27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Örfáar setningar vegna orða hæstv. landbrh. Hann sagði að það væri ekki alls kostar rétt hjá mér, að brautryðjendur í fiskræktarmálum hefðu hlotið dræmar undirtektir á undanförnum árum. Ég skal fallast á það þegar í stað, að hæstv. landbrh. hefur haldið betur á þessum málum en að ég held flestir forverar hans í því starfi. Hins vegar skulum við ekki draga neina dul á það, að þessi mál hafa hvergi nærri fengið þær undirtektir sem verðugt væri. Mig langar í þessu sambandi til að beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh., þegar hann nefnir töluna 1 millj. og rösklega 800 þús, nýkr. eða ríflega 180 millj. gkr., sem vegna jarðræktarlaga hefðu farið til fiskræktar á þessu ári, hve stór hluti af þeirri fjárhæð hafi farið til Hóla í Hjaltadal. Mér er ekki grunlaust um að umtalsverður hluti þeirrar fjárhæðar hafi farið þangað. Og þá væri fróðlegt að vita hve mikill hluti hafi farið til annarra aðila sem við þessi mál fást.

Ekki er ég að amast við fiskeldisstöðinni að Hólum í Hjaltadal og er raunar sannfærður um að hún á eftir að gegna veigamiklu hlutverki, ef rétt verður að málum staðið, ef þar verða menn við nám sem taka það nám alvarlega og leitast við að læra fiskeldi a. m. k. eitthvað í þá veru sem gerist við góða skóla erlendis.

Mig langar aðeins að láta þá skoðun mína í ljós, að þegar verið er að tala um fiskeldi mega menn ekki beina sjónum sínum eingöngu að eldisstöðvum, vegna þess að í landinu er mikill fjöldi vatna sem fiskeldi er tiltölulega auðvelt í. M. a. hefur bleikja reynst mjög góður eldisfiskur í ýmsum góðum og hreinum vötnum þar sem æti er fyrir hendi. Ég vil m. a. benda á það, sem Þingvallabændur hafa gert með murtuna, og fleira af því tagi sem hægt er að gera án mjög verulegs tilkostnaðar.

Ég ætla ekki að munnhöggvast við hæstv. landbrh. um raunir brautryðjenda í fiskræktarmálum á undanförnum árum hér á Íslandi. Sú saga er allt of vel kunn og um það hef ég fjallað dálítið hér á þessu ágæta þingi. Ég vil þó í því sambandi minna á það, að hér á landi hefur verið til um rösklega tveggja áratuga skeið eini alheilbrigði stofninn af regnbogasilungi sem líklega er til í veröldinni. Þessi stofn hefur því miður samkv. ákvörðun embættismanna og stjórnvalda verið bundinn við einn stað á landinu. Hann hefur ekki fengið þaðan að fara þar til nú fyrir skömmu. Nú er verið að rækta þennan fisk í Vestmannaeyjum, og allar líkur benda til að góður matfiskur komi á markað næsta vor og þá muni menn sjá hvaða gildi það hefur haft fyrir þjóðina, að þessi stofn var varðveittur eins heilbrigður í þessu landi og raun ber vitni um. Ég er sannfærður um, að mönnum mun verða fljótlega ljóst, eftir að þessi fiskur kemur hér á markað, að í þessum stofni er á ferðinni umtalsverður möguleiki til fiskræktar, enda vex þessi fiskur hraðar en annar fiskur af svipuðum toga og er þess vegna talinn í flestum löndum einn arðbærasti nytjafiskur af þessu tagi sem til er.

Ég vil aðeins skjóta því að hæstv. landbrh., að í þessum fiskræktar- og fiskeldismálum teldi ég mjög mikils virði að við hefðum góða samvinnu við nágranna okkar bæði í Færeyjum og á Grænlandi. Á Grænlandi er að aukast mjög áhugi manna á þessu sviði, og tel ég ákaflega æskilegt að unnt verði að rétta þeim hjálparhönd ef eftir því er leitað.