23.02.1982
Sameinað þing: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2593 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

355. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. dómsmrh., að þessi mál liggja alls ekki einföld fyrir og það eru býsna miklar flækjur í því, hversu sambúð er háttað. Það getur verið með mjög mismunandi hætti. Oft er það svo, að fólk stofnar til óvígðrar sambúðar, sem kallað er, einfaldlega vegna þess að það vill átta sig betur á því, hvort það kjósi að rugla saman reytum sínum. Í Njálu er frá því sagt, að Njáll hafi kallað það girndarráð hjá Gunnari og Hallgerði langbrók. Svo mun það oft vera í óvígðri sambúð, að þar er um þvílík hjónabönd að ræða sem Njáll skilgreindi svo skemmtilega.

Auðvitað þarf að því að hyggja eins og öðru, hversu eignar- og erfðarétti skuli háttað, en einnig mun vera hægt í vígðum hjónaböndum að flækja mál býsna mikið, t.d. með kaupmála, séreign og öðru slíku, þannig að það er síður en svo að allar eignir í hjónabandi séu hjúskapareign.

Á hinn bóginn hef ég haldið því fram lengi, að rétt sé að erfðir viðgangist, en það, sem annað hjóna erfir, skuli vera séreign, en ekki hjúskapareign, og hef raunar flutt um það frv. hér á Alþingi. En það frv. fékk ekki náð fyrir augum þeirrar norrænu löggjafar sem hæstv. dómsmrh. vitnaði til. Ég held þess vegna að aðalatriðið í þessu máli sé að reyna að hafa löggjöfina betri, þó það kunni að dragast eitt eða tvö þing, og rasa ekki um ráð fram í þessum efnum.