23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

343. mál, framhaldsskólar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég heyrði áðan að tilkynnt hefði verið um framlögn frv. til l. um framhaldsskóla þótt það sé ekki komið á borð hv. þm., hygg ég. Fagna ég því. En ég mun eftir sem áður leyfa mér að tala fyrir fsp. sem ég lagði fram nokkuð snemma í vetur og er á þskj. 94. Fsp. mín hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hvenær má vænta þess, að frv. til l. um framhaldsskóla verði lagt fram?“

Frv. til l. um framhaldsskóla hefur verið lagt fram á fjórum þingum, 98., 99., 100. og 101. löggjafarþingi, en ekki orðið útrætt. Lög um grunnskóla voru samþykkt á Alþingi árið 1974 og eru smám saman að komast í framkvæmd. Sýnist því þörf á að samhæfa framhaldsskólana grunnskólunum.

Margt hefur orðið til ágreinings í meðferð frv. og þá ekki síst hvernig fjármagna skuli framhaldsskólana. Í þeirri gerð frv., sem lögð var fram í 101. löggjafarþingi, höfðu verið gerðar mikilvægar breytingar á kostnaðarhlið skólanna. Námsvistargjöld höfðu þá verið felld niður, en sveitarfélögunum gert skylt að eiga aðild að rekstrinum. Þá var og stofnkostnaði breytt í þá veru að ríkissjóður skyldi greiða hann að fullu. Um þetta atriði er vissulega ágreiningur og til samræmis má minna á að nokkurri gagnrýni hefur það ákvæði sætt varðandi uppbyggingu heilsugæslustöðva landsins að hlutur ríkisins er svo hár sem hann er varðandi stofnkostnað. Margir munu þeirrar skoðunar, að með því hætti sveitarfélögum til að vera stórtækari í byggingarframkvæmdum sínum en ef þau ættu að fjármagna þessar byggingar sjálf í ríkara mæli.

En meginatriði þessa máls hlýtur þó endanlega að vera hver sé stefnan í skólamálum þjóðarinnar, hvert markmiðið skuli vera, hverjar leiðir skuli velja svo að skólakerfið þjóni landsmönnum öllum sem best.

Í þjóðfélagi nútímans verða breytingar svo örar að starfsstéttir verða oft á tíðum að gerbylta vinnuháttum sínum hvað eftir annað á einni starfsævi. Það er því nauðsynlegra en nokkru sinni áður að allir landsmenn öðlist trausta undirstöðumenntun sem geri þá hæfari til að ráða við þessar öru breytingar. Þörfin fyrir fullorðinsfræðslu verður því jafnframt æ meiri. Góð menntun er ekki lengur yfirstéttarfyrirbæri, heldur brýn nauðsyn hverjum manni í nútímaþjóðfélagi. Á síðustu árum fer ekki hjá því, að svo sýnist sem hver starfsstéttin á fætur annarri krefjist meiri starfsmenntunar til þess að ná hærri launaflokkum. En menntakerfið á auðvitað ekki að skipuleggja fyrir tilverknað þrýstihópa í kjarabaráttu, heldur miðast við þarfir þjóðfélagsins alls.

Vegna þess að ekki hefur verið mörkuð stefna í kennslumálum eru fjölmargir skólar í upplausn. T.d. má nefna Ljósmæðraskóla Íslands sem óvíst er hvernig rekinn verður. Heyrst hefur að hann eigi að veita framhaldsnám að loknu hjúkrunarnámi. Þá hljóta menn að spyrja hvers vegna hann þurfi að vera sérstakur skóli. Margar spurningar vakna einnig um hvaða námsgreinar eigi erindi inn í Háskóla Íslands, hverjar í sérskóla eða hverjar í fjölbrautaskóla. Öllum þessum spurningum er enn ósvarað, nema þeim sé svarað í því frv. sem lagt hefur verið fram í dag, en ég hef ekki haft tækifæri til að líta á það fremur en aðrir.

Háskólinn hefur löngum verið vísinda- og rannsóknastofnun jafnframt því að vera kennslustofnun. Þeirrar þróunar sýnist gæta að innan Háskólans séu að verða til hreinar starfsþjálfunardeildir. En á kennurum hans hvílir raunar skylda til vísindalegra starfa og geta þessir nýju deildir varla verið undanþegnar henni.

Í síðasta frv. er gert ráð fyrir að flestar námsgreinar falli undir fjölbrautakerfi. Ýmsir hafa efasemdir um það fyrirkomulag. Má t.d. spyrja: Eiga Leiklistarskóli Íslands, Myndlista- og handíðaskólinn eða Stýrimannaskólinn að falla undir þetta kerfi? Slíkar spurningar verða áleitnar og auðvitað miklu fleiri.

Þeir skólamenn eru margir til sem segja sem svo: Leyfið framhaldsskólunum að þróast í friði um sinn og setjið engin lög. En í litlu samfélagi eins og okkar getur sú biðstaða orðið dýr, bæði efnahagslega og félagslega. Sjálfsagt er og eðlilegt að skólamenn taki virkan þátt í mótun menntunarstefnu, en ábyrgðin hlýtur að vera hjá hinu háa Alþingi og því ráðuneyti sem með þau mál fer.

Fsp. mín er því ekki gagnrýni fyrst og fremst, heldur miklu fremur beiðni um vitneskju um hvað verið sé að gera í þessum málum nú. Eins og þm. vita er nokkuð síðan ég samdi ræðu mína með þessari fsp., og þar sem frv. hefur nú verið lagt fram á nær sömu mínútu og hér skyldi talað fyrir þeirri fsp. mun ég að sjálfsögðu kynna mér þetta nýja frv. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir framlagningu þess og vænti þess, að fsp. mín hafi a.m.k. orðið hvati til þess að frv. yrði lagt fram, en harma jafnframt hversu langan tíma hefur tekið að svara henni.