22.02.1982
Efri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

206. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér þykir hlýða að fara fáeinum orðum um það frv. til l. sem hér er til umr. um breytingu á orkulögum.

Það má segja að það séu ekki mikil nýmæli í þessu frv. frá frumvörpum um svipað efni sem fram hafa komið á fyrri þingum. Það er að verulegu leyti, eins og hv. 1. flm. gat um, samhljóða frv. um sama efni sem Magnús Kjartansson o.fl. fluttu síðast hér á hv. Alþingi 1976. Þó er hér að finna viðbætur sem varða einkum sérákvæði varðandi rétt sveitarfélaga til að vinna jarðhita.

Ég tel að efni þessa frv. sé út af fyrir sig góðra gjalda vert, enda hefur því verið hreyft ítrekað áður af Alþb.mönnum, iðnrh. Alþb. í tíð ríkisstj. 1971–1974 og síðan, eins og ég gat um, af hv. þm. og fyrrv. iðnrh. Magnúsi Kjartanssyni sem 1. flm. 1976. Vissulega má segja að góð vísa sé ekki of oft kveðin, sérstaklega þar sem frv. um þetta efni hefur ekki náð fram að ganga. Efni frv., sem hér liggur fyrir, gengur í rétta átt í sambandi við rétt ríkisins til umráða og vinnslu jarðhita á háhitasvæðum.

Ég tel rétt að geta þess hér, að í undirbúningi er stjfrv. um eignar- og umráðarétt jarðhita, og ég vænti þess, að slíkt frv. komi fram á yfirstandandi þingi. Mér þykir rétt að fram komi að það frv. er fyrirhugað sem heildarlöggjöf um þetta efni, þ.e. um jarðhitamál þar sem samræmd verði ákvæði þar að lútandi í orkulögum og síðan aukið við nýjum ákvæðum varðandi eignar- og umráðarétt á jarðhita. Eins og málið hefur verið undirbúið af hálfu iðnrn. er gert ráð fyrir að eignarréttur og umráðaréttur ríkisins yfir jarðhita, hvort sem um er að ræða lághita eða háhita neðan við 100 metra dýpi, verði ótvíræður. Þó er gert ráð fyrir að sveitarfélög og aðrir, sem hafið hafa vinnslu á jarðhita á jarðhitasvæðum, hafi ákveðin réttindi áfram og sérstaklega að réttur sveitarfélaga til áframhaldandi nýtingar á svæðum í eigin eigu eða þar sem þau hafa fengið leyfi til jarðhitavinnslu haldist.

Þetta eru nokkur meginatriði í heildarlöggjöf varðandi jarðhitamál sem í undirbúningi er og snertir almannaréttinn. Það má segja að hugmyndir þær og tillögur, sem hér liggja fyrir, gangi að þessu leyti í sömu átt. Ég tel bæði rétt og skylt að lýsa fylgi mínu við þau sjónarmið sem þar koma fram, þar sem þau ganga í þá átt sem að er stefnt með því frv. sem langt er komið undirbúningi að á vegum iðnrn. — Með þessu tel ég mig hafa svarað einnig þeirri fyrirspurn sem fram kom frá hv. 4. þm. Vestf. um undirbúning þessara mála.

Það hafa fleiri en ein nefnd starfað að undirbúningi þessa máls á liðnum árum. Hv. 4. þm. Vestf. gat um nefnd sem starfaði í tíð ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar 1974–1978 að undirbúningi tillagna um þessi efni. Málið var tekið upp til frekari athugunar í tíð ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, og þeim undirbúningi að heildarlöggjöf um jarðhitamál er nú að verða lokið. Ríkisstj. hefur fengið drög þar að lútandi til meðferðar, og ég vænti þess, eins og ég gat um áður, að frv. að slíkri löggjöf verði lagt fram á yfirstandandi þingi sem stjfrv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um mál þetta að sinni.