27.10.1981
Sameinað þing: 10. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

35. mál, afstaða símnotenda til mismunandi valkosta við jöfnun símkostnaðar

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að mig undrar það furðulega ofstæki, sem fram gengur t. d. hjá hv. þm. Páli Péturssyni að því er þessa þáltill. varðar, og mig undrar hvaðan honum kemur sú viska, að með þessari till. sé verið að bregða fæti fyrir framkvæmd þessa rétt(ætismáls, eins og hann orðar þetta. Maðurinn hefur ekki leyfi til að tala svona vegna þess að í framsöguræðu hv. frsm. og í grg., sem till. fylgir, er bókstaflega ekkert sem vísar til þess að verið sé að bregða fæti fyrir þetta réttlætismál, eins og hann kemst að orði.

Það, sem hér er um að ræða, er einfaldlega það, að að mati vísustu manna, sem til þekkja er um að ræða tvær leiðir til að ná þessu markmið, en þær leiðir eru að öðru leyti einnig mjög misjafnar. Þarna er, eins og segir í till. sjálfri, annars vegar um að ræða hreina skrefatalningu innanbæjarsímtala og hins vegar hækkun á gjaldskrá umframskrefa að undanskildum kostnaði fyrir langlínunotendur. Í grg. kemur það skýrlega fram, að um hinn síðari valkost liggur fyrir hvað hann muni gefa af sér. Það er margsinnis tekið fram hvaða galla skrefatalningin hefur, einkum fyrir aldrað fólk, það fólk sem notar löng símtöl. Það þarf ekki mörgum orðum að fara um það, á hvaða fólki slík aðferð kemur til með að bitna. Hins vegar er ekki lagt til að hverfa frá þeim jöfnunarhugmyndum sem hér er um að ræða, heldur aðeins að gefa símnotendum kost á því að velja hvora leiðina þeir kjósa að fara. Það eru um það alveg hreinar og klárar hugmyndir með hverjum hætti á um þetta að spyrja.

Það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði þegar hann var að gera því skóna að þetta mál væri eitthvað erfitt í framkvæmd, m. a. vegna opinberra stofnana, er auðvitað alveg út í hött. Þær eru ekki nema örfá prósent af símnotendum. Svör, sem skipta máli, eru svör hinna almennu símnotenda í þessum efnum. (Gripið fram í: Hverjir eiga að svara fyrir opinberar stofnanir?) Út af fyrir sig skiptir það engu máli. Þeir notendur eru svo fáir. Það eru hinir almenni símnotendur sem taka á tillit til. Það er enginn vandi að skilja á milli í svörum hver sé vilji hinna almennu símnotenda? Staðreynd er auðvitað að feikilega hátt hlutfall af þeim býr hér á stór-Reykjavíkursvæðinu, en það fólk á sér rétt líka. Jöfnuður er flókið hugtak sem hægt er að nálgast frá mörgum sjónarhornum, og vitaskuld er það takmark í sjálfu sér að fólk hvar sem er á landinu búi við sem allra mestan jöfnuð. Ég hygg að enginn maður í þessari virðulegu stofnun mótmæli því sem almennum sannindum og sem almennum markmiðum. Hins vegar getur orkað tvímælis hvaða leiðir á að fara í jöfnunarskyni.

Það er hægt að taka annað dæmi. Á svæðum á landsbyggðinni, þar sem eru þúsund íbúar eða þaðan af færri, kostar lítið eða ekkert að komast til vinnu sinnar. Hér á stór-Reykjavíkursvæðinu kostar of fjár í bensínkostnaði að komast til vinnu sinnar. Það eru 13 km. úr Breiðholtinu niður í miðja Reykjavík. Dytti mönnum samt í hug að setja upp jöfnunarsjóð þeirra, sem þurfa að komast til vinnu sinnar, og jafna þessum kostnaði í gegnum sjóðakerfi? Þó að ég sé þm. Reykv. teldi ég slíka jöfnun ekki vera skynsamlega og verða til þess að bruðlið og eyðslan yrði meiri en það sem áynnist.

Það er líka dýrt að búa á þessu svæði, það hefur kosti og það hefur galla í hreinum efnahagslegum skilningi. Við verðum að fara að skilja að málflutningurinn má ekki bara vera á einn veg að því er þessi efni varðar.

Það er alveg rétt, að fólk á landsbyggðinni hefur borið meiri kostnað af notkun síma og menn eiga að vera af vilja gerðir til að leiðrétta það. Hins vegar má það ekki verða þannig að það bitni t. a. m. á öldruðum og öryrkjum sem hér á þessu svæði búa því að það er enginn jöfnuður. Það er beinlínis ójöfnuður sem slíkt getur falið í sér.

Hér er um að ræða hógværa og skynsamlega till. Það er vitað að það eru tvær leiðir. Og það eru uppi hugmyndir um það, sem hér eru færð rök fyrir, að seinni leiðin sem nefnd er hér í till., sé skynsamlegri og réttlátari. Hér er lagt til að símnotendur sjálfir séu spurðir, og þeir eru fullfærir um að svara hvora leiðina þeir kjósa að fara. Auk þess er hér að finna lýðræðislega aðferð sem ég er sannfærður um að gæti verið til eftirbreytni í fleiri málum. Að gera því skóna, að fólk mundi kjósa yfir sig lægri skatta eða helst enga skatta, það er náttúrlega að ætla fólk vitlausara en það er, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið að því er þessi rök hv. þm. Páls Péturssonar varðar. Hann lét hér t. a. m. falla orð um grg. þessa frv. sem eru svo ósæmileg að meira að segja fyrir neðan virðingu þessa hv. þm. hlýtur að teljast.

Kjarni málsins er sá, að það er spurning um hvaða tæknilega lausn á að nota að því er þetta varðar. Það er ekki spurning um það markmið, að símakostnað skuli jafna. En við höfum auðvitað áhyggjur af því, sem á þessum svæðum búum, á hverjum skrefatalningin kemur til með að bitna. Hún kemur til með að bitna á þeim sem síst skyldi, og það er það sem er kjarni málsins.

Þessi till. er satt að segja þannig fram komin og þannig var fyrir henni mælt, að hún gaf ekki tilefni til þeirrar ræðu sem hv. þm. Páll Pétursson flutti áðan. Ég sem einn af flm. vil undirstrika það. Hér er um till. að ræða um að símnotendum verði gert kleift að velja á milli tveggja tæknilegra valkosta. Ég hygg að alls vegna, líka vegna þess að í upphaflegu stefnunni, sem mörkuð var, var aldrei minnst á skrefatalningu, eins og hér hefur komið fram hjá mörgum ræðumönnum, sé skynsamlegt að fara þá leið sem hér er lögð til.

Jöfnuður er takmark í sjálfu sér, það skal vera alveg ljóst, og menn, hvar sem þeir búa á landinu, eiga að vera sammála um það almenna takmark. En ræða af því tagi sem hv. þm. Páll Pétursson flutti er út af fyrir sig ekki beiðni um jöfnuð því að allur málflutningurinn var svo einsýnn. Það eru fullkomlega tvær hliðar á þessum málum. Stundum er dýrt að vera hér og stundum ódýrt, og það sama gildir um Norðurland vestra eða hvað annað svæði á landinu. Um þessi mál verðum við að fjalla frá sjónarhóli heildarinnar, en ekki með þeirri einsýni sem kom fram hjá þessum hv. þm.