25.02.1982
Sameinað þing: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

198. mál, verndun á laxi í Norður-Atlantshafi

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um fullgildingu samnings um verndun lax í Norður-Atlantshafi. Sá samningur, sem hér er um að ræða, var samþykktur á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík 18.–22. jan. s.l. Samningurinn er prentaður sem fskj. með þessari þáltill. Hann verður lagður fram í Reykjavík til undirritunar 2. mars n.k. og verður undirritaður fyrir Íslands hönd þann dag.

Með þessari þáltill. fer ríkisstj. fram á heimild Alþingis til fullgildingar af Íslands hálfu á samningnum að lokinni undirritun hans.

S.l. þrjú ár hafa ríki við Norður-Atlantshaf unnið að gerð heildarsamnings um samvinnu í laxamálum. Í upphafi tóku aðeins Bandaríkin, Kanada og Efnahagsbandalag Evrópu þátt í þessum umræðum, en frá 1980 bættist Noregur við og frá 1981 einnig Ísland, Færeyjar og Svíþjóð.

Á fundinum í Osló í maí s.l. og í Genf í ágúst s.l. var ákveðið að boða til diplómataráðstefnu til að ganga frá milliríkjasamningi. Norska utanrrn. var falið að undirbúa samningsdrög sem tækju mið af fyrri umræðum. Reyndist erfitt að ákveða tíma og stað fyrir ráðstefnuna. Lokin urðu þau, að í samráði við væntanlega þátttakendur átti ríkisstjórn Íslands frumkvæði að því að boða til ráðstefnunnar í Reykjavík 18. –22. jan., eins og ég tók áður fram. Þátttakendur í ráðstefnunni voru Bandaríkin, Danmörk fyrir hönd Færeyja, Efnahagsbandalag Evrópu, Ísland, Kanada, Noregur og Svíþjóð. Um 55 fulltrúar voru á ráðstefnunni. Í lok ráðstefnunnar var samþykktur samningur sá sem hér liggur fyrir.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að úthafsveiðar á laxi hafa verið mörgum áhyggjuefni. Það hefur verið hald manna margra hverra, a.m.k. hér, að Færeyingar mundu taka eitthvað af þeim laxi sem hér væri til kominn. Hvað sem um það er, þá hefur verið augljóst mál að æskilegt væri að setja einhverjar reglur til verndar í þessu efni og koma í veg fyrir að rányrkja væri stunduð á laxi.

Með þeim samningi, sem hér liggur fyrir, hefur tekist að koma sér saman um skipulag í þessum efnum. Sett er á stofn sérstök stofnun sem á að hafa þessi mál með höndum. Hún á að hafa skrifstofu eða framkvæmdastjórn og skrifstofan á að vera í Edinborg. Jafnhliða því, sem þessi eina allsherjarstofnun er þannig sett á fót, er enn fremur um að tefla þrjár nefndir sem eru miðaðar við tiltekin svæði, þ.e. Norður-Ameríkunefnd, en í henni verða Bandaríkin og Kanada, Vestur-Grænlandsnefnd, í henni verða Bandaríkin, Efnahagsbandalag Evrópu og Kanada og Norður-Atlantshafsnefnd sem í verða Danmörk fyrir hönd Færeyja, Efnahagsbandalag Evrópu, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Auk þess munu Bandaríkin og Kanada eiga takmarkaðan atkvæðisrétt í Norður-Atlantshafsnefndinni og Efnahagsbandalagið í Norður-Ameríkunefndinni.

Þær takmarkanir, sem gerðar eru með þessum samningi og liggja í augum uppi, eru þær, að laxveiðar eru alveg bannaðar á úthafinu, þ.e. utan 200 mílna fiskveiðilögsögu. Það er enn fremur aðalreglan, að veiðar á laxi skuli bannaðar utan 12 mílna lögsögu og innan 200 mílna lögsögu. Frá þeirri reglu eru aðeins tvær undantekningar. Það er gert ráð fyrir að við Grænland megi veiða frá 12 mílunum og að 40 mílum þar út frá og að Færeyingar megi veiða í sinni fiskveiðilandhelgi.

Þetta er mjög verulegur og mikilsverður áfangi. En auk þess mun einmitt þessi stofnun og þessar nefndir starfa í þeim anda að hlynna að verndun laxins og koma í veg fyrir rányrkju á honum. Þess vegna er stigið stórt spor í þessu efni. Það hefur t.d. gerst — kannske að einhverju leyti í framhaldi af þessari ráðstefnu hér í Reykjavík og þessum samningi — að Færeyingar hafa gert samning við Efnahagsbandalagið þar sem þeir á þessu ári færa laxveiði sína niður í 750 tonn og á næsta ári ætla þeir að færa hana niður í 625 tonn. Þetta er mjög umtalsverð takmörkun frá því sem veiðin í raun og veru var s.l. ár.

Herra forseti. Samningurinn fylgir hér með og skýringar á einstökum greinum. Ég sé því ekki ástæðu til að tefja tímann með því að fara ítarlega í þetta. Þetta er allítarlegur samningur og ég verð að segja það, að ég vænti mér góðs af honum og ég tel það Íslandi til tekna, að svo vel skyldi takast til um þess ráðstefnu sem raun ber nú vitni.

Ég vil leyfa mér að leggja til að till. verði að loknum þessum hluta umr. vísað til utanrmn.