24.02.1982
Efri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2622 í B-deild Alþingistíðinda. (2250)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

.Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um skattskyldu innlánsstofnana. Eins og öllum hv. alþm. er kunnugt var gefin yfirlýsing um það hinn 28. jan. s.l. af hálfu ríkisstj., jafnhliða því sem gerð var grein fyrir ýmsum aðgerðum í efnahagsmálum, að lagður yrði sérstakur skattur á banka og sparisjóði. Skattur þessi mun gefa í tekjur um 40 millj. kr. nettó og er ein af þremur tekjuöflunarleiðum ríkissjóðs til að standa undir niðurfærslu verðlags sem svarar 6 vísitölustigum. Eins og kunnugt er, þá er meginþorri þess fjármagns, sem gengur til niðurfærslu verðlags, fenginn úr fjárlagadæminu, eða um 180–190 millj. kr. Einnig eru útgjöld ríkissjóðs lækkuð sem nemur um 120 millj. kr. Til viðbótar kemur svo þessi skattlagning á banka og aðrar innlánsstofnanir og er henni ætlað að gefa um 40 millj. kr.

Þetta frv. er þó allt annað og miklu meira en einföld tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Þetta frv. felur í sér eðlilega samræmingu í skattakerfinu. Hér er lagt til að fallið verði frá skattfrelsi sem gilt hefur fram að þessu um viðskiptabanka og sparisjóði og að þessar stofnanir verði skattskyldar samkv. lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Engin sérstök rök mæla með því, að allt aðrar reglur gildi um skattskyldu þessara stofnana en annarra, og mun starfsemi banka og sparisjóða víðast hvar skattskyld í nálægum löndum. Sá tekju- og eignarskattur, sem hér er gerð tillaga um, nær til tekna þess árs sem er að líða, ársins 1982, og til eigna í lok þess árs. Álagning samkv. þessu frv. fer fram á árinu 1983, ef það verður að lögum. Hins vegar er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir að á þessu ári verði innheimtur sérstakur skattur sem nemi 0.06% af heildarinnlánum þeirra innlánsstofnana sem frv. tekur til. Tekjur ríkissjóðs af skatti þessum, ef frv. verður samþykkt, af öllum ákvæðum þess, þ. á m. bráðabirgðaákvæðinu, eru 40 millj. eins og ég hef þegar tekið fram, en tekjur ríkissjóðs af þessum veltuskatti, sem lagður er á til bráðabirgða, er um 50 millj. Það, sem á milli ber, eru ákvæði til bráðabirgða V í frv., þar sem gert er ráð fyrir að það hlutfall, sem gjaldeyrisbönkunum er gert að greiða af gengismun og umboðsþóknun samkv. lögum nr. 40 frá 1969, sé lækkað úr 60% í 50% á þessu ári og á næsta ári úr 60% í 40%. Þetta kemur til frádráttar skattlagningunni bæði þessi ár og veldur því að sjálfsögðu, að nettótekjur ríkissjóðs af þessum skatti eru minni en væri ef tekjuskatturinn væri þarna einn á ferðinni.

Þetta frv. fellir tekju- og eignarskatt á ríkisbankana þrjá, þá fjóra viðskiptabanka sem starfa undir hlutafélagaformi, á sparisjóði sem starfa samkv. lögum um sparisjóði og enn fremur á Söfnunarsjóð Íslands. Þessar stofnanir eru undanþegnar skattskyldu með tvennum hætti. Annars vegar eru þær undanskildar skatti margar hverjar sem ríkisstofnanir samkv. ákvæðum í núverandi tekju- og eignarskattslögum, en hins vegar eru sérákvæði sem undanþiggja einstakar stofnanir af þessu tagi öllum opinberum gjöldum og sköttum, sbr. fjöldamörg lagaákvæði þar um.

Í frv. er ekki lagt til að fjárfestingarlánasjóðir í eigu hins opinbera verði gerðir skattskyldir. Hér er vissulega um álitamál að ræða og gæti komið til greina að láta sömu reglu gilda um fjárfestingarlánasjóðina. En þar sem þar er yfirleitt um að ræða stofnanir sem þiggja fé af fjárlögum á hverju ári, fá bein framlög frá ríkinu á hverju ári, þá sýnist lítið unnið við að leggja skatt á þessar stofnanir jafnhliða. Aftur á móti leggur ríkið ekki fram fé til viðskiptabankanna eða hlutafélagsbankanna, eins og kunnugt er. Þar gegnir því nokkuð öðru máli. Sama gildir um sjóði sem eru sambærilegir fjárfestingarlánasjóðum og starfa í tengslum við innlánsstofnanir, eru jafnvel sérstakar deildir í innlánsstofnunum. Ekki er gerð tillaga um að þeir verði gerðir skattskyldir.

Í lögum um tekju- og eignarskatt er heimild til þess að færa niður um 5% útistandandi skuldir sem stofnast hafa vegna sölu á vöru og þjónustu og falla í gjalddaga innan eins árs frá því að til þeirra var stofnað. Ákvæði þetta gildir almennt ekki um kröfur þær sem aðilar eiga á aðra vegna lánastarfsemi. Er auðvitað ljóst að ef svo væri yrði lítið um skattlagningu á banka. En til að taka af öll tvímæli er lagt til að það sé berlega tekið fram, að ákvæðin gildi ekki um innlánsstofnanir.

Í bráðabirgðaákvæðunum eru nokkur atriði sem nauðsynlegt er að lög séu sett um vegna þessarar löggjafar. Það er í fyrsta lagi óhjákvæmilegt að setja inn í þessi lög ákvæði sem eru efnislega samhljóða þeim bráðabirgðaákvæðum sem sett voru við gildistöku núgildandi tekjuskattslaga og varða endurmat, fyrningarstofn og stofn til söluhagnaðar. Það verður að skylda þessar stofnanir til að haga bókhaldi sínu og uppgjöri í samræmi við ákvæði skattalaga, og þar sem þessar stofnanir hafa ekki verið skattlagðar verður að ætla þeim að framkvæma þetta mat, sem ég hef nú nefnt, á þessu ári.

Eins og ég hef tekið fram er ekki gert ráð fyrir að tekju- og eignarskattur sé lagður á innlánsstofnanir á þessu ári, einfaldlega vegna þess að samkv. lögum voru þessar stofnanir ekki skattskyldar á liðnu ári. Aftur á móti er lagður sérstakur veltiskattur á þessar stofnanir á þessu ári og nemur hann, eins og áður var sagt, 0.06% af heildarinnlánum þeirra í hverjum mánuði. Það má því segja að skatturinn sé að meðaltali um 0.72% af meðalinniánum í bankanum á viðkomandi ári. En réttara þótti að innheimta gjaldið mánaðarlega og er það því 0.06% af heildarinnlánum á mánuði. Þessi stofn, sem lagt er á, mun vafalaust skila skatti til ríkisins með mjög hliðstæðum hætti og væri tekju- og eignarskattur lagður á. A.m.k. er þar ekki verulegur munur á. Hér er um einkar þægilegan skattstofn að ræða þar sem þessi stofn er kunnur og upplýsingar gefnar um hann í hverjum mánuði. Virðist sem útreikningur og innheimta hans geti fallið saman við innlánsbindingu Seðlabankans, sbr. ákvæði um innlánsbindingu í seðlabankalögum.

Í ákvæði til bráðabirgða V er gerð till. um að dregið sé nokkuð úr þeirri gjaldtöku sem tíðkast hefur hjá gjaldeyrisbönkunum samkv. lögum nr. 40/1969, en það er gjald vegna tekna þessara tveggja gjaldeyrisbanka af umboðsþóknun og gengismun. Lagt er til að gjaldið lækki úr 60% í 50% á þessu ári og í 40% á næsta ári. Samanlögð skattskylda þeirra banka, sem selja gjaldeyri, eykst því ekki alfarið sem nemur þeim skatti sem nú er gerð tillaga um, heldur kemur þessi lækkun á gjaldeyrisskattinum til frádráttar.

Að lokum er gerð till. um að lög þessi skuli endurskoða eigi síðar en í árslok 1983 í ljósi þeirrar reynslu sem þá verður fengin af framkvæmd þeirra. Þessi skattur er nýmæli í íslenskri löggjöf og þykir nauðsyn bera til að lagaákvæði verði endurskoðuð í ljósi fenginnar reynslu, enda gæti þá komið til greina að fella að einhverju leyti saman þann skatt, sem lagður er á gjaldeyrisbankana, annars vegar og svo þennan skatt, sem lagður er á tekjur og eignir bankanna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en leyfi mér að leggja til að því verði vísað að lokinni þessari umr. til hv. fjh.- og viðskn.