27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hér er vissulega um stórt mál að ræða sem eðlilegt er að nokkur tími sé tekinn til að ræða um hér á hinu háa Alþingi.

Eins og fram kom í máli hæstv. landbrh. hefur verið unnið að þessum málum með meiri þunga, sérstaklega nú á síðustu árum, heldur en áður var. Hins vegar vantar inn í þetta svör við ýmsum spurningum. Það vantar frekari tilraunir. Og ef það reyndist nú svo, eins og margir eru hræddir um. að Færeyingar taki töluvert til sín af íslenskum laxi og e. t. v. fleiri þjóðir, þá hlýtur það að breyta viðhorfum okkar í sambandi við fiskræktarmál. Það gæti orðið þannig, ef við komumst ekki að samkomulagi við Færeyinga og aðra sem kunna að veiða lax í sjó, að sú leið, sem hefur verið farin fram að þessu, sé að verulegu leyti lokuð. Þá er spurningin: Hvernig eigum við þá að standa að þessum málum?

Það hafa verið gerðar tilraunir, kannske ekki nógu markvissar, í sambandi við fiskeldi bæði í ám og sérstaklega í sjó eða sjávarlónum. Þar sem er meiri hiti en í venjulegu vatni er víst árangurinn ágætur, að mér er tjáð, t. d. í Lóni í Kelduhverfi, þó ég sé því ekki nægilega kunnugur hvernig þetta hefur komið út á síðasta misseri. En þeir, sem þekkja best þessi mál, telja að mjög erfitt sé eða kannske útilokað að stunda fiskeldi í sjávarlónum þar sem er bara venjulegt hitastig á vatninu.

Mér er tjáð að t. d. í Noregi geti ein gráða til eða frá ráðið úrslitum um árangur í þessu efni. Ýmsir ungir menn héðan eru að læra þetta í Noregi og reyna að tileinka sér þá þekkingu sem Norðmenn búa yfir í þessum málum. Þeir hafa óskað eftir að fá héðan upplýsingar t. d. um hitamælingar í sjó í kringum landið. Í þessum skólum hefur verið athugað hvernig þetta kæmi út. Sumir vilja fullyrða að hér séu ekki skilyrði fyrir norðan og austan og jafnvel ekki nema hér við Suðvesturlandið til að ala lax t. d. í þessum búrum sem þeir nota, áhættan sé allt of mikil sem menn taki í því efni. Þá hefur mönnum dottið í hug hvort hægt væri að hafa þessi búr á ákveðnu dýpi til þess að verða síður fyrir áföllum í sambandi við hitabreytingar. Það vantar tilraunir í þessu efni og mörgu öðru og spurningin er hvað við eigum að fara hratt fyrr en við fáum svör við þessum spurningum.

Á öðrum stöðum, þar sem heitt vatn er fyrir hendi og skilyrði til að dæla sjó í eldisstóðvar og setja heitt vatn saman við, telja menn að séu verulegir möguleikar, ef kostnaðurinn verður þá ekki of mikill.

Menn halda því fram, sem eru nú að læra úti í Noregi, að við getum ekki búist við að selja þangað meira af seiðum, það sé liðin tíð. Það má þess vegna gera ráð fyrir að þessi atvinnuvegur hljóti að byggjast í framtíðinni á því, að við ræktum fiskinn í söluhæfa stærð með einhverjum hætti. Hvernig við svo leysum það á hinum ýmsu stöðum er annað mál. Ég hef því takmarkaða trú á að bændur geti almennt haft þetta sem aukabúgrein, nema þá þar sem heitt vatn er fyrir hendi. Hins vegar væri hugsanlegt að margir slægju sér saman og notuðu þessa möguleika þar sem þeir eru. En þá er komið að öðru atriði, sem hér hefur komið fram, að Norðmenn og ýmsir aðrir eru komnir svo langt í þessu fiskeldi að það er orðið þröngt á markaðinum, a. m. k. í okkar næstu viðskiptalöndum. En auðvitað þarf að kanna það betur.

Það eru fleiri leiðir í þessum málum en að efla Fiskræktarsjóð. Það hefur verið rætt töluvert, t. d. í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, að með tilkomu þess fjármagns, sem hæstv. landbrh. gat um í sinni ræðu áðan, mætti reyna, ef bændur á lögbýlum ættu í hlut, að lána eitthvað út á slíkar stöðvar þegar komin er nóg reynsla fyrir því, að það sé ekki of áhættusamur búskapur, eða á þeim stöðum þar sem skilyrði eru fyrir hendi með heitt vatn.

Ég tel ýmislegt benda til þess, þó að ég geti ekki fullyrt mikið um það, að þarna sé um mikla möguleika að ræða. En við þurfum að læra á þessa starfsemi miðað við það tíðarfar og þau skilyrði sem eru í landinu. Því miður held ég að við séum ekki komin nógu langt á þessu sviði. Við skulum vona að þeir ungu menn, sem eru að læra, sumir komnir heim og hafa verið að læra erlendis, færi okkur nær því marki að geta aukið þetta. En ég legg áherslu á að við förum samt ekki ógætilega í þessum efnum. Við þurfum að auka rannsóknirnar, láta það ganga fyrir og byggja á þeirri reynslu sem þannig fæst í þessum málum.