27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

35. mál, afstaða símnotenda til mismunandi valkosta við jöfnun símkostnaðar

Flm. (Jónanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Fyrst út af orðum Helga Seljans. Hann talaði um það, að í umr. um þetta mál, þegar það var á dagskrá 1974 og síðar, að mér skildist, hafi komið fram í máli manna að skrefatalningin væri leið til að jafna símakostnað landsmanna. Ég held að hann fari ekki þarna með rétt mál. Eftir því sem ég hef kynnt mér umr. um þetta. Þá var það aðeins Einn sem minntist á þetta. Það var Halldór E. Sigurðsson sem minntist á að skrefatalningin gæti verið ein leið í því máli að jafna símkostnað landsmanna. Ég held að ég gæti fullyrt að enginn hafi tekið undir það. A. m. k. sá ég það ekki í þeim umr. sem ég fór yfir um þetta mál.

Það er í sjálfu sér lítið svaravert af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar. Hann talar um að með þessari till. sé verið að bregða fæti fyrir framkvæmd þess réttlætismáls sem skrefatalningin er, eins og hann orðaði það. Auðvitað er þetta fjarstæða, nema hv. þm. sé svo sannfærður um að það verði niðurstaðan úr þessari könnun, ef samþykki verður að viðhafa hana, að meiri hl. vilji fara aðra leið. Þá væri kannske hægt að segja að við værum að bregða fæti fyrir þetta, ef hann er svo sannfærður um að þetta sé rétta leiðin. En þetta er auðvitað alrangt og sýnir það best að hann hefur ekki lesið vel þessa till. Með þessari till. er ekki verið að draga úr eða andmæla því, að jöfnun skuli vera sem mest í símkostnaði landsmanna. Eins og kemur fram í till. er einungis verið að fara þá leið að lofa símnotendum að segja afstöðu sína í þessu máli þegar fram hefur komið, ég vil undirstrika það, að hægt er að fara aðra leið til að ná sömu jöfnun.

Hv. þm. segir að þeir, sem með framkvæmdina hafa haft að gera, séu komnir að þeirri niðurstöðu að þetta verði helst gert með skrefatalningunni. Ég vil minna hv. þm. á að þeir hafa líka nýlega komist að annarri niðurstöðu. Þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu og viðurkennt það opinberlega, að hægt er að fara aðra leið í þessu máli en skrefatalninguna. Það, sem við förum fram á, flm. þessarar till., er eingöngu að fyrst það er viðurkennt að ná megi inn sömu tekjuaukningu til þess að jafna símakostnað landsmanna fái símnotendur að segja skoðun sína í þessu máli. Þetta er ósköp einfalt. Þó að þessi skrefatalning frestist um einn eða tvo mánuði tel ég það ekki skipta öllu því að það er réttlætismál líka að beðið sé eftir því, að símnotendur segi afstöðu sína í þessu máli. Það á ekki að þurfa að taka langan tíma.