23.02.1982
Neðri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er liður í ráðstöfunum ríkisstj. í efnahagsmálum sem boðaðar voru í skýrslu hennar 28. janúar. Að mínum dómi eru þessar ráðstafanir allar lítið bitastæðar og duga lítt í baráttunni gegn verðbólgunni, þótt segja megi að þær hafi aðeins áhrif til lækkunar verðbólgustigs og geti því talist spor í rétta átt, en tæplega meira. Til að ná þeim nýjustu markmiðum, sem ríkisstj. hefur sett sér í verðbólgumálum, að verðbólga verði um 35% á þessu ári og hraði hennar í lok ársins 30%, þurfa til að koma nýjar aðgerðir í sumar.

Um þá endurskoðun á vísitölugrundvellum, sem nú er hafinn, er gott eitt að segja, en ef ná á samkomulagi um hann við hvern einasta þrýstihóp í þjóðfélaginu er hætt við að útþynningin verði mikil. Það verður ekki ráðið við verðbólguna að neinu marki hér á landi fremur en annars staðar nema keðjuverkandi sjálfvirkni vísitölukerfisins verði afnumin, a.m.k. að verulegu leyti, og menn sætti sig við minni hækkanir í krónutölu í dag til að geta greitt með verðminni krónum á morgun. Það er svo stjórnvalda hverju sinni að verja kaupmátt láglauna með sérstökum aðgerðum, t.d. í skatta- og tryggingamálum.

Sífelldar reikningskúnstir fjölmargra hagspekinga og heilla stofnana og allskyns millifærslur í þeim eina tilgangi á reikningslegan hátt að greiða lægra kaup en framfærslumælir vísitölunnar sýnir segja okkur blátt áfram að þetta kerfi hefur gengið sér til húðar þótt það hafi gert sitt gagn í fyrstu. Þetta vísitölukerfi virðist fremur sniðið fyrir þjóðfélag þar sem verðbólga er á lágu stigi, en fyrir þá miklu verðbólgu sem ríkt hefur hér á landi frá vinstristjórnarárunum 1971–1974.

Þegar ríkisstj., sem nú situr, var mynduð í febrúar 1980 gaf ég henni fyrirheit um stuðning til góðra mála. Eitt stærsta verkefni hennar var að færa niður verðbólguna í áföngum. Fyrsta árið miðaði lítið, en verðbólgan hélst þó nokkurn veginn í skefjum. Efnahagsaðgerðirnar í fyrra báru árangur, en slakað var á er líða tók á árið. Því er vandinn meiri nú en ella hefði orðið og sérstaklega er svigrumið til aðgerða grenilega minna en áður.

Þá vil ég láta koma fram við þessa umr., að fremur er ógeðfellt að standa í niðurskurði á nýsamþykktum fjárlögum, sérstaklega framkvæmdaliðum, eins og t.d. vegamálum, og hef ég allan fyrirvara um það. En niðurskurður rekstrarliða er í mörgum tilvikum sjálfsagður. Það er bara að hann standist í raun. Lækkun launaskatts um 1% fyrir fiskverkun og útflutnings- og samkeppnisiðnað svo og lækkun stimpilgjalds af afurðalánum er spor í rétta átt til að létta á allt of miklum álögum á atvinnuvegina. En gjaldið fyrir það, 1% tollafgreiðslugjald, er hreinlega tollahækkun, svo ljóminn af þessu dofnar svo ekki sé meira sagt: Ég mun styðja brtt. sem ganga lengra í þá átt að létta launaskatti af atvinnuvegunum og bornar hafa verið fram við þessa umr.

Þó að þetta efnahagsfrv. dugi skammt nema sem liður í áframhaldandi aðgerðum í sumar mun ég ekki hindra framgang þess. En það geri ég í trausti þess, að staðið verði við það fyrirheit um áframhaldandi lækkun verðbólgunnar síðari hluta árs sem ríkisstj. hefur sett sér.