23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

356. mál, endurskoðun á lögum um fuglafriðun

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka ráðh. báðum fyrir svör þeirra og læt í ljós ánægju mína yfir því, að þess sé að vænta, að von bráðar verði lagt fram frv. um uppfærslu á sektum fyrir brot á þessum lögum um fuglafriðun, og vænti þess, að Alþingi sjái sér fært að afgreiða það frv. þegar á þessu þingi.

Út af mávunum vil ég rifja það upp, að mér hefur fundist að það væri fullmikil vernd á mávum í frv. einmitt. Ég get tekið hettumávinn sem dæmi því að ég man ekki betur en þar sé haldið sömu friðarhendinni yfir hettumávi og gert er í þeim lögum sem nú eru í gildi. En undir hitt tek ég, því að það er rétt hjá hv. þm: sem hann sagði um mávinn, að auðvitað hefur mávurinn miklu hlutverki að gegna í útrýmingu sorps, sem aftur kallar á nauðsyn þess, að betur sé farið með sorp og matarleifar en gert hefur verið. Það er dapurlegt að vita til þess, að jafnvel þar sem svo saklausar stofnanir sem skólar risa skuli vera komið máva- eða hrafnager áður en maður veit af, einmitt vegna þess að matarleifum er kastað út á víðavang. Auðvitað þarf að huga að þessu, og auðvitað er ekki hægt að nota þá aðferð að drepa mávana með eitri eða öðru slíku til frambúðar, heldur verðum við að reyna að koma í veg fyrir fjölgun máva, hvernig svo sem það á að gerast. Mér skilst, að þm. hefðu gott af því að fara til Suðurnesja og sjá mávagerið þar til þess að átta sig á því vandamáll sem risið hefur upp í þessum efnum.