24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2649 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það ber brýna nauðsyn til að vekja ítrekaða athygli á uppákomu Framsfl. í þessu máli, flokks sem auðvitað er tímaskekkja í íslenskum stjórnmálum og hefur haldið sínum völdum hér og sínu fylgi fyrir þær sakir að hafa leikið svipaða leiki og hann er að gera núna á hv. Alþingi. Ég segi, að það ber brýna nauðsyn til að ítreka að menn skoði gaumgæfilega hvernig Framsfl. hefur staðið að undirbúningi og afgreiðslu á frv. til l. um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum. Þetta er vafalítið einhver furðulegasta málsmeðferð sem eitt mál hefur fengið á hinu háa Alþingi um áratugaskeið.

Nú ætla ég að renna nokkrum stoðum undir það sem ég hef sagt hér.

Ríkisstj. er frægari fyrir ýmislegt annað en að gera ráðstafanir í efnahagsmálum til langs tíma. Hennar ráðstafanir byggjast fyrst og fremst á skammtímaáætlunum sem keyrðar eru í gegn hér á þingi fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Í frægri efnahagsnefnd ríkisstj. á sæti hv. þm. sem mjög hefur verið umdeildur og á vörum þm. síðustu daga. Hann gekk ásamt öðrum sérfræðingum ríkisstj. í efnahagsmálum frá því frv. sem hér er nú til umr. Hann hafði aðstöðu og möguleika í efnahagsnefnd ríkisstj. til að gera þær athugasemdir sem hann síðan gerði í umr. á Alþingi. Hér gerir hann sína fyrstu skekk ju og Framsfl. í heild, því það er ekki hægt að draga einn þm. til ábyrgðar fyrir það sem flokkurinn stendur að í raun og veru. Síðan geri ég ráð fyrir að frv., sem hv. þm. átti þátt í að undirbúa og semja, hafi verið tekið til umræðu í þingflokki þessa hv. stjórnmálaflokks, Framsfl., og þar hafi honum gefist annað tækifæri til að gera athugasemdir við þetta frv. En það er greinilegt að þær athugasemdir hafa ekki komið fram frá hv. þm., ef hann þá hefur setið þann þingflokksfund sem fjallaði um frv.

Þá vil ég geta þess, að í dagblaðinu Tímanum á fimmtudaginn er frétt á forsíðu, sem hlýtur að hafa verið komið til blaðsins daginn áður eða á miðvikudaginn, deginum áður en hv. þm. flytur brtt. við frv. sem hann samdi og átti að fjalla um í þingflokki Framsfl. Í fyrirsögn fréttarinnar á forsíðu Tímans fimmtudaginn 18. febr., sama daginn og hann leggur fram þá brtt. hér á hinu háa Alþingi sem samflokksmenn hans segja að hafi komið sér óskaplega mikið á óvart, og líklega hafa þeir flestir lesið um brtt. í sínu málgagni á fimmtudaginn, segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarfrv. um efnahagsráðstafanir rennur ekki viðstöðulaust í gegn: Brtt. frá stjórnarliða!“ — Síðan segir og er haft eftir hv. þm., með leyfi forseta: „Ég tel, að þessi 1 prósentustigs lækkun á launaskatti eigi að ná til alls iðnaðar“ ég endurtek: „alls iðnaðar, og mun því flytja brtt. þess efnis,“ svaraði Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður spurningu Tímans þar að lútandi.“

Nú dettur mér í hug að spyrja, herra forseti: Hvernig gat blaðamaður Tímans vitað á miðvikudaginn að hv. þm. ætlaði að flytja þessa brtt., þegar samflokksmenn hans vissu ekki um brtt. fyrr en á fimmtudaginn? (GGÞ: Hvaðan hefur þú það?) Þetta er auðvitað þvílíkur skrípaleikur og þvílíkt sjónarspil hjá þessum annars ágæta flokki á stundum að engu tali tekur, og ég er sannfærður um að þessi atburður mun verða skráður á spjöld þingsögunnar með feitu letri og verða mönnum sem eins konar varnaðarorð um hvernig ekki á að haga sér í pólitík.

En í þessari grein, herra forseti, segir enn fremur: „En heldur mun sjaldgæft að stjórnarþingmenn beri fram brtt. við stjórnarfrv. Þegar efnahagsráðstafanir ríkisstj. voru kynntar í janúarmánuði s.l. var þar m.a. gert ráð fyrir að launaskattur lækkaði úr 3.5% í 2.5% í fiskiðnaði og iðnaði. Í stjórnarfrv. sem lagt hefur verið fram á Alþingi um breytta tekjuöflun ríkissjóðs vegna ráðstafana í efnahagsmálum er aðeins gert ráð fyrir lækkun launaskatts í 2.5% hjá útflutnings- og samkeppnisiðnaði auk fiskiðnaðar. Guðmundur vill sem fyrr segir að þessi skattalækkun nái til allra iðngreina.“

Herra forseti. Hér segir: „Guðmundur vill sem fyrr segir að þessi skattalækkun nái til allra iðngreina.“ Þá vænti ég þess fastlega, að hv. þm. styðji þá brtt. sem hér hefur komið fram um að þessi lækkun nái enn fremur til byggingariðnaðar.

Eftir að þessi frétt kemur í Tímanum á fimmtudaginn kemur fram brtt. hér í þingi frá hv. þm. Hann flutti þá harðorða ræðu hér, sem ég vakti sérstaka athygli á og bað þm. að minnast því að ég væri sannfærður um að það mundi mikið ganga á og margt ætti eftir að breytast og að hv. þm. mundi ekki standa við öll stóru orðin sín. Nú ætla ég ekki að ásaka hann einan. Ég beini máli mínu til Framsfl. vegna þess að hann á aðild að stjórnarsamstarfi. Ég hefði talið að það hefði þurft að nást heildarsamkomulag um jafnveigamikið frv., þó að það sé dagskammtur af efnahagsráðstöfunum, sem berst inn á borð þingmanna. Það hefði þurft að nást heildársamkomulag í ríkisstj. um þetta frv., en það hefur ekki tekist. Síðan kemur hv. þm. og dregur þessa till. sína til baka, eins og ég og fleiri höfðu spáð, — og hvað notar hann nú til að grundvalla á þá ákvörðun sína svo að hann geti kinnroðalaust dregið till. til baka? Það eru erlendir mælikvarðar á það, hvað flokkast undir það að vera iðnaður. Þessi hv. þm. gerir því ekki einu sinni skóna að einn stærsti flokkur iðnaðar í landinu, byggingariðnaður, kunni að vera út undan við afgreiðslu þessa máls. Svo gerist það auðvitað að þessi hv. þm. greiðir atkv. með till. minni hl. fjh.- og viðskn. og með því að einn af ylvolgum stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. situr hjá við atkvgr. er hægt að fella till. á jöfnum atkvæðum. Það er ekki mikil reisn yfir afgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Ég veit að deildinni og forseta er mikið í mun að fljótlega geti farið fram atkvgr. um þetta mál. En ég tel að hv. þm., sem hér hefur verið talsvert til umræðu og getur kannske sjálfum sér um kennt, sýndi nokkra stórmennsku ef hann greiddi atkv. með þeirri brtt. sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gerði grein fyrir áðan því þá væri hann samkvæmur sjálfum sér a.m.k. að þessu leyti. Hann hefur ekki verið það við afgreiðslu þessa máls, ekki á einn eða annan hátt, og ég vil gera það að lokaorðum mínum.

Ég vildi ekki að umr. um þetta mál lyki án þess að rakinn yrði þáttur Framsfl. í þessu máli, hvernig að þessu hefur verið staðið og hvaða skrípaleikur hefur verið hafður í frammi.