27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Með till. þessari er hreyft mikilvægu máli, eflingu fiskræktar hér á landi. Fiskrækt og veiðimál eru meðal mikilvægustu greina í hlunnindatekjum og hlunnindaeign okkar Íslendinga. Um langan aldur hefur þjóðin sótt matbjörg til hlunninda, og öllum er kunnugt að þegar landið var numið voru hér fiskar í öllum ám og gnægð fisks einnig við ströndina.

Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu sem síðan hefur gerst en fiskrækt á síðari tímum byggist auðvitað á þeirri nauðsyn að auka þau hlunnindi og bæta þau lífsgæði sem land okkar hefur veitt frá öndverðu. Ég lít svo til, að á mörgum síðari árum hafi mikið verið gert í fiskræktarmálum á Íslandi, enda þótt þar hefði vissulega mátt betur standa að verki og veita til þess meira fjármagn. Ég hlýt að minna á í þessu sambandi bæði verulega þýðingarmikið starf fiskeldisstöðvarinnar í Kollafirði, sem öðrum þræði hefur verið rekin sem tilraunastöð og er í eigu ríkisins, einnig þrotlaust starf margra veiðifélaga í fiskræktarmálum og áhugamanna um þessi efni sem vissulega hefur allt að mínum dómi borið verulegan árangur.

Í þessari till. er einkum bent á þrjár leiðir sem nauðsynlegt sé að fara til þess að efla fiskrækt og afrakstur af fiskræki hér á landi. Það er í fyrsta lagi að efla rannsóknir og tilraunir, í öðru lagi að auka leiðbeiningar og í þriðja lagi að koma á samræmingu í fjárveitingum til fiskræktarmála og efla Fiskræktarsjóð.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að geta þess, að á síðasta ári og þessu ári hefur verið gert verulegt átak af opinberri hálfu til þess að efla fiskræktarmál í landinu. Okkur er kunnugt að Fiskræktarsjóður hefur haft það hlutverk að styðja framkvæmdir sem stuðla að aukinni fiskrækt. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að Fiskræktarsjóður hefur verið vanmegna að sinna þessu hlutverki þrátt fyrir það að fjárveitingar til hans hafa farið hækkandi, að ég hygg nokkurn veginn til jafns við framlög til ýmissa annarra framkvæmdaþátta á fjárlögum íslenska ríkisins. Til þess að sýna fram á, hvaða fjármagni hann hefur úr að spila, má geta þess, að á fjárlögum yfirstandandi árs er framlag til Fiskræktarsjóðs úr ríkissjóði 225 þús. kr. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að hækka þessa fjárveitingu um 90 þús. kr., í 315 þús. kr. Þetta er ekki mikið fé. Ég vil taka undir það, sem hefur þegar komið fram, og vænti þess, að við þá endurskoðun lax- og silungsveiðilöggjafarinnar, sem stendur yfir, verði fundnar leiðir til að auka tekjur Fiskræktarsjóðs svo að hann megi eflast verulega. En ég á ekki von á að breytingar verði á lagaákvæðum um Fiskræktarsjóð meðan endurskoðun lax- og silungsveiðilaganna stendur yfir. Sérstaki átak til þess að efla hann hlýtur því að bíða þess, að sú löggjöf verði tekin fyrir hér á Alþingi að lokinni þeirri endurskoðun sem stjórnskipuð nefnd vinnur að undir forustu hv. 1. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar.

Með breytingum á jarðræktarlögum frá 1979 var ákveðið að verja fjármagni, sem sparast við þær breytingar, til þess að styrkja tekjuöflunarleiðir í sveitum og efla nýjar búgreinar. Að þessu hefur síðan verið unnið. Á síðasta ári var verulegu fjármagni varið til fiskræktarmála af því fé sem ráðstafað er samkv. lögum nr. 43 frá 1979, um breytingu á jarðræktarlögum, og á þessu ári hefur enn verið varið verulega miklu fjármagni til þessara mála, til þess að efla fiskrækt í landinu. Á þessu ári hefur verið samþykki að verja af þessu fjármagni 1882 þús. kr. til fiskræktar- og veiðimála. Þegar litið er til þess fjármagns, sem varið er til Fiskræktarsjóðs og hefur verið að smáhækka í gegnum tíðina, sést að hér er um fjármagn að ræða sem munar verulega um, enda vænti ég þess, að við þær aðgerðir, sem unnið hefur verið að í fiskræktarmálum bæði á síðasta ári og á þessu ári megi segja að nokkur stakkaskipti hafi orðið til eflingar þessum þýðingarmiklu málum. Það er því ekki að öllu leyti rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, að fiskræktarmálin og brautryðjendur á sviði fiskræktarmála hefðu fengið dræmar undirtektir. Á því hefur orðið veruleg breyting nú a. m. k. í tvö ár.

Til viðbótar vil ég minna á það, að á þessu ári hefur verið stofnað útibú frá Veiðimálastofnun á Austurlandi. Veitt var til þess fjármagn á fjárlögum og a. m. k. starfaði þar maður um tíma til að sinna þessu verki. Fullar heimildir liggja fyrir um að í því starfi sé maður allt árið. Unnið hefur verið að því að útvega húsnæði fyrir starfsemina á Egilsstöðum. Vænti ég að það mál sé til þess fallið að efla fiskrækt verulega í þeim landshluta þar sem fiskræki hefur kannske verið einna skemmst á veg komin á landinu til þessa. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir sams konar starfsemi á Norðurlandi. Á þessu sviði er því um veruleg umskipti að ræða nú á tveimur árum með því að setja upp útibú, sem fyrst og fremst eru leiðbeiningastöðvar fyrir þessa starfsemi í tveimur landshlutum sem fjærst liggja Kollafjarðarstöðinni og aðalstöðvum Veiðimálastofnunar. Útibúin munu veita leiðbeiningar í þessum málum og verða til þess að auka þekkingu og efla áhuga á slíkri starfsemi í viðkomandi landshlutum. Með þessum hætti er m. a. svarað því sem fram kemur í 2. tölul. till., þar sem rætt er um að auka leiðbeiningar í fiskræki og veiðimálum m. a. með því að fjölga fiskifræðingum sem staðsettir verði úti á landi. Þessi starfsemi er sem sagt í fullum gangi.

Ég skal ekki fjalla meira um fjárveitingar til þessara mála. Ég vonast til þess, að framhald geti orðið á því að fé renni til þeirra samkvæmt þeim breyttu jarðræktarlögum, nr. 43 frá 1979, sem ég greindi frá áðan, á grundvelli þeirra laga geti áfram runnið fé til þessara mála sem verulega muni um. Þar er hins vegar um tímabundin lagaákvæði að ræða, fimm ára tímabil, og er þess vegna mikil þörf á, ef ekki yrði framhald á fjárframlögum eftir þeirri leið, að huga vandlega að því í sambandi við endurskoðun laganna að Fiskræktarsjóður geti gegnt því hlutverki sem honum er í rauninni ætlað.

Ég hlýt einnig að minna á það, að á allra síðustu árum hafa verið stofnaðar fiskeldisstöðvar á landinu. Ég met mikils áhuga einstaklinga og samtaka þeirra, sem leggja fjármagn til þeirra mála, en ég hlýt sérstaklega að minna á að á síðasta ári tók til starfa fiskeldisstöð á Hólum í Hjaltadal, þar sem um er að ræða 40% eignaraðild ríkisins, en um 60% eignaraðild heimaaðila, þ. e. veiðifélaganna á Norðurlandi vestra. Þessi stöð hefur m. a. því þýðingarmikla hlutverki að gegna að veita fræðslu þeim ungmennum sem stunda nám í Bændaskólanum á Hólum. Með þeim hætti erum við að færa nám í þessum greinum, í fiskrækt og fiskeldisfræðum, inn í landið. Hingað til hafa þeir, sem leitað hafa náms á þessu sviði, orðið að sækja það að mestu leyti til útlanda. Ég tel mjög mikilvægt að þessi fiskeldisstöð skuli rísa í tengslum við Bændaskólann. Það á væntanlega eftir að verða til þess að auka enn þekkingu á þessum málum og þess er full þörf. Við Íslendingar eigum í þessari búgrein væntanlega mikla möguleika og eigum vonandi eftir að sækja í fiskræktina mjög auknar tekjur fyrir þjóð okkar þannig að áfram verði hlunnindaafrakstur og fiskeldisafurðir veigamikill stofn lífsbjargar í landinu.

Hér var að því vikið, að nokkuð ískyggilega horfði í sambandi við sjávarveiði á laxi, einkum sjávarveiði Færeyinga. Það er rétt, að við Íslendingar höfum af þessu miklar áhyggjur. Það er mjög ískyggilegt hversu laxveiði og laxagengd hefur þorrið á þessu ári, raunar nokkuð á hinu síðasta, í mörgum ám á landinu, einkanlega á tilteknum landssvæðum, svo sem Austur- og Norðausturlandi, enn fremur á Borgarfjarðarsvæðinu. Þessa virðist ekki gæta eins á sumum öðrum svæðum. T. d. var yfirleitt tiltölulega góð veiði í laxveiðiánum í Húnavatnssýslum báðum.

Vegna stóraukinna laxveiða Færeyinga á úthafinu voru þau mál tekin upp undir lok síðasta árs við Færeyinga þegar þeir sendu menn hingað til að semja um framhald fiskveiðiheimilda sinna innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Niðurstaða þeirra viðræðna varð ekki önnur en sú á því stigi, að Íslendingar hefðu fullan rétt til þess að lita eftir og kanna merkingar á laxi sem Færeyingar veiða. Að könnun á þessum merkingum hefur síðan verið nokkuð unnið en þær gefa — enn sem komið er a. m. k. — óljósar upplýsingar um hversu veigamikil hlutdeild íslenska laxastofnsins er í afla Færeyinga.

Síðsumars nú á þessu ári skipaði ég nefnd til að kanna leiðir til þess að rannsaka hversu mikil hlutdeild íslenskra laxfiska væri í sjávarveiði Færeyinga og annarri þeirri laxveiði sem fram fer á úthafinu í kringum okkur. Þessi nefnd er að starfi og starfar af miklum áhuga. Ég vil einnig minna á það, að Veiðimálastofnunin hefur með þessi mál að gera og vinnur að þeim m. a. á þann veg að við tökum þátt í alþjóðasamstarfi um það, á hvern hátt komið verði við könnun á þessum málum. Standa fyrir dyrum nýir fundir þar sem þær þjóðir, sem hér eiga mest hlut að máli, Íslendingar, Norðmenn, Danir eða Færeyingar, Bretar og Írar, svo að nokkuð sé nefnt, koma saman til að fjalla um þessi mál og hyggjast ná saman um skiptingu kostnaðar við rannsókn á hlutdeild hinna einstöku laxastofna frá einstökum löndum í veiði á laxi á úthafinu. Ég tel mjög mikilvægt að við Íslendingar tökum þátt í þessu samstarfi. Við eigum mikið í húfi í sambandi við þessi mál, og ég á von á því, að við látum ekki okkar hlut eftir liggja, en til þess þarf auðvitað nokkurt fjármagn.

Ég skal ekki hafa um þessi efni fleiri orð. Úthafsveiðar á laxi valda okkur miklum áhyggjum. Við munum reyna að leita þeirra leiða sem við sjáum færar til þess að athuga hversu mikinn þátt þær kunna að eiga í því að draga úr okkar laxveiðum. Vonandi finnast leiðir til þess að skera þar úr svo að það liggi þá ljóst fyrir.

Ég tel að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða, eins og ég gat um í upphafi, og ég vil ítreka að að þessum málum er nú unnið af miklum áhuga. Það hefur verið unnið að allveigamiklum framkvæmdum hér á landi í sambandi við fiskræktarmál. Það er unnið að stofnun útibúa sem eiga að þjóna aukinni leiðbeiningarstarfsemi, aukinni fræðslu. Það er verið að flytja möguleika til menntunar á þessum sviðum inn í landið og á síðustu tveimur árum hefur verið varið af hálfu ríkisins stórauknu fjármagni til þessara mála.

Frekari aðgerða í sambandi við þessi mál eða nýrra leiða kann að þurfa að leita og á þær leiðir verður væntanlega bent í tillögum þeirrar nefndar sem nú vinnur að endurskoðun lax- og silungsveiðilöggjafarinnar. Hvort nauðsynlegt er að setja sérstaka áætlun um þessi mál öll, eins og gert er ráð fyrir í till., skal ég ekki meta á þessu stigi. En sé það talið til bóta að bestu manna yfirsýn, sem um þessi mál fjalla, skal ekki standa á mér að stuðla að því að svo verði gert.