24.02.1982
Efri deild: 47. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi gera að umræðuefni þau tæknilegu atriði sem fram koma í þessu frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana. Til þess gefst betra ráðrúm þegar málið hefur komið úr nefnd, ef það kemur þaðan. Á hinn bóginn er ekki úr vegi að fara fáeinum orðum um þá grundvallarhugsun sem felst í þessu frv. til l. um skattlagningu á innlánsstofnanir.

Auðvitað verður fyrst að velta vöngum yfir því, hverju það sæti að sú stofnun, sem ýmsir af talsmönnum Alþb., flokksbræðrum hæstv. fjmrh., gerðu sérstaklega að umtalsefni sem gróðastofnun fyrir fáeinum mánuðum, skuli vera undanþegin þessari skattskyldu. Hér fóru fram háværar umræður á haustdögum um feikilegan gróða Seðlabankans sem nauðsyn bæri til að koma höndum yfir. Að mínum dómi töluðu þá ýmsir fulltrúar ríkisstj., bæði flokksbræður hæstv. fjmrh. og reyndar ýmsir aðrir talsmenn ríkisstj., annaðhvort af ókunnugleika ellegar af ábyrgðarleysi um það sem hafði gerst í reikningum Seðlabankans. En á málflutningi þeirra mátti ekki annað skilja en mikla nauðsyn bæri til þess að koma höndum yfir hinn mikla gróða Seðlabanka Íslands. Það hefur nú að engu orðið, og sannast þá væntanlega að sá málflutningur allur var innantómur og fékk ekki staðist þá þolraun að sett yrðu lög um hvernig ætti að komast yfir þann hagnað með því að skattleggja hann. Mér finnst rétt, herra forseti, að víkja sérstaklega að þessu vegna þess að alltaf annað veifið fara fram hér á Alþingi umræður, sem eru harla ábyrgðarlausar í þessu tilliti, og það er auðvitað ánægjuefni þegar það sannast með frv.-flutningi að sá málflutningur, sem þá var uppi hafður, stóð ekki fyrir sínu.

Ef við skoðum bankakerfið hins vegar, þ.e. kerfi viðskiptabankanna, þá er það auðvitað svo að í því myndast hagnaður. Með hvað hætti myndast sá hagnaður? hljóta menn að spyrja. Jú, hann myndast fyrst og fremst vegna þess að það er mismunur á útlánsvöxtum og innlánsvöxtum. Nú er það svo í því kerfi sem hér er við lýði, að það er í rauninni ríkisstj. sem ákveður hver þessi mismunur skuli vera á hverjum tíma. Það er á valdi viðskrh. í samráði við Seðlabankann, eða Seðlabankans og viðskrh. í sameiningu, að ákveða hverjir vextir skuli vera á hinum mismunandi formum útlána. Með því er afkoma viðskiptabankanna í rauninni ákveðin.

Ef nú myndast hagnaður í viðskiptabönkunum, hvort er það þá vegna þess að innlánsvextirnir hafa verið of lágir eða útlánsvextirnir of háir? Því geta menn auðvitað velt fyrir sér. En ég held að það liggi alveg ljóst fyrir eins og mál standa núna, þegar almennir sparisjóðsreikningar bera vexti sem eru langt neðan við verðbólgustigið í landinu, að þá sé í rauninni verið að hafa fé af sparifjáreigendum með því að vaxtahæðin skuli vera þessi. Engu að síður myndast einhver hagnaður í bankakerfinu. Það, sem felst í þessu frv., er að talið sé að ríkissjóður sé rétthærri en sparifjáreigendurnir til að eignast hlut i þessum hagnaði. Á þessu vek ég athygli vegna þess að sparifjáreigendurnir eru hlunnfarnir. Ef hagnaður er í bankakerfinu gætu innlánsvextirnir verið nokkru hærri, og auðvitað getur ráðið verið það að fikra sig upp á við með innlánsvextina, mjókka bilið milli útlánsvaxta og innlánsvaxta, til þess að á þessu sviði myndist ekki óeðlilegur hagnaður. Það hefur ríkisstj. eða fulltrúi hennar, viðskrh., þegar á valdi sínu.

Þetta er leið, sem menn telja ekki ástæðu til að fara þegar hagnaður myndast í bankakerfinu, samkv. því frv. sem hér er lagt fram, heldur telja að ríkissjóður sé rétthærri í þessum efnum.

Einnig er að því er varðar frv.-flutning af þessu tagi ástæða til að gefa því örlítinn gaum, hver virðast vera helstu markmiðin í reynd í rekstri bankakerfisins. Maður gæti haldið að eitt aðalmarkmiðið í rekstri viðskiptabankanna væri að ástunda hagkvæmni í rekstri þannig að ekki væri lagt í óþarfan tilkostnað við rekstur bankakerfisins, að þeir, sem viðskiptabönkunum stýra, hefðu hagkvæmnisjónarmið mjög í hávegum.

Nú höfum við það hins vegar fyrir augunum, að það er sífelld ásókn í útibú banka og þau vaxa upp á hinum ýmsu stöðum á landinu hlið við hlið. Í tiltölulega litlum plássum eru sett niður mörg útibú. Það er gert með leyfi ráðh. Að vísu eru það þrír ráðherrar sem fara með þetta vald, og það fyrirkomulag er kannske ekki sérlega til fyrirmyndar. En jafnvel þó að ráðh. leyfi svo og svo mörg útibú á hverjum stað virðist ásókn viðskiptabankanna í fjölgun útibúanna aldrei verða fullnægt. Ef ég man rétt liggur nú fyrir á fjórða tug umsókna um útibú til viðbótar þeim sem þegar eru í landinu.

Ég held að ljóst sé að það séu ekki hagkvæmnisjónarmið sem ráða þessari miklu ásókn í útibú. Ég held að ljóst sé að innlánsstofnanirnar leggi í það að fjölga við sig útibúum, að stofnsetja ný útibú, án þess að þær geti gert sér vonir um að þau standi undir sér. Hver er þá driffjöðrin sem rekur bankakerfið áfram? Jú, ég er eindregið þeirrar skoðunar, að driffjöðrin, markmiðið, sem hver viðskiptabanki um sig hefur fyrst og fremst að leiðarljósi, sé að ná í sem mest af innlánsfé. Það er ekki hagkvæmnin, heldur er það bardaginn um innlánsféð. Þessi bardagi er háður af miklu purkunarleysi. Þessi bardagi er skýringin á því, að útibúunum fer sífellt fjölgandi og það er sífelld ásókn i fleiri og fleiri útibú þó að það liggi ljóslega fyrir, að það sé óhagkvæmt fyrir viðskiptabankann sjálfan, fyrir þjóðarbúið í heild langtum frekar.

Þetta er að mínum dómi staðan í bankakerfinu. Þegar lagt er fram frv. af því tagi sem hér er fram komið hljóta menn að velta því fyrir sér, hvort það sé líklegt til að hafa áhrif til bóta á þetta kerfi, hvort það sé líklegt til þess að auka vægi hagkvæmnisjónarmiðanna í rekstri bankakerfisins eða hvort það muni t.d. draga úr þessari feiknaásókn í útibúin. Ég held að það muni ekki draga úr þessari feiknaásókn í útibúin. Ég held að það muni frekar slæva hagkvæmnisjónarmiðin í rekstri bankakerfisins og að því leyti séu áhrifin af því neikvæð.

Mönnum hefur mátt vera það nokkuð sama í bankakerfinu, hvernig bankarnir kæmu út, — ekki alveg sama, en nokkuð sama. Enn frekar gæti þeim staðið á sama um það þegar þeir finna að það, sem gæti talist ábati af rekstrinum, á að renna í ríkissjóð — og það við þær aðstæður að sparifjáreigendur eru hlunnfarnir. Það er einmitt við þessar aðstæður — þegar markmiðið með rekstri bankakerfisins, það sem reynist vera driffjöður þess, er ekki hagkvæmnisjónarmið, heldur baráttan um innlánin, þegar sparifjáreigendur eru hlunnfarnir — sem menn hljóta að velta því fyrir sér, hversu skynsamlegt sé að flytja frv. af þessu tagi og hvert sé markmiðið með flutningi slíks frv. Ég held að það liggi ljóst fyrir, að markmiðið með flutningi þessa frv. séu engar endurbætur á bankakerfinu, það verði ekki hægt að finna neitt í þessu frv. sem bendi til þess, að það muni stuðla að endurbótum í bankakerfinu. Frekar má, eins og ég hef gert hér að umtalsefni, færa að því rök, að það muni draga úr endurbótum. Það verði síður til þess að sparifjáreigendur fái raunverulega verðtryggingu á inniánum sínum, almennu sparifé, og það verði síður til þess að hagkvæmni í rekstri bankakerfisins aukist.

Ég skal að vísu gera eina undantekningu. Það er eitt sem er greinilega jákvætt við þetta frv., og það er að það mundi væntanlega stuðla að því, að reikningar viðskiptabanka og sparisjóða yrðu settir upp með sama hætti. En ef maður skoðar frv. í þessu ljósi, þá er augljóst að þetta er eingöngu tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð, en hefur frekar neikvæð áhrif á hagkvæmni í bankakerfinu, á stöðu sparifjáreigenda, þeir standa enn verr að vígi eftir samþykkt þessa frv.

Þetta er kjarni málsins. Með þessu er ég ekki að taka fyrir það, að einhver skattlagning á viðskiptabönkum geti átt sér stað, en ég er að benda á hversu aðstæðurnar til þess eru óþægilegar eins og sakir standa og hvers konar áhrif frv. af þessu tagi er líklegt að hafa við ríkjandi aðstæður. Þess vegna tel ég að menn hljóti að skoða hug sinn gaumgæfilega um þetta mál miðað við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi í þjóðfélaginu.

Eins og ég gat um í upphafi, herra forseti, var ekki hugmynd mín að fjalla hér nákvæmlega um þau tæknilegu atriði sem í þessu frv. felast, heldur einungis að varpa ljósi á nokkra meginþætti í þeirri hugmynd að skattleggja innlánsstofnanir og hvaða vandkvæði fylgja því við núverandi aðstæður. Mun svo við 2. umr. og i nefndarstörfum gefast tækifæri til að fjalla nánar um þessi mál og meta rökin, sem liggja að baki flutningi þessa frv., og þá ekki síður, vona ég, þau rök sem ég hef hér tínt til um áhrifin á bankakerfið.