27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

22. mál, fiskiræktar- og veiðmál

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég á nú ekki mikið erindi hingað í ræðustól að þessu sinni, helst þó til þess að þakka góðar undirtektir undir þetta mál, sem ég reyndar átti von á miðað við það sem áður hefur komið fram þegar þetta eða skyld mál hefur borið á góma hér á hinu háa Alþingi.

Eini semingurinn, sem hefur komið fram í þessum umr., er frá hæstv. landbrh. Ræða hans gekk mjög út á það að leiða að því rök, að það hefði verið brotið í blað í þessum málum, þá helst fyrir hans atbeina síðan hann varð ráðh. Það er að sjálfsögðu ekki nein ástæða til að fara að deila um það hér, síður en svo. Hins vegar má minna á það, ekki síst þegar talað er um að stórt sé nú tekið fyrir í þessum málum, m. a. með þeim framkvæmdum sem hafa átt sér stað við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal, að á sínum tíma var uppbygging fiskeldisstöðvarinnar í Kollafirði gífurlega merkilegt átak. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir, að sá landbrh., sem vann að því, hafi ekki séð fyrir að þar þyrfti ekki meira til að koma ef ætti að ná verulegum árangri í þessum málum.

Það má kannske minna á það í þessu sambandi varðandi annað útibúið eða ráðunautinn sem hefur verið settur niður á Egilsstöðum, að sú skipan er alls ekki komin í eðlilegt horf enn þá. Það var gert samkv. till. sem var samþykkt hér á Alþingi. Frumkvæðið er því héðan komið og ég vænti þess, að svo muni einnig verða með samþykki þessarar þáltill., þar komi hvatning til að taka fastar á þessum málum.

Ég ætla ekki heldur að fara að ræða hér um hagræðingarféð sem svo hefur verið kallað og fengist hefur með breytingum á jarðræktarlögunum frá árinu 1979. Menn eiga eftir að fjalla um það og það verður væntanlega skýrt hér á Alþingi, að við það hefur alls ekki verið staðið. Því hefur alls ekki verið fylgt eftir með þær fjárveitingar sem lögin fjalla um. Og það er nú svo, að það má ekki tvívegis eða oftar vera að tala um gildi þess fjár, eins og reyndar hefur verið skýrt hér af öðrum ræðumanni. Ég ætla ekki að fjalla meira um það að þessu sinni. Það gefst tími til þess síðar og þá ekki síst í sambandi við þann hluta sem hefur gengið til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þar hefur sannarlega helst verið farið eftir sögunni um nýju fötin keisarans, þar sem Stofnlánadeildinni hefur verið réttur ákveðinn hluti af þessu hagræðingarfjármagni sem opinbert fjárframlag, en aftur á móti hefur samkv. fjárlögum og vegna ákvarðana stjórnvalda verið skorið af lögboðnum fjárveitingum til Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Þetta fannst mér eðlilegt að kæmi fram við þessa umr. og þá sérstaklega vegna þess tóns sem gætti í orðum hæstv. landbrh. Ég gat tæpast skilið hann öðruvísi en svo, að hann teldi að þessum málum væri svo vel komið að ekki þyrfti þar um að bæta. En eins og allir hafa væntanlega tekið eftir hafa aðrir ræðumenn tekið undir þetta mál og talið það gagnlegt og endurtek ég þakklæti mitt fyrir það.