14.10.1981
Efri deild: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

5. mál, Jarðboranir ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., á þskj. 5, er flutt af mér ásamt Agli Jónssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni, Guðmundi Karlssyni, Lárusi Jónssyni og Salome Þorkelsdóttur. Hér er um að ræða frv. sem var flutt á síðasta þingi, en fékk þá ekki afgreiðslu. Þetta frv. fjallar um einn þátt í skipulagi orkumálanna, aðdragandi þessa frv. ber vott um slíkt.

Skipulag orkumálanna hefur verið, eins og öllum er kunnugt, mjög á dagskrá nú um árabil, án þess að nokkuð afgerandi hafi gerst í þeim málum. Árið 1977, nánar tiltekið í janúar það ár, var skipuð af þáv. iðnrh., núv. hæstv. forsrh., sérstök nefnd til þess að gera tillögur um heildarskipulag orkumála. Þessi nefnd skilaði áliti í október 1978. Meginverk þessarar nefndar var að semja frv. til orkulaga, og í því frv. var gert ráð fyrir breytingum á skipulagi og verkefni Orkustofnunar. Þar var lagt til að hnitmiða verksvið Orkustofnunar við rannsóknir á orkulindum landsins, áætlanagerðum um orkubúskapinn og aðstoð og ráðgjöf um stefnumótun í orkumálum. Af þessu leiddi að gerð var tillaga um breytingu á verkefnum Orkustofnunar að því leyti, að teknar yrðu undan Orkustofnun Jarðboranir ríkisins sem hafa heyrt rekstrarlega undir Orkustofnun um árabil. Með tilliti til þessa þótti rétt að ákvæði um Jarðboranir ríkisins væri ekki lengur í almennum orkulögum, heldur yrðu sett sérlög um Jarðboranir ríkisins, og frv. það, sem hér er lagt fram, er byggt á þessu sjónarmiði. Samkvæmt frv. eru Jarðboranir ríkisins teknar undan rekstrarstjórn Orkustofnunar.

Orkustofnun er ekki falið að annast rekstur Jarðborana ríkisins eins og verið hefur, heldur skal fyrirtækið lúta sérstökum framkvæmdastjóra sem ráðh. skipar.

Samkvæmt þessu er svo kveðið á í 1. gr. frv., að ríkið starfræki fyrirtæki, er nefnist Jarðboranir ríkisins, og að fyrirtækið skuli rekið sem sjálfstætt fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi. Þá kveður frv. á um hlutverk Jarðborana ríkisins, sem skal vera að eiga og reka jarðbora til notkunar við rannsóknir á orkulindum landsins og vinnslu orku úr jörðu. Jafnframt er tekið fram að Jarðborunum ríkisins sé heimilt að bora í öðru skyni eftir því sem við verður komið.

Ég sagði áðan að Jarðboranir ríkisins hefðu rekstrarlega heyrt undir Orkustofnun, og þó að hér sé gert ráð fyrir skipulagslegum aðskilnaði Jarðborana ríkisins og Orkustofnunar, þá er staðreynd að það hljóta að verða náin tengsl milli Orkustofnunar og Jarðborana ríkisins. Því er svo mælt fyrir í frv. þessu að vegna náinna starfstengsla jarðborana og rannsókna til undirbúnings borun, meðan á henni stendur og að henni lokinni skuli dagleg starfsemi Jarðborana ríkisins fara fram í nánum tengslum við Orkustofnun.

Í þessu frv. eru enn fremur ný ákvæði um starfshætti Jarðborana ríkisins. Tekið er fram að Jarðboranir ríkisins framkvæmi boranir samkvæmt beiðni Orkustofnunar eða annarra aðila sem þess óska, enda komi full greiðsla fyrir. Enn fremur er tekið fram að gerður skuli verksamningur fyrir hvert verkefni sem Jarðboranir ríkisins taka að sér. Skal gjaldskrá fyrir þjónustu þá, sem Jarðboranir ríkisins inna af hendi, ákveðin með hliðsjón af því, að tekjur af borunum standi undir rekstrarkostnaði og fjármagnskostnaði fyrirtækisins miðað við eðlilegan afskriftatíma.

Frv. gerir enn fremur ráð fyrir að ráðh. skipi framkvæmdastjóra Jarðborana ríkisins og aðra fasta starfsmenn fyrirtækisins að fengnum tillögum framkvæmdastjóra.

Þetta, sem ég hef nú greint frá, eru í stuttu máli höfuðatriði þess frv. sem hér liggur fyrir. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara hér að ræða sérstaklega um mikilvægi Jarðborana ríkisins, öllum hv. þm. er það mál ljóst. Ekki þarf að taka fram hvað það er mikilvægt að afla jarðvarma til húshitunar þó að mikið hafi áunnist í þeim efnum á síðustu árum, og ekki þarf heldur að taka fram hve það er mikilvægt að hagnýta jarðvarma í þágu atvinnurekstrar og iðnaðar. Þetta hvort tveggja eru stór verkefni, aðkallandi verkefni og ein áf þýðingarmestu verkefnum sem við er að fást. Með tilliti til þessa er sjálfsagt að vanda sem best skipulag og allan aðbúnað Jarðborana ríkisins til þess að þar skorti ekkert á að þar geti nást góður árangur á því mikilvæga sviði sem Jarðboranir fást við.

Ég vil taka það fram, að frv. þetta er árangur af starfsemi nefndar þeirrar í skipulagsmálum sem ég nefndi áður, ásamt frv. til orkulaga á þskj. 4 sem við sömu flm. og flytjum þetta frv. höfum nú þegar lagt fram. Þegar það mál kemur til umr. þykir mér eðlilegt að ræða þessi mál ítarlegar og frá almennara sjónarmiði því að þessi frv. eru hvort öðru háð. Í frv. til orkulaga er gert ráð fyrir, eins og ég áður sagði, að taka Jarðboranir ríkisins undan rekstrarstjórn Orkustofnunar, og frv. það, sem við hér ræðum um, fjallar um það, með hverjum hætti það verði gert. Ég minni og á það, eins og ég sagði í upphafi, að þetta frv. er endurflutt og var rætt á síðasta þingi í þessari hv. deild svo og frv. til orkulaga sem var ítarlega rætt þá.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. iðnn.