24.02.1982
Neðri deild: 46. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

205. mál, tekjuöflun vegna ráðstafana í efnahagsmálum

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Að vissu leyti hafa ekki verið uppbyggilegar umr. um þetta mikilvæga mál frá hendi stjórnarandstöðunnar. Ætla ég ekki að blanda mér í þær. En í sambandi við tollafgreiðslugjaldið þykir mér ástæða til að láta koma fram skoðun mína á því, sem hér hefur komið fram í umr., og undirstrika þá túlkun mína, að ég tel að á þann innflutning, sem tollur hefur verið felldur niður af samkv. gildandi ákvörðunum, verði ekki lagt tollafgreiðslugjald. Þessi gjaldtaka hlyti að falla sjálfkrafa niður vegna þeirrar ákvörðunar sem áður hefur verið tekin um niðurfellingu á innflutningsgjöldum. Undir þetta fellur margvíslegur innflutningur, eins og ég vænti að hv. alþm. sé kunnugt, bæði bifreiðar til öryrkja, ýmiss konar tæki til öryrkja og margvíslegar aðrar vörutegundir sem Alþingi hefur verið sammála um að fella niður tolla og aðflutningsgjöld af.

Ég vil vekja athygli á því, að í 2. gr. frv. stendur, með leyfi forseta.: „Fjmrh. getur með reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd ákvæða þessa kafla, þ. á m. hvaða vörur skuli undanþegnar gjaldskyldu samkv. 2. málsgr. (gr. svo og að gjald samkv. 5. málsgr. sömu greinar skuli falla niður sé tollverð vörusendingar innan tiltekinna marka.“

Ég tel að með þessari skilgreiningu hafi fjmrh. þetta ákvörðunarvald. Ég lit svo á að þarna sé fastákveðið að það sem Alþingi hefur áður ákveðið að yrðu ekki greidd innflutningsgjöld af eða tollar, falli sjálfkrafa undir þessa skilgreiningu.

Mér þykir rétt að láta þetta koma fram og undirstrika skoðun mína á þessu atriði varðandi tollafgreiðslugjaldið vegna síðari meðferðar á þessu atriði þegar það kemur til framkvæmda.