24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2633 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Við höfum nú hér í þessari deild í sambandi við atkvgr. um till. hv. 12. þm. Reykv. orðið vitni að alveg sérstakri hæfni í andlegri leikfimi, að sjá hvernig hv. þm. getur stokkið hæð sína í loft upp, snúið sér við í loftinu, farið í gegnum sjálfan sig og komið þó nokkurn veginn standandi niður, að eigin áliti a.m.k. Slíkir loftfimleikar hljóta að vera unaðslegir á að líta, svo að notað sé þekkt orðalag hér úr þingsölum, fyrir þá sem a.m.k. njóta eða hafa gaman af slíkum kúnstum. En á okkur ýmsa, sem teljum að slíkur trúðleikur eigi frekar heima í fjölleikahúsum en í þingsölum, orkar þetta þannig að við látum okkur fátt um finnast.

Það sjónarspil, sem hefur nú farið hér fram, er ekki dæmalaust í þingsölum af hálfu þessa hv. þm. Það var rifjað upp við 1. umr. þessa máls, að fyrir rúmu ári fór fram álíka sjónarspil þegar verið var að ræða um vörugjald á sælgæti og gosdrykki. Hv. þm. auglýsti sig þá sem mikinn andstæðing þess gjalds, en þegar að því kom að greiða atkv. um gjaldið sat hann hjá og tryggði þar með framgang málsins. Nokkrum vikum síðar flutti hann þó sjálfur frv. um lækkun þess gjalds um helming og fékk enn mikla auglýsingu. En þegar á hólminn kom stóð hann ekki heldur við það frv. og komst loks í þá stöðu að greiða atkv. gegn efni eigin frv. þegar sú till. á endanum kom til framkvæmda. Þetta endurtekur sig nú hér. Þegar hæstv. ríkisstj. lagði fram skýrslu sína um efnahagsmál hét hún því að lækka launaskatt á iðnaði og fiskvinnslu úr 3.5 í 2.5%. Menn skildu þetta svo að hér væri átt við allan iðnað. En þegar í ljós kom að ríkisstj. var alls ekki á því að standa við þetta loforð flutti hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson brtt. við frv.

Í frv. ríkisstj. var þessi lækkun takmörkuð við útflutnings- og samkeppnisiðnað, eins og það hét, og átti ráðherra að ákveða með reglugerð hvað undir þetta félli. En þá reis upp bjargvætturinn mikli og flutti brtt. um að allur iðnaður nyti góðs af þessu. Þessu var vissulega fagnað. Þessu var fagnað af okkur þm., sem héldum að allur iðnaður ætti að njóta góðs af, og þessu var fagnað af Landssambandi iðnaðarmanna, sem var mjög óánægt með þetta frv. hæstv. ríkisstj. eins og það var borið fram. Landssamband iðnaðarmanna hefur sent alþm. opið bréf sem hefur reyndar verið getið hér í umr. áður. Skal ég aðeins rifja upp efni þess.

Þar er rakið í upphafi hvert sé sjónarmið Landssambands iðnaðarmanna vegna þessa máls og það hafi talið, þegar skýrsla ríkisstj. birtist, að verulega væri komið til móts við sjónarmið Landssambandsins. En síðan segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er því stjórn Landssambands iðnaðarmanna gífurlegt reiðarslag, að sú lækkun launaskatts á iðnfyrirtæki úr 3.5% af greiddum vinnulaunum í 2.5%, sem ríkisstj. boðar með frv. sínu um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum, eigi fyrst og fremst að ná til útflutningsiðnaðar og samkeppnisiðnaðar samkv. þröngri og úreltri skilgreiningu þess orðs. Stærstur hluti byggingariðnaðarins, verktakastarfsemi margs konar og fleiri greinar eiga aftur á móti að greiða áfram 3.5% launaskatt.

Nú hefur Guðmundur G. Þórarinsson alþm. flutt brtt. við frv. ríkisstj. um breytta tekjuöflun ríkissjóðs. Er þar lagt til að launaskattur verði 2.5% af greiddum vinnulaunum í öllum iðnaði. Hér kemur fram skilningur á vandamálum innlends iðnaðar ásamt þeirri víðsýni sem nauðsynleg er raunhæfri iðnþróun hér á landi. Miðað við efni stefnuskráa stjórnmálaflokkanna um innienda iðnþróun og fyrri yfirlýsingar margra þm. um þetta sama málefni hefði stjórn Landssambands iðnaðarmanna búist við því, að brtt. þessi fengi góðan hljómgrunn þingheims. Raunin varð því miður nokkuð á annan veg því að ýmsir þm., jafnt stjórnarsinnar sem stjórnarandstæðingar, hafa séð ástæðu til að skattyrðast vegna þessarar fram komnu brtt. Landssamband iðnaðarmanna skorar á alla alþm., hvar í flokki sem þeir eru, að veita brtt. brautargengi.“

Þetta segir Landssamband iðnaðarmanna þegar það skorar á okkur þm. að veita nú till. hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar brautargengi. Og þeir fagna sérstaklega víðsýni hans. En skyldi þeim nú ekki bregða, forustumönnum Landssambands iðnaðarmanna, þegar þeir átta sig á því, að sjálfur flm. till., sjálfur hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, greiðir atkv. gegn eigin till. þegar hún kemur til atkv. á Alþingi.

Sannleikurinn er sá, að það eru mjög veigamiklir þættir iðnaðar sem falla utan þessarar skilgreiningar. En þegar hv. þm. lendir í þeirri stöðu, eins og hér hefur verið rifjað upp í sambandi við atkvgr., að þurfa að standa við orð sín, þegar hann áttar sig á því, að það er hætta á að þessi till. kunni að verða samþykkt þá er hann kominn í þá erfiðu aðstöðu að þurfa að reyna að hörfa án þess að missa andlitið og gleypa í sig stóru orðin án þess að verða bumbult. Og þá finnur einhver snillingur upp bjargráðið: Við skulum nota International Standard for Industrial Classification. Þar með var andliti hv. þm. bjargað að eigin dómi. Auðvitað getur slík skilgreining á orðinu iðnaði verið gagnleg í ýmsum tilvikum. Hagstofa Íslands notar þetta í hagskýrslum og hún notar þetta fyrst og fremst sem grundvöll áhættuflokkunar við álagningu slysatryggingariðgjalds. En það er alveg ljóst, ef skoðuð er þessi þykka bók hér, þar sem skilgreindir eru atvinnuvegir landsmanna samkv. þessari flokkun, að mjög veigamiklar greinar iðnaðar eru utan við þessa flokkun og meira að segja greinar sem teljast vera samkeppnisiðnaður eftir þeirri skilgreiningu sem starfsskilyrðanefnd iðnaðarins hefur gefið orðinu samkeppnisiðnaður.

Í þeirri grg., sem starfsskilyrðanefnd iðnaðarins hefur látið frá sér fara um skilin milli samkeppnisiðnaðar og annars iðnaðar, gerir þessi nefnd nokkuð ítarlega grein fyrir því, hvaða iðnaður hún telji að eigi að vera samkeppnisiðnaður. Hún flokkar þar undir m.a. alla byggingarstarfsemi nema viðgerð mannvirkja. Það flokkar þessi starfsskilyrðanefnd undir samkeppnisiðnað. Þessi iðnaður er hins vegar ekki settur undir hugtakið iðnað samkv. þeirri ágætu skilgreiningu International Standard for Industrial Classification sem öllu á nú að bjarga hér að mati hv. þm.

Það eru margar greinar iðnaðar, eins og ég sagði, sem falla utan við þessa skilgreiningu. Ég skal nefna hér nokkrar. Það er bygging og viðgerð mannvirkja, það er húsasmíði, húsamálun, múrun, pípulagningar, rafvirkjun, veggfóðrun, teppalögn, hárskerar, hárgreiðslustofur, I jósmyndaiðnaður, svo að eitthvað sé nefnt. Ég vil ítreka að stór hluti af þessum iðnaði flokkast sem samkeppnisiðnaður samkv. því sem starfsskilyrðanefnd hefur skilgreint samkeppnisiðnaðinn.

Hér hefur því verið leikinn mikill skrípaleikur. Hv. þm. hefur aftur lent í því að þurfa að kokgleypa stór orð og fengið drjúga auglýsingu reyndar út á fyrir fram. En sómi hans er lítill í þessu máli nú þegar upp er staðið. Hann hélt sig geta leikið þennan leik enn á ný, að bera fram brtt., geta greitt með henni atkv., en samt fengi hún ekki brautargengi hér í deildinni. Það er fyrst þegar hann sér að hún muni fá brautargengi að hann snýr við blaðinu og greiðir atkv. gegn eigin tillögu.

Við viljum nú nokkrir þm. enn freista þess að sú mikilvæga iðngrein, sem heitir byggingariðnaður og á í harðri samkeppni við erlendan iðnað, falli undir það að eiga að greiða 2.5% launaskatt. Þess vegna viljum við fimm þm., ég ásamt hv. 1. þm. Reykn., Matthíasi Á. Mathiesen, hv. 3. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundssyni og hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, flytja skriflega brtt. sem við óskum eftir að forseti leiti afbrigða fyrir. Hún hljóðar svo:

„2. mgr. 3. gr. frv. orðist svo:

Þó er heimilt að ákveða að greiða skuli 2.5% launaskatt af greiddum vinnulaunum og hvers konar atvinnutekjum hjá fyrirtækjum sem flokkast undirfiskverkun og iðnað samkv. atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands. Enn fremur hjá fyrirtækjum, sem flokkast undir byggingu og viðgerð mannvirkja, sem atvinnurekstur aðila (42 410) og aðila í eigin þágu (42 420), og byggingarstarfsemi og viðgerð mannvirkja ót. a. (49 490–497).“ Þetta er sú sama skilgreining og notuð er í þeirri tilvitnun sem vitnað er til framar í greininni.

Ef þessi till. yrði samþykkt, sem ég vonast eindregið til, þá mundi byggingariðnaður, annar en mannvirkjagerð á vegum ríkisins, falla undir þessa skilgreiningu og þar með greiða 2.5% launaskatt. Ég vil afhenda forseta þessa tillögu.