24.02.1982
Efri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2620 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

170. mál, flutningssamningar

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til l. um flutningssamninga og ábyrgð vöruflutninga á landi. Frv. þetta var samið af nefnd sem skipuð var af samgrh. Áttu sæti í þeirri nefnd fulltrúar flytjenda og þeirra sem á flutningi þurfa að halda. Samgn. fékk þessa nefnd á sinn fund og fékk útskýringar nefndarmanna um málið. Enn fremur var frv. sent hagsmunaaðilum til umsagnar. Þær umsagnir, sem bárust, voru jákvæðar. Eitt atriði var bent á sem skiptar skoðanir eru um. Það er hámark það sem kveðið er á um í 19. gr., að ekki megi vera meira en 150 kr. fyrir hvert kg brúttó í vörusendingu. Þessi tala mun vera miðuð við það sem gerist í flugflutningum og er samkomulagsatriði milli aðila.

Við 24. gr. flytur nefndin brtt. á þskj. 363 þar sem lögð er áhersla á að vara verði ekki eyðilögð af ótta við hættu sem af henni stafar, nema því aðeins að ýtrasta nauðsyn krefji og reynt sé að gæta hagsmuna sendanda vörunnar eins og frekast er kostur. Leggur nefndin einróma til að frv. verði samþykkt með þessari brtt.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Lárus Jónsson og Guðmundur Karlsson.