23.02.1982
Neðri deild: 44. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim mörgu sem dáðust að sjálfstæðiskennd virðulegs 12. þm. Reykv. áður en hann dró till. sína til baka, og ég harma það veika yfirklór sem hann reyndi að viðhafa hér. Það er augljóst að hv. þm. er að verða laginn stjórnmálamaður. Hann getur kannske náð út til fólksins og talið því trú um að hér hafi allt verið klappað og klárt og allt fengist fram með brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. En að sjálfsögðu blekkir hann ekki þm. með tali sínu. Ég býst við að frsm. okkar í meiri hl. fjh.- og viðskn. eigi létt með að svara honum hér á eftir og geri því ekki frekari tilraun til þess. En ég harma að svona skuli fara fyrir svo góðum dreng sem hv. 12. þm. Reykv. er í raun og veru.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp í ræðustólinn, virðulegi forseti, er smáhugleiðing sem hefur verið að velkjast í huga mínum undir umr. og er um hvernig vegferð mála sé farið þegar vara kemur til landsins. Menn geta fylgt eftir í huganum vörusendingu sem kemur til landsins. Hver er þá vegferð mála? Hún er sú, ef ég má fyrst vitna í frv.: Það er gert ráð fyrir að tollafgreiðslugjald það, sem ráðgert er að innheimta í tolli samkv. þessu frv. til laga um breytta tekjuöflun ríkisins vegna ráðstafana í efnahagsmálum á þskj. 337, verði 1% af tollverði vöru og verði það innheimt við greiðslu aðflutningsgjalda í tolli. Þá er meðferðin sú, að varan hefur að sjálfsögðu komið til landsins og breyst frá því að vera fob.-vara í cif.-vöru. Við verðmyndunina í tolli eru að sjálfsögðu taldir með allir þeir kostnaðarliðir, sem þar eiga sér stað, og eru færðir á sérstök eyðublöð, síðan er kostnáðarverð vörunnar reiknað út og þá eru öll gjöld í tolli komin til skila. Þegar þessi verðmyndun hefur átt sér stað frá fob. til cif. til kostnaðarverðs, með öllum gjöldum í tolli, þar með talið afgreiðslugjald, þá kemur til álagningar. Þá er reiknuð út álagning. Lokaþáttur verðmyndunar hjá innflytjanda er söluskattur. Þegar hann er kominn er allt lagt saman og þá er komin niðurstaða. Þetta er niðurstaða um verðið í heildsölu, skulum við segja, og síðan er verðinu dreift á einingar vörunnar sem er í hverri sendingu.

Ef menn skilja þessa málsmeðferð stendur það eftir í mínum huga, að þetta 1% gjald hefur tekið með sér önnur gjöld ríkisins í útreikningunum ég nefndi eitt: söluskatt-og því vil ég leyfa mér að leggja fram spurningu. — Nú, það er ekki hægt að leggja hana fyrir neinn. Það er hvorki fjmrh. né heldur formaður fjh.- og viðskn. viðstaddur. — Alla vega er spurningin sú: Hver er þá hin raunverulega upphæð sem ríkissjóður fær vegna þessa 1% sem lagt er á sem tollafgreiðslugjald upphaflega? Hæstv. fjmrh. er genginn í salinn. Það var ekki að minni ósk, en ég ætla að endurtaka spurninguna og rifja upp fyrir hæstv. ráðh.: Ég hef þrætt hér vegferð innflutningsskjala allt frá því að vara breytist frá fob. í cif. í kostnaðarverð vöru, síðan bætt á álagningu innflytjandans, sem endar svo með síðasta lið á innflutningsskýrslu eða á skýrslu til verðlagsstjóra. — Það eru fleiri en eitt þing í gangi. (Forseti: Ráðherrafundur er ekki leyfður hér í deildinni.) Ég vona að ég þurfi ekki að endurtaka það sem ég var búinn að segja, en síðasti liðurinn — ég er búinn að segja það nokkrum sinnum — í verðmyndun innfluttrar vöru er söluskatturinn. Það er síðasti liðurinn í að mynda hið eiginlega verð til neytendanna. Í þessu tilfelli eru söluskattur og önnur gjöld, sem reiknast í tolli og er bætt við verðmyndun vörunnar, kominn á þetta 1%, og þá vil ég mega leggja þá spurningu fyrir hæstv. ráðh., hvort sem hann svarar henni nú eða seinna í umr. um þetta mál: Hvað hefur þetta 1% hlaðið á sig í ríkissjóðstekjum og hver er þá endanleg tekjuaukning ríkissjóðs vegna þessa gjalds? Ég vona að hæstv. ráðh. hafi heyrt spurninguna, og ég vona að hann geti svarað henni einhvern tíma í þessum umr.