25.02.1982
Sameinað þing: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

164. mál, innlendur lífefnaiðnaður

Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um innlendan lífefnaiðnað sem ég flyt ásamt fimm öðrum þm. Framsfl. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að komið verði á fót öflugum innlendum lífefnaiðnaði. Í því sambandi beiti ríkisstj. sér fyrir eftirfarandi atriðum:

1. Með markvissri rannsóknaáætlun verði leitað svara við því, hvaða lyf, lyfjahráefni, hormóna og lífhvata geti verið hagkvæmt að vinna úr innyflum fiska, hvala og sláturdýra, sem til falla hérlendis.

2. Framleiðsla þeirra lyfja, lyfjahráefna, hormóna og lífhvata, sem rannsóknir sýna að hagkvæm sé, verði hafin jafnóðum og niðurstöður liggja fyrir.“

Svo sem öllum er kunnugt fellur til á Íslandi feiknalega mikið magn af innyflum fiska, hvala og sláturdýra, en þessi hráefni verða landsmönnum nánast að engu verðmæti. Vitað er að víða erlendis eru þessi hráefni verðmæt í lyfjaiðnaði, t.d. við framleiðslu lyfja, lyfjahráefna og lífhvata. Lífefnaiðnaður fer mjög vaxandi víða um heim, en sérstaklega ber þó að benda á í því sambandi framleiðslu lífhvata til notkunar í iðnaði. Nýlegar kannanir og rannsóknir, sem gerðar hafa verið, benda til þess, að framleiðsla lífhvata muni aukast um 8% á ári fram til 1985 í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Þessar vísbendingar liggja fyrir á sama tíma og samdráttur virðist vera í mörgum efnaiðnaði í heiminum.

Það getur enginn vafi verið á því, að Íslendingar eiga mikla möguleika á þessu sviði. Þeir eru fiskframleiðendur á heimsmælikvarða. Innyfli þorsks, svo að dæmi séu nefnd, nema um 15% af heildarþunga fisksins. Hráefnið, sem hér fellur til, er því mjög mikið. Lífefnaiðnaður er léttur sérhæfður iðnaður sem nýtir innlent hráefni og sérmenntaða starfskrafta. Íslendingar ættu því að geta orðið vel samkeppnisfærir í þessum iðnaði.

Lífefnaiðnaður hefur verið skilgreindur sem framleiðsla verðmætra lífrænna efna sem unnin eru beint eða óbeint úr lífverum, t.d. gerlum eða líffærum dýra. Framleiðslu efna með aðstoð lífhvata, sem unnir eru úr ýmsum lífverum, má einnig telja lífefnaiðnað.

Við lífefnaiðnað þarf sérstaklega þekkingu á sviði lífefnafræði og efnaverkfræði, en svo á síðari tímum í vaxandi mæli þekkingu í örverufræði og erfðafræði. Hráefni þessa iðnaðar eru, eins og áður segir, verðlitlar aukaafurðir landbúnaðar, iðnaðar og sjávarútvegs.

Lífhvataiðnaður og framleiðsla virðist eiga mjög bjarta framtíð, en lífhvatar eða ensím eru eggjahvítuefni (prótein) sem auka hraða efnahvarfa í frumum og hvata svo til öll efnahvörf frumunnar. Lífhvatar framkvæma efnabreytingar hraðar og við lægra hitastig og þrýsting en venjulegar aðferðir efnaiðnaðarins. Lífhvatarnir geta þess vegna minnkað verulega orkuþörf við margvíslegan efnaiðnað.

Í skýrslu, sem ég hef séð, frá L. Hepner & Associates í London kemur fram spá um lífhvataframleiðslu á næstu árum. Þar er talið að heildarmarkaðurinn verði milli 500 og 600 millj. dollara árið 1985 í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, en þá er eingöngu miðað við litt hreinsaða lífhvata eða bulk industrial enzymes með tiltölulega lágt innihald af hreinu ensím-próteini eða 1–3% af heildarþunga.

Lífhvataiðnaðurinn er nokkuð sérstakur að því leyti, að átta fyrirtæki í veröldinni ráða yfir um 90% framleiðslunnar og eru fimm þeirra í Vestur-Evrópu. Tvö stærstu fyrirtækin ráða yfir 60% framleiðslunnar. 16 lífhvatar eru um 99% af heildarframleiðslunni. Veruleg spurning er hvort núverandi framleiðendur geti annað þeirri eftirspurn eftir lífhvötum sem allir sérfræðingar þykjast sjá að fyrir liggur.

Árið 1974 skilaði nefnd áliti um framleiðslu lyfjaefna hérlendis úr innlendu hráefni. Nefndin dró niðurstöður sínar í sex liðum og ég vil, með leyfi forseta, lesa þessar niðurstöður hér:

1. Nefndin telur að lífefnaiðnaður eigi almennt mjög bjarta framtíð, og benda allar líkur til ört vaxandi markaða fyrir framleiðslu þessa iðnaðar á næstu árum.

2. Nýjar greinar lífefnaiðnaðar eru í mótun, eins og ensímiðnaður, og eru miklar vonir bundnar þessum tækninýjungum.

3. Mikið magn innlendra hráefna hentugt fyrir lífefnaiðnað er fyrir hendi. Hráefni þessi eru innyfli fiska, hvala og sláturdýra.

4. Unnt er að vinna ensíma, hormóna og margt fleira úr þessu hráefni og senda síðan úrganginn til mjölvinnslu eins og verið hefur venja.

5. Rannsóknir á efnamagni í hráefnum, framleiðslukostnaði og þess háttar eru forsenda þess, að unnt verði að kanna frekar grundvöll fyrir framleiðslu lyfja og annarra lífefna úr íslensku hráefni.

6. Nefndin telur nauðsynlegt að ráða hæfa starfsmenn til að sinna þessum rannsóknum. Rannsóknir þessari gefa farið fram hjá Raunvísindastofnun háskólans og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og notað aðstöðu og tækjabúnað þessara stofnana.

Þrátt fyrir þetta ágæta nál. hefur raunalega lítið miðað fram á við og við gerð síðustu fjárlaga hafnaði fjvn. því, að Raunvísindastofnun háskólans fengi að ráða sérstakan starfsmann til að vinna að rannsóknum á þessu sviði.

Við höfum lagt hér fram sem fskj. með þessari þáltill. hluta úr grein Jóns Braga Bjarnasonar dósents um lífefnaiðnað. Þar kemur fram, eins og þm. geta séð, ýmis fróðleikur um þennan iðnað og eru dregnar saman margvíslegar upplýsingar. Þar segir m.a., með leyfi forseta, og vil ég vitna stuttlega í þessa grein þó ég fari ekki yfir hana í heild hér, enda liggur hún fyrir sem fskj.:

Þær aukaafurðir fiskiðnaðar, sem sérstaklega er hugsað til sem hráefni í lífefnaiðnaði, eru innyfli, roð og lifrarvefur. „Úr þorski, sem veiðist á vetrarvertíð, eru innyflin að jafnaði um 15% af heildarþunga fisksins. Í öðrum bolfisktegundum er þetta hlutfall svolítið frábrugðið, t.d. lægra í ýsu, en yfirleitt hærra í ufsa. Innyflum má skipta yfirleitt í þrjá nokkuð jafna hluta, þegar ekkert æti er í mögum fiskanna, þ.e. lifur, hrogn (eða svil) og slög. Segja má að helmingur þessa, þ.e. lifrin og hrognin, sé þegar frátekinn til matvælaframleiðslu.

Slóginu má aftur skipta í þrennt, þ.e. maga, skúflanga og garnir, hvert um sig 1.6 til 1.7% af þunga fisksins upp úr sjó.“

Í greininni er líka drepið á aukaafurðir frá sláturhúsum, en þar er talað um þær afurðir sem henta mundu til lífefnavinnslu, svo sem ýmis innyfli og kirtlar, en víða erlendis eru þessi innyfli orðin þýðingarmiklar aukaafurðir frá sláturhúsunum. Má nefna að skjaldkirtill og kölkungur eru notaðir til skjaldkirtilshormónaframleiðslu, bris er notað til framleiðslu á insúlíni og ensímum og sæðiskirtlar til framleiðslu á prostaglandíni.

Hér er sérstaklega drepið á hvalafurðir, en Íslendingar veiða árlega um 400 hvali. Nokkur óvissa ríkir óneitanlega um framtíð hvalveiða og mun ég ekki fara fleiri orðum um það. Mögulegar framleiðsluvörur eru hér sérstaklega nefndar: Framleiðsla á sterólum og þá aðallega úr svilju, framleiðsla á chólínsýrum úr galli og ensímframleiðsla úr meltingarfærum.

Fiskroð má nýta til að vinna úr eins konar frumstig af matarlími, og gúanín má vinna úr síldarhreistri. Roð af roðfiskum en þó sérstaklega steinbít er notað í stórum stíl erlendis til limframleiðslu og í prentiðnaði.

Kítín og anthín má vinna úr rækju- og humarúrgangi, og undanfarin ár hefur farið vaxandi áhugi á framleiðslu á svokölluðum „hýdrólýsötum“. T.d. munu sumir togarar frá Vestur-Evrópu hafa búnað um borð til þess að melta slóg með ensímum og kljúfa prótemin niður í amínósýrur og peptíð, en slík blanda er þá gjarnan kölluð „próteinhýdrólýsat“. Ekki virðist vera að annmarkar séu á slíkri framleiðslu hérlendis, enda má fá nóg af nýju slógi yfir vetrarvertíð.

Til að koma þessum málum áfram þarf að efla mikið rannsóknir á sviði lífefnaiðnaðar. Mjög nauðsynlegt er að kanna magn þessara verðmætu efna í hráefninu miklu nánar og skoða hversu vinna megi þau með bestum hætti.

Í fskj. er nokkuð farið yfir verðmæti sumra þessara lífefna og ætla ég ekki sérstaklega að fara yfir það hér, enda hafa þm. það fyrir sér í fskj. En ljóst er að hér er um að ræða mjög verðmæt lyfjaefni sem unnt er að vinna úr þessum tiltölulega verðlitla úrgangi okkar.

Fram kemur í grein Jóns Braga Bjarnasonar að verulega skorti fjárveitingu til þess að unnt sé að ráða rannsóknafólk og sérfræðinga til þessara starfa. Þær rannsóknir, sem fram hafa farið á þessu mikilsverða sviði, hafa að mestu eða nær eingöngu verið með aðstoð lausráðins fólks. Það er auðvitað ljóst að hér er um að ræða það mikilsvert svið að slíkt gengur ekki lengur og ber að harma að fjvn. skyldi ekki sjá sér fært að ljá því lið, að unnt væri að ráða sérfræðing sem hefði það sem aðalstarf að vinna úr þessum rannsóknum.

Í grein Jóns Braga Bjarnasonar dósents er sérstaklega fjallað um heparin-framleiðslu, ein eins og menn vita eru eiginleikar heparins aðallega fólgnir í að hefta storknun blóðs. Heparin er þess vegna mikilvægt lyf og er aðallega notað sem andstorknunarefni við skurðaðgerðir og við skyndilega blóðtappa. Eftirspurn eftir heparini sem lyfjaefni hefur farið vaxandi á undanförnum árum og verð farið hækkandi. Mikið magn af þessu efni finnst í lungum og görnum sláturdýra. Áætlanir hafa verið gerðar um vinnslu heparins hér á landi og frumáætlanir um verksmiðju sem mundi vinna heparin úr garnaslímu, en talið er að um 500 tonn af garnaslímu megi árlega nota til framleiðslu á heparini.

Hér er jafnframt i þessu fskj. fjallað um vinnslu ensíma úr fiskúrgangi og þá sérstaklega svokallaðra próteolýtiskra ensíma úr hinum ýmsu líffærum þorsksins, þ.e. úr skúfum, maga, svilum, görnum og milta. Notagildi þessara próteolýtisku ensíma er sérstaktega í leðuriðnaði, þar sem þau eru notuð til að fjarlægja hár og trefjar af húðum og mýkja leðrið. Notkun leður- og fóðuriðnaðar eru um 10% af heildarnotkun próteolýtiskra ensíma í iðnaði. Í matvælaiðnaði, þ. á m. í mjólkur- og kjötiðnaði, bjór- og osta- og vínframleiðslu og fiskiðnaði, er mikið af þessum efnum. Í lyfjaiðnaði eru þau notuð við hreinsun sára og til að bæta skort á meltingarensímum. Í þvottaiðnaðinum eru þau notuð, því að mikill hluti óhreininda í fötum er prótein, en próteolýtisk ensím kljúfa þau niður og gera þau vatnsleysanleg þannig að þau nást úr þvottinum. Í fóðuriðnaði eru þau notuð og niðurstöður danskra tilrauna benda til að alifuglar nýti fóður mun betur ef blandað er meltingarensímum í fóðrið. Markaðurinn fyrir ensím er gífurlega stór, en stærstur er hann fyrir þessi próteolýtisku ensím.

Ég ætla ekki að fara nánar út í framleiðslu einstakra efna á þessu sviði, en mér virðist alveg ljóst að það er mikil nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að við tökum þessi mál föstum tökum og mörkum stefnu á þessu sviði. Ég hygg að það sé enginn vafi að Íslendingar geta haslað sér völl á sviði lífefnaiðnaðar. Þar höfum við innlend hráefni í miklum mæli. Við höfum fiskúrgang í miklum mæli hér. Við erum fiskframleiðendur á heimsmælikvarða. Hér er um að ræða léttan iðnað sem byggist á sérþekkingu sem við getum hæglega komið okkur upp hér í landinu. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að Íslendingar láti vinna markvissa rannsóknaáætlun um hvernig skuli standa að þessum málum, hvaða efni sé hagkvæmast að vinna úr þessum hráefnum okkar og hvernig að því skuli staðið, ásamt nauðsynlegum hagkvæmniathugunum og kostnaðaráætlunum.

Við vitum það öll, sem hér erum inni, að á undanförnum mánuðum og árum hefur farið fram mikil umræða í okkar þjóðlífi um orkuiðnað eða orkufrekan iðnað. Öllum þykir nauðsynlegt að þjóð okkar ráðist á næstu árum í vaxandi mæli í orkuiðnað. Því er ég fyllilega sammála og tel nauðsynlegt að að því sé unnið af fullri samviskusemi og áræði. En í orkuiðnaði er reyndar um að ræða iðnað þar sem hráefnin eru í nær öllum tilvikum flutt inn. Þó að okkur sé mikil nauðsyn á að efla orkuiðnað, og til þess verjum við verulegum fjármunum að leita uppi réttan iðnað og kanna hagkvæmni framleiðslu hans hér á landi, megum við ekki láta okkur sjást yfir þá feiknalegu möguleika sem geta legið einmitt á sviði annarra iðngreina, sviði létts iðnaðar, þar sem sérþekking er grundvallaratriði, ekki síst slíkum iðnaði sem lífefnaiðnaður er, þar sem hráefnin beinlínis liggja yfir fótum okkar ónotuð. Innyflum fisks og sláturdýra er að verulegu leyti hent. Þar sem við erum matvælaframleiðendur á heimsmælikvarða höfum við þarna yfir miklu hráefni að ráða. Þetta verðlitla hráefni getur orðið grundvöllur að öflugum lífefnaiðnaði í landi okkar á komandi árum. Þess vegna er þessi þáltill. lögð hér fram í von um að Alþingi marki stefnu á þessu sviði — stefnu um markvissa rannsóknaáætlun sem geti síðan orðið grunnur og undirstaða að þessari iðngrein hér.

Herra forseti. Ég vil síðan að loknum umr. um þetta mál leggja til að þessari þáltill. verði vísað til atvmn.