24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirrar ræðu sem hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísi. Gunnarsson, flutti hér áðan. Hann taldi að ég hefði sýnt hér mikla andlega leikfimi og ætti jafnvel erindi í fjölleikahús fyrir hæfni mína á því sviði. Mér þykir þetta út af fyrir sig skemmtilegt lof því að ég hef alltaf haft gaman af leikfimi. En ég á dálítið erfitt með að skilja að hv. 6. þm. Reykv., sem er lögfræðingur, skuli ekki átta sig á því, að orðið iðnaður er nokkuð sem þarf að skilgreina. Hvað er það sem menn eiga við með iðnaði? Ef brtt. mín hér á Alþingi hefði verið samþykkt sem slík, að lækka skyldi um 1% launaskatt á fiskvinnslu og iðnaði, hvernig hefðu menn þá skilið orðið iðnaður? Auðvitað hefðu menn skilið orðið iðnaður sem þá atvinnustarfsemi sem opinber stofnun okkar lýðveldis hefði skilgreint sem iðnað, þ.e. Hagstofan.

Auðvitað hefði legið beinast við að skilgreina orðið iðnaður nákvæmlega eftir þeim alþjóðlegu samningum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gengist fyrir að gerðir væru. Iðnaður sem slíkur fær allur lækkun um 1% af launaskatti. Þess vegna er till. minni hl. fjh.- og viðskn., sem hér hefur verið samþykkt, og þær breytingar, sem gerðar hafa verið, samhljóða brtt. minni. Þar af leiðandi var þeirrar till. ekki þörf lengur. Þetta hélt ég að væri ekkert erfitt fyrir menn að skilja. Ég átta mig ekki á því, að menn skuli ekki skilja það, að orðið iðnaður þarf að skilgreina og þær skilgreiningar, sem til eru í þjóðfélaginu, eru svona. Það getur vel verið að menn séu óánægðir með þær skilgreiningar og vilji breyta þeim. En þetta orð, iðnaður, hefur ákveðna merkingu i opinberum skilgreiningum, og á þeirri atvinnustarfsemi sem telst iðnaður hefur launaskattur með þessu frv. verið lækkaður um 1%. Ég get ekki séð annað en að þetta sé algjörlega skýrt.

Hv. 6. þm. Reykv. taldi síðan upp ýmsar atvinnugreinar sem hefðu fallið undan í þessu sambandi. Það er alveg rétt. Það eru ekki allar atvinnugreinar sem flokkast undir iðnað. Hann taldi þar fram hárgreiðsluiðnað, ljósmyndaiðnað o.fl. Hér hefur verið nefndur kvikmyndaiðnaður o.s.frv. Síðan flytur þessi hv. þm. hér brtt. og þá gleymir hann sjálfur öllum þessum atvinnugreinum sem hann var að telja upp. Þá var auglýsingastarfsemin það mikil hjá honum sjálfum í þessum tillöguflutningi að hann gleymdi í till. þeim iðngreinum sem hann var sjálfur að telja upp að hefðu átt að fylgja með.

Ég held að menn ættu ekki að vera að tala um auglýsingastarfsemi hjá öðrum. Það er fjarri lagi að ég hafi verið að velta neinu slíku fyrir mér. Það, sem vakti fyrir mér, var fyrst og fremst að þessi launaskattslækkun næði til alls iðnaðar. Eins og hún er framkvæmd hér og samþykkt á Alþingi nær hún til alls iðnaðar eins og hann er skilgreindur. Hvort menn eru ánægðir með þá skilgreiningu er allt annað mál. (Gripið fram í: Þetta er bara rugl.) Nei, þetta er engan veginn rugl. Þetta er hin opinbera skilgreining á iðnaði og það veit hv. þm. Friðrik Sophusson. Þess vegna eru allar þær ræður, sem hér eru haldnar um þetta mál, ekkert annað en útúrsnúningur.

Hv. 6. þm. Reykv. vakti sérstaklega athygli á því hér, að ég hefði átt þátt í því að fá lækkað vörugjald á gosdrykki. Það er alveg rétt hjá honum. Ég ætla að biðja hann að nefna það í öllum ræðum sem hann heldur úti um land og hvar sem er. Það er ágæt auglýsing út af fyrir sig. Ég vil hins vegar segja það að lokum, að eins og frv. er samþykkt nú er það miklu víðtækara, nær til miklu fjölbreyttari atvinnustarfsemi en gert hafði verið ráð fyrir. Það er því um verulegan ávinning að ræða með þeim breytingum sem orðið hafa, enda þótt öllum sé ljóst að lengra þarf að ganga. Ég geri mér vonir um að í tengslum við efnahagsaðgerðir síðar á starfstíma núv. ríkisstj. verði hægt að stíga fleiri skref áfram á þessari braut.