23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2587 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

356. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 324 að beina tveim fsp. til hæstv. menntmrh. varðandi fuglafriðun.

Á nokkrum síðustu þingum hefur frv. að nýrri heildarlöggjöf um fuglafriðun verið lagt fram á Alþingi og fékk m.a. ítarlega umfjöllun á síðasta Alþingi og umsagnir bárust frá fjölmörgum aðilum um einstök ákvæði í því frv. Það varð þá niðurstaðan i menntmn. Nd. að beina því til hæstv. menntmrh., hvort ekki væri unnt að fela þeim mönnum, sem á sínum tíma sömdu frv., að endurskoða ákvæði þess með hliðsjón af þeim umsögnum sem borist höfðu. Var það hugsun nefndarinnar þá, að nýtt frv. mundi verða lagt fram á því þingi sem nú situr. Nú virðist svo sem þessi vinna hafi tekið lengri tíma en við bjuggumst við. Er það kannske ekki aðalatriði málsins, hvort slíkt frv. verði lagt fram einu þingi fyrr eða síðar, en á hinn bóginn eru einstök atriði varðandi fuglafriðun sem nauðsynlegt er að taka út úr og flýta. Hef ég þar einkum í huga ýmis sektarákvæði varðandi brot á fuglafriðunarlögum.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að á undanförnum árum hefur þeim erlendu mönnum mjög fjölgað sem farið hafa ránshendi um eggver og haft á brott með sér egg fágætra fuglategunda. Það er náttúrlega ógerningur að nefna tölur í þessu sambandi, en víða um land hefur á undanförnum árum spurst til þvílíkra ferðalanga. Í þeim lögum, sem nú eru í gildi, eru sektir við slíkri ólöglegri eggjatöku frá 2.50–100 kr., sem er náttúrlega sama og ekki neitt og næsta broslegt. Það er að vísu sagt að virða skuli til refsingar eða þyngingar ef tekin séu egg fágætra fuglategunda, svo sem arnar, snæuglu, fálka og haftyrðils, en jafnframt er tekið fram að lágmarkssekt fyrir ólöglega töku eggja þessara tegunda svo að æðareggja skuli vera 15 kr. Við sjáum náttúrlega að þessar tölur eru úreltar orðnar og nauðsynlegt að huga að því, áður en vorið rennur upp, hvort ekki náist samkomulag um það hér á Alþingi í samráði við menntmrh. eða að frumkvæði hans að þyngja þessi sektarákvæði til bráðabirgða á meðan hugað er að því, hvernig heildarlöggjöf um fuglafriðun skuli háttað.

Ég get aðeins sem dæmi um þau fuglafriðunarlög, sem nú eru í gildi, nefnt, að svo miklir vargfuglar eins og t.d. hettumávur, bjartmávur eða hvítmávur eru friðaðir allan þann tíma sem hægt er að ná þeim og þeir valda mestu tjóni, en hins vegar er heimilt t.d. að drepa hettumávinn frá 1. sept. til 31. mars eða á þeim tíma sem hann sést helst ekki. Meðan hann gerir uslann í varplöndunum er hann að fullu friðaður, og hann nýtur sams konar verndar í sínum varplöndum og krían. Þetta eru gersamlega úrelt ákvæði og þarf að taka þau til endurskoðunar. Einnig get ég nefnt það, að nauðsynlegt er að endurskoða friðunarákvæði varðandi einstakar andartegundir og fleira og skal ég ekki fara út í það nú.

Fyrir mér vakir sem sagt fyrst og fremst þetta: að strangari viðurlög verði við því sett þegar í stað að menn taki egg fágætra fuglategunda í auðgunarskyni og hafi af landi brott. Af þessum sökum hef ég lagt fram tvær fyrirspurnir, svohljóðandi:

„Hvenær er þess að vænta, að frv. til l. um fuglafriðun verði lagt fram á Alþingi?

2. Er áformað að flytja á þessu þingi frv. þess efnis, að sektir við brotum á lögum um friðun fugla eða hreindýra ellegar um dýra- og náttúruvernd verði færðar upp til samræmis við breytt gildi krónunnar og ört rýrnandi gjaldmiðil?“