildstæðar aðgerðir í efnahagsmálum, ef hann biður um það og hafi hann einhvers staðar holað niður þeim tillögum sem hann áður hefur haft í höndum frá okkur. En látum það nú vera. Við höfum einnig á Alþingi í vetur lagt fram fjölmörg þingmál um framkvæmd á þeim tillögum sem við höfum gert alveg frá því í kosningabaráttunni 1978, einnig í sambandi við viðræðurnar um ríkisstjórnarmyndun þá, í sambandi við jafnvægisfrv. okkar á haustdögum 1979 og í sambandi við þau tvö plögg sem við lögðum fram í stjórnarmyndunarviðræðum á sínum tíma.

Um s.l. áramót voru frumvörp til laga, sem lögð höfðu verið fram af Alþfl., tillögur um lagabreytingar í bæði stærri og smærri málum, tæpur helmingur af öllum þeim lagafrv. sem lögð höfðu verið fram á Alþingi. Þm. Alþfl. höfðu um s.l. áramót lagt fram tæpan helming af lagafrv. sem þá lágu fyrir Alþingi og flutt voru af stjórn, stjórnarandstæðingum og einstökum þm. stjórnarliðsins. Talan ein segir ekkert út af fyrir sig. (ÓÞÞ: Það vantar uppmælingu á þetta.) Nei, það þarf enga uppmælingu á þetta og síst úr Reykholti. Hún segir ekkert út af fyrir sig. Herra forseti. Væri nokkur möguleiki á að þagga niður í skrifurum í þessari hv. deild? (Forseti: Ég er að skaka skellu mínu.) Ég held, herra forseti, að það væri kannske ráð að skaka þá skelluna í aðra tóma bjöllu en þá, sem er á borðinu beint fyrir framan hæstv. forseta, og vita hvort það bæri ekki betri árangur. Við skulum þó sleppa því. Ég veit að forseti þessarar hv. deildar er atgervismaður hinn mesti og mun ekki þola að ekki beri betri árangur en reynslan ber vitni um það bjölluskak sem hann hefur verið með hingað til gagnvart skrifara sínum. Látum það þó liggja á milli hluta.

En hvað skyldu þessi frv. fjalla um, sem þm. Alþfl. hafa flutt, því að málafjöldinn segir að sjálfsögðu ekki alla sögu? (ÓÞÞ: Hárrétt.) Ég held að hv. skrifari þessarar deildar ætti ekki að fara mörgum orðum um hár í þessu sambandi. En látum það nú vera. Það stendur ekki til bóta.

Það hefur ávallt verið kjarni í stefnu okkar Alþfl.manna, að menn ættu ekki að einbeita sér að því eina, sem núv. ríkisstj. gerir, að reyna ávallt að koma í veg fyrir það eitt, að verðlagshækkanir, sem þegar hafa orðið, verki til launahækkana síðar. Það eina, sem núv. ríkisstj. hefur gert, er að reyna að eiga með þessum hætti við vísitöluna. Það eru ríkisstjórnir búnar að gera í heilan áratug án þess að það hafi borið nokkurn árangur. Það, sem verður að gera, er, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson sagði áðan, að ráðast að rótum þess kerfis sem býr til það verðbólguvandamál sem mælist á þriggja mánaða fresti. Það þýðir ekki aðætla sér að fara að eiga við mælikvarðann sjálfan sem aðeins tjáir það eitt sem búið er að gerast. Það er jafnheimskulegt og ef læknir ætlaði að reyna að lækna sjúkling, sem væri með hita, með því einu að taka hitamælinn og reyna að kæla hann niður í eðlilegan líkamshita. Vísitalan er ekkert annað í þessu sambandi en mælikvarði á það sem hefur gerst, nákvæmlega eins og hitamælir gagnvart sjúklingi er aðeins mælikvarði á raunverulegt líkamlegt ástand hans, sjúklegt líkamlegt ástand sem stafar af öðrum orsökum en hitamælinum sjálfum. Og það er jafnheimskulegt að ætla sér að ráða bót á verðbólguvanda með því að kákla við mælistikuna. vísitöluna, og ef ætlað er að lækna sjúkling með því að hafa áhrif á hitamælinn sem mælir líkamshita hans. Með sama hætti og skynsamur læknir notar hitamælinn aðeins sem mælikvarða á raunverulegt líkamsástand og ástand sjúkdóms hjá sjúklingi og snýr sér þá frekar að því að reyna að lækna meinið, sem veldur því að hitamælirinn mælir svo mikinn líkamshita, verða menn auðvitað að snúa sér að því meini sem skapar það stöðuga verðbólguástand sem vísitalan mælir. Það hafa menn ekki gert.

Hvað þarf m.a. að gera til að koma í veg fyrir að við höldum áfram í því fari óðaverðbólgu sem við höfum verið fastir í heilan áratug? Við þurfum m.a. í því sambandi að endurskipuleggja alla okkar fjárfestingarpólitík. Við Alþfl.-menn höfum flutt á þessu þingi frv. einmitt um að hætta hinni heimskulegu og óarðbæru fjárfestingu í landbúnaði og reyna að snúa þeirri fjárfestingu á skynsamlegri brautir í þeirri atvinnugrein en nú er beitt. Við höfum líka flutt á þessu þingi frv. um að hverfa frá þeirri heimskulegu fjárfestingu í fiskiskipainnflutningi sem hefur verið stunduð á undanförnum árum. En við fáum enga áheyrn með þessar tillögur okkar. Þær eru vissulega viðkvæmar og það er ekki hægt að taka á þessum málum nema koma við einhvers kjör. Það vitum við mætavel. Það er ekki hægt að leysa svona vanda með því að gera gott fyrir alla. Menn verða að horfast í augu við það. Og menn verða að gera sér ljóst að þegar við erum að nota það takmarkaða fjármagn, sem þjóðin hefur til að fjárfesta í stækkun skipastólsins, sem aðeins veldur því að afkoma sjómannanna versnar, afkoma útgerðaraðilanna versnar og afkoma þjóðarbúsins í heild versnar, þá verður ekki komist hjá kjaraskerðingu. Hæstv. ríkisstj. vill ekki horfast í augu við þann vanda. Hvað gerir hún þá til að reyna að forðast að horfast í augu við þann vanda? Hún reynir að halda lífskjörunum uppi með því að taka erlend lán til að standa undir lífskjörum í landinu. Það er bara víxill upp á framtíðina. Ef hann fellur ekki á okkur fellur hann á börnin okkar. Þessari röngu fjárfestingarpólitík þarf að breyta.

Alþfl. hefur lagt fram á þessu Alþingi ekki eitt. ekki tvö, heldur fleiri frv. um slíkar breytingar. Hann er eini flokkurinn sem hefur gert það, og þau frv. fá engar viðtökur. Þau fá enga afgreiðslu og þau fá engar viðtökur hér í þinginu. Menn verða að horfast í augu við það, að ef við ætlum að halda áfram að nota takmarkað ráðstöfunarfé þessarar litlu þjóðar í eins heimskulega starfsemi og að auka við offramleiðsluna á landbúnaðarafurðunum, sem hefur það í för með sér að við þurfum að gefa á þessu ári 20 milljarða gkr. með kindakjöti og smjöri, sem við flytjum út, ofan í erlendar þjóðir, ef við ættum að halda áfram að nota fé þessarar litlu þjóðar til að flytja inn í auknum mæli fleiri og fleiri fiskiskip sem gera ekkert annað en rýra afkomu hvers einasta manns í þessu landi, — á meðan við stöndum svona að fjárfestingarpólitík okkar, munum við aldrei komast út úr því verðbólgufari sem við erum fastir í.

Það er raunhæf aðgerð að breyta þessu til að vinna bug á verðbólgunni. En það er ekki við það komandi af hálfu landeigendaauðvaldsins í röðum framsóknar og íhalds að koma fram breytingum á vitlausri fjárfestingarpólitík í landbúnaði, og það er ekki við það komandi vegna útgerðarauðvaldsins í þessum sömu flokkum að koma á skipulagðri nýtingu á peningum landsmanna í fjárfestingu útgerðar og fiskvinnslu.

Við höfum einnig flutt um það till. hér á þingi og frv. að einskorða erlendar lántökur við erlendan kostnaðarþátt í framkvæmdum, taka ekki erlend lán fyrir inniendum kostnaði. Það vantar ekki að framsóknarmenn segist í orði vera fylgjandi þessari reglu og þessum tillögum okkar. En hvað gera þeir á borði? Þeir heimila innlendum aðilum í tveimur tilvikum að taka erlend lán til að kaupa og flytja innlend fiskiskip á milli fjarða. Auðvitað verðum við föst í óðaverðbólgufeni og óstjórnar á meðan við höldum svona á málum, en við Alþfl.-menn verðum ekki sakaðir um að hafa ekki lagt fram tillögur um breytingar í þessum efnum.

Við höfum fullyrt að við mundum ekki ná okkur upp úr þessu feni nema með því að skera stórlega niður í útgjöldum ríkissjóðs og nota það svigrúm, sem þannig skapast, til að koma á framfæri raunverulegum skattalagabreytingum til hagsbóta fyrir allan landslýð. Við höfum lagt fram tillögur um þetta. Við gerðum það síðast í desembermánuði s.l. Við lögðum fram tillögur um mun meiri niðurskurð á fjárlögum en hæstv. ríkisstj. er nú að tala um. Við höfum einnig lagt fram frv. á Alþingi um gerbreytingar á skattakerfinu, ekki bara tekjusköttunum, heldur einnig á óbeinu sköttunum og raunar allri skattheimtu ríkissjóðs. Síðan koma menn hér og saka okkur um að við höfum engar tillögur gert. Lesa þessir menn ekki einu sinni þingskjöl?

Við höfum lagt fram og það liggja nú fyrir þessu Alþingi tillögur okkar um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þar sem við gerum m.a.ráð fyrir að skera algerlega í sundur tekjuöflunarkerfi ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, þannig að sveitarfélögin geti verið sjálfstæðari aðilar í okkar þjóðfélagi en þau eru. Það er líka nauðsynlegur þáttur þess að hægt sé að rífa okkur upp úr því verðbólgu- og óstjórnarfari sem við erum nú föst í. Síðan koma menn hér og segja: Hvar eru tillögur Alþfl.?

Við höfum líka lagt fram á þessu þingi frv. um nýja byggðastefnu þar sem við gerum ráð fyrir að sú fyrirgreiðslupólitík, sem beitt er í sambandi við byggðamál, verði afnumin og þess í stað reynt af þessari stofnun að mynda raunhæfa byggðastefnu sem Alþingi afgreiði, en það hefur aldrei verið gert. Sú breyting er líka nauðsynlegur þáttur í því, að hægt sé að nota það takmarkaða fjármagn, sem þjóðin hefur til ráðstöfunar, og hægt sé með einhverjum hætti að rífa okkur út úr þeim vítahring sem íslensk efnahagsmál hafa verið í um margra ára skeið. Síðan koma menn og segja að Alþfl. hafi engar tillögur fram að færa. Hvar eru tillögur hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar? Hver hefur séð tillögur frá þeim manni? Ég hef aldrei séð þær. Ég hef ekki rekist á tillögur um efnahagsmál frá þeim þm. Hvar eru tillögur hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson? Jú, eitthvað hefur komið fram af þeim í Dagblaðinu. Ein af þeim liggur frammi á þingi í dag. Enginn veit hvort þm. ætlar að standa við till. eða ekki. En hvar eru hinar? (Gripið fram í.) Jú, það eru gosdrykkirnir, segir hæstv. félmrh., og það er rétt, að hann hefur haft áhuga á gosdrykkjum, og séu honum þakkir fyrir það. Það er eina „gosið“ sem hann hefur ástundað hér í þingsölum. Það var allt í ölinu! Annað hefur ekki frá þeim hv. þm. komið. Og hvar eru tillögur ríkisstj.? Hvar er niðurtalningarstefnan?

Nei, herra forseti, það verður löng bið eftir því, að við Alþfl.-menn komum fram með tillögur um aðgerðir í verðbólgumálum sem einskorðast við eitthvert vísitölumöndl, eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson er að ástunda hér. Okkar niðurstaða er sú, að búið sé að reyna það svo oft og svo lengi og af svo mörgum ríkisstjórnum að þess sé ekki að vænta að neinn varanlegur árangur verði af slíkum aðgerðum. Við getum ýtt vanda á undan okkur með slíkum hætti í þrjá til sex mánuði, síðan sprettur hann upp aftur nákvæmlega jafnvondur, ef ekki verri en áður var. Þetta er reynsla sem allar ríkisstjórnir hafa haft af slíkum tilraunum, bæði ríkisstj., sem nú situr, og allar aðrar. Ef menn geta einhvern tíma lært af reynslu ættu menn að geta lært af þeirri reynslu, að slíkar aðgerðir gagna ekki til frambúðar. Það verður að taka á málinu með öðrum hætti. Það verður að taka á málinu með því að breyta því kerfi sem á bak við býr, breyta þeirri heimskulegu fjárfestingarpólitík sem þessi stofnun stundar og ríkisstj. einnig, bæta úr þeim algera skorti á aðgát varðandi erlendar lántökur sem viðgengst hjá núv. ríkisstj. öllum ríkisstjórnum fremur, breyta þeirri röngu byggðastefnu sem framkvæmd er af stjórnvöldum, — raunar hefur Alþingi aldrei markað neina byggðastefnu þannig að orðið „byggðastefna“ hefur aldrei verið skilgreint af Alþingi, — koma á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin verði gerð sjálfstæður aðili og þeim verði fengnir tekjustofnar sem þau geta haft án afskipta ríkisvaldsins, aðflutningsgjaldakerfinu verði breytt og það stokkað upp. Allt eru þetta tillögur sem Alþfl. hefur flutt og byggt á frv.-flutninga hér á Alþingi. Alþfl. hefur sýnt fram á í mörgum málum, hverju málinu á eftir öðru, hvernig hægt er að framkvæma þau stefnumál sem flokkurinn hefur barist fyrir. En þar rekumst við að sjálfsögðu á vegg.

Það er enginn vandi, herra forseti, að fá flokkana hér á Alþingi til þess að fallast á að fresta verðbótum á laun, jafnvel ekki Alþb. Það er enginn vandi að fá flokka hér á Alþingi til þess að fallast á að greiða niður verðbætur á laun með því að lækka verðlag á kartöflum, kjöti og smjöri. En það er mikill vandi að fá flokkana hér á Alþingi til þess að fallast á að hverfa frá þeirri stórháskalegu fjárfestingarpólitík sem rekin hefur verið á Íslandi að undanförnu, þar sem fjármunum þjóðarinnar hefur skefjalaust verið varið til að ástunda fjárfestingar sem eru ekki bara rangar, heldur stórhættulegar og hafa haft stórfé af öllum almennum launþegum í þessu landi, orsakað að lífskjör hér á Íslandi eru, hvað sem hver segir, lakari en þau þyrftu að vera, lakari en þau gætu verið og lakari en víða í nágrannalöndum. Svo lengi sem menn halda þeim vana sínum og þeim hætti sínum að neita að horfast í augu við þessi vandamál, neita að hverfa frá rangri fjárfestingu í undirstöðuatvinnugreinum landsmanna, meðan menn halda dauðahaldi í gömlu vinnubrögðin á þessum sviðum, þá munum við vera fastir í því óðaverðbólgufeni sem einkennt hefur s.l. áratug, sem kallaður hefur verið áratugur Framsóknarflokksins.