23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2590 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

355. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi, nánar tiltekið 17. febr. 1981, var samþykkt þáltill. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar fara fram könnun á réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Í því skyni skipti viðkomandi ráðh. nefnd er geri tillögur um hvernig réttindum þess verði best fyrir komið, sérstaklega með tilliti til eignarréttar og erfðarréttar. Nefndin skal hraða störfum svo sem kostur er og skila álitsgerð og tillögum áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“

Samkv. þessari þál. átti nefndin að skila álitsgerð og tillögum áður en Alþingi kom saman s.l. haust. Því hef ég leyft mér að leggja fyrir hæstv. dómsmrh. fsp. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hefur nefnd, sem gera átti tillögur um hvernig réttindum fólks í óvígðri sambúð verði best fyrir komið, sérstaklega með tilliti til eignar- og erfðaréttar, skilað álitsgerð og tillögum í samræmi við samþykkt þáltill. frá 17. febr. 1981?

2. Ef svo er: a) Hverjar eru tillögur nefndarinnar? b) Má vænta þess, að tillögur um úrbætur til að tryggja betur réttindi og skyldur fólks í óvígðri sambúð verði lagðar fram á yfirstandandi Alþingi?“

Það er ekki fjarri lagi að áætla að a.m.k. 5 þúsund manns búi í óvígðri sambúð. Í óvígðri sambúð ríkir í reynd margháttuð réttaróvissa, ekki síst með tilliti til eignarréttar og erfðarréttar. Að sama skapi er hjónabandið lögverndað á margvíslegan hátt. Um fjármál hjóna eru lögmætar reglur, sem veita hjónum ákveðna vernd, og einnig er lögbundin skylda til framfærslu og fleira. Um hjón gilda ítarleg lög, t.d. lög um stofnun og slit hjúskapar, lög um réttindi og skyldur hjóna svo og sérstakt ákvæði í erfðalögum, svo að eitthvað sé nefnt. Það er ekki að ófyrirsynju að slík lög hafa verið sett, því margvísleg vandamál geta risið upp sem torleyst yrðu ef engra laga nyti við.

Þó að óvígð sambúð sé orðin svo algeng sem raun ber vitni nýtur þetta sambúðarform lítillar réttarverndar, einkum að því er varðar eignarrétt og erfðarétt. Nokkuð hefur verið úr bætt, sérstaklega á sviði almannatrygginga, en í 52. gr. almannatryggingalaga kemur fram viðurkenning á þessu sambúðarformi. Einnig er í barnalögunum ákvæði er snerta rétt óskilgetinna barna. Óviðunandi er engu að síður hve mikil óvissa ríkir um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð að því er snertir fjármálauppgjör við sambúðarslit. Staðreynd er, að margsinnis hefur komið fram mikið misrétti við slíkt fjármálauppgjör og oft rísa upp vandleyst mál þar sem alla lagavernd vantar i fjármálauppgjöri við sambúðarslit fólks í óvígðri sambúð. Nefna má að stundum stendur sambúðin svo áratugum skiptir og allar eignir búsins hafa orðið til á þeim tíma.

Eignamyndun er sameiginlegt framlag beggja sambúðaraðila, ýmist beint, t.d. þegar bæði hafa haft atvinnutekjur, eða þá óbeint, ef kona vinnur á heimilinu og stuðlar þannig að bættri tekjuöflunaraðstöðu karlmannsins. Ef um fasteignamyndun er að ræða á sambúðartímanum geta risið upp mikil vandamál við sambúðarslit ef aðeins annar aðilinn er þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Í hæstaréttardómum má sjá að oft hefur sú leið verið farin til að draga úr mesta óréttlætinu, sem skapast við fjárhagslegt uppgjör milli sambúðarfólks í slíkum tilfellum, að dæma konunni þóknun fyrir störf hennar í þágu heimilis, en það liggur í augum uppi að ef um mikla eignamyndun hefur verið að ræða á sambúðartímanum getur sú fjárhæð verið hverfandi lítil í samanburði við það að um helmingaskipti á eignum væri að ræða, eins og tíðkast um sambúðarslit hjóna.

Einnig má benda á að í óvígðri sambúð skapast engin erfðatengsl milli sambúðarfólksins og því nýtur langlífari sambúðaraðilinn ekki erfðaréttar nema sérstök erfðaskrá hafi verið gerð. Þeir, sem búa í óvígðri sambúð, eiga því ekki gagnkvæman erfðarétt og ekki rétt til að sitja í óskiptu búi. Erfðarétturinn verður að vera tryggður í erfðaskrá. Þó mörgu fleira mætti við bæta um réttaróvissu fólks í óvígðri sambúð og á hvern hátt rétt og skynsamlegt væri á að taka, þá leyfir fyrirspurnatími ekki langar umr. um það.

Af því, sem ég hef hér rakið, má þó ljóst vera, að brýnt er að ekki tefjist að leggja fram tillögur um úrbætur á hvernig réttindum og skyldum í óvígðri sambúð verði best fyrir komið. Í því skyni, að hér verði úr bætt hið bráðasta, hef ég lagt fram þá fsp. til dómsmrh. sem hér liggur fyrir á þskj. 322 og ég hef þegar lýst.