27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

35. mál, afstaða símnotenda til mismunandi valkosta við jöfnun símkostnaðar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þessa till. Hún er nokkuð síðbúin miðað við það sem við vitum að tilstendur í þessum efnum. Engu að síður er rétt að fara um þetta mál almennt nokkrum orðum, þó það hafi verið gert rækilega af hv. síðasta ræðumanni.

Ég held að við séum öll sammála um það — eða ég vona það a. m. k. — hér innan veggja, að jöfnun símgjalda um land allt sé nauðsyn, að menn þurfi ekki að gjalda búsetu sinnar varðandi þessa sjálfsögðu þjónustu. Það er hins vegar kannske spurning um á hvern hátt sé hægt að ná þessum jöfnuði. Sú leið, sem nú hefur verið valin til þess að þoka þar frekar í áttina, er leið sem ég heyrði fyrst í umræðum milli okkar byggðanefndarmanna á sínum tíma og póst- og símamálastjóra, sem sagði það þá, fyrir 7 eða 8 árum, að vænlegasta leið, sem hann vissi til þess, væri svokölluð skrefatalning sem nú á að fara að framkvæma.

Ég veit að þegar verið er að vinna að jöfnunarmálum yfirleitt er það svo, að þeir, sem fleyta rjómann á hverjum tíma, vilja vitanlega ekki þurfa að greiða neitt til að jafna fyrir öðrum. Það er ekkert nýtt. Þá er ég ekki að tala um flm. þessarar till., heldur okkur almennt. Það gildir sjálfsagt alveg sama ef við nytum nú einhverra sérstakra forréttinda úti á landsbyggðinni. Þá væri sjálfsagt viss tregða hjá okkur að jafna út við þá Reykvíkinga, eins og við finnum á Reykvíkingum allajafna að þeir bregðast við allillilega í hvert skipti sem reiknað er með því að jöfnuði verði náð í einhverjum efnum að einhverju leyti á þeirra kostnað. Þetta gildir reyndar um fleiri atriði, og þarf ekki að fara lengra en í kjaramálabaráttuna til að finna hliðstæð dæmi um það. Og kannske gætum við sjálf litið þar í eigin barm.

Jöfnun símgjalda hefur verið lengi mjög erfitt baráttumál fyrir þm. landsbyggðarinnar. Við höfum þokað þessu áfram smátt og smátt við hverja gjaldskrárbreytingu nú að undanförnu, en svo sorglega lítið að þegar ég sé sambærilega reikninga fólks hér á höfuðborgarsvæðinu og fólks úti á landi, þá sé ég best hvað okkur hefur þokað skammt áleiðis í þessum efnum ég tala nú ekki um ef um væri að ræða fólk úti á landsbyggðinni sem þarf að eiga einhver viðskipti við stofnanir á höfuðborgarsvæðinu.

Ég held að það sé ómaksins vert og meira en það að reyna þá leið sem nú hefur verið ákveðin til að þoka þessu máli í frekari jöfnunarátt. Sú till., sem vitnað var til áðan og samþykkt var á sínum tíma, fól ekki í sér neitt sem heitir skrefatalning, satt er það. En í umr. um þessi mál kom þetta fram og í viðræðum okkar við póst- og símamálastjóra kom það þá þegar fram, að hér væri um að ræða einhverja vænlegustu leiðina, ef ekki þá einu til að ná þessu máli lengra áleiðis. Ég vil ekki trúa því, að þessi leið, sem yfirvöld Pósts og síma bentu þá á og síðan hefur verið unnið að, hafi verið fundin upp af einhverri mannvonsku í garð Reykvíkinga, eins og stundum hefur heyrst, og þá kannske alveg sérstaklega í garð aldraðra eða öryrkja. Ekki trúi ég því. Ég held nefnilega að mergurinn málsins í sambandi við okkar símaþjónustu sé sá sem kemur fram í grg. með þessari till. og hv. síðasti ræðumaður rakti sem 1. lið í rökum þeirra sem mæla með notkun tímamælingar, að það sé réttlátt að greiða notkun samkv. notkunartímanum. Ég held að þetta sé kannske mergurinn málsins. Þetta er verið að gera með þessu móti, að hluta til þó aðeins, og þetta hlýtur að vera réttlátt í því efni.

Ágallarnir hafa verið tíundaðir svo rækilega að við gætum helst haldið að við værum með þessari skrefatalningu, þeir sem hafa fylgt henni að máli, að drýgja glæp. Ég dreg enga dul á að ég hef fylgt henni frá fyrstu tíð, eftir að mér var bent á að þar væri um vænlegustu leiðina að ræða til jöfnunar símkostnaðar um landið allt. Ágallarnir hafa verið tíundaðir svo rækilega að ég hef stundum haldið að ég stæði uppi með allhrikalegan glæp á samviskunni, alveg sérstaklega gagnvart gamla fólkinu og nú síðast gagnvart málfrelsinu í landinu og þá sjálfsagt lýðræðinu um leið.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að við eigum hins vegar að huga vel að elli- og örorkulífeyrisþegum í þessu efni. Það eigum við bara að gera með öðrum hætti. Þá á ekki að nota í þessu máli sem einhverja tylliástæðu til þess að menn séu á móti því, en ég verð að telja að flm. þessarar till. séu á móti því að jafna þennan kostnað milli allra landsmanna sem allra fyrst og sem allra best.